Unglingsárin eru vinsælt umfjöllunarefni í kvikmyndum.
Uppvaxtarárin eru oft og tíðum mjög erfiður tími en þá kveðjum við barndóminn og reynum eftir bestu getu að byrja að fullorðnast. Það er því engin furða að þessi ár eru vinsælt umfjöllunarefni í kvikmyndum. Það er úr mörgu að velja en hér eru nokkrar frábærar myndir um þetta skemmtilega þroskaferli.
Tólf ára ferli
Boyhood er sönn uppvaxtarsaga því myndin er tekin á tólf ára tímabili með sama leikarahópnum og áhorfendur horfa á aðalpersónuna, Mason, vaxa og þroskast í orðsins fyllstu merkingu á skjánum. Við kynnumst Mason þar sem hann er nýfluttur ásamt systur sinni, Samönthu, og fráskildri móður til nýrrar borgar þar sem móðir hans ætlar sér að setjast á skólabekk og hefja nýtt líf. Hann saknar föður síns en það er þó bót í máli að hann heimsækir þau systkinin um helgar til að gera eitthvað skemmtilegt. Ýmislegt gerist í lífi Masons og fjölskyldu hans sem markar skrefin sem hann tekur út í lífið, en það er, eins og allir vita, ekki alltaf dans á rósum.
Frægð og frami
Myndin Almost Famous gerist árið 1973 þegar rokkið er enn upp á sitt besta. William Miller er fimmtán ára og tónlist er hans líf og yndi. Hann er afar efnilegur penni og greinar hans í óháðu tónlistartímariti vekja athygli ritstjóra Rolling Stone. Hans fyrsta verkefni fyrir blaðið er að skrifa um hljómsveitina, Stillwater. Hann ávinnur sér traust hljómsveitarmeðlima sem bjóða honum að ferðast með bandinu og á leiðinni lendir hann í ýmsum ævintýrum. Hann kynnist meðal annars kvenaðdáendum hljómsveitarinnar og heillast sérstaklega af hinni gullfallegu Penny Lane. Þessi reynsla reynist mjög þroskandi fyrir William á fleiri en einn hátt.
Strákapör og svaðilför
Í myndinni Stand by Me rifjar fullorðinn maður upp þau strákapör sem hann og vinir hans gerðu í æsku og minnist sérstaklega einnar svaðilfarar. Fjórir tólf ára vinir heyra að ungur strákur hafi látist af slysförum nálægt smábænum þeirra og ákveða þeir að leggja upp í ferðalag til að finna líkið og verða fyrstir til að tilkynna það til lögreglu. Strákarnir, Gordie, Vern, Chris og Teddy, fylgja lestarteinunum fótgangandi því strákurinn átti að hafa orðið fyrir lest. Á leiðinni lenda þeir í ýmsum ævintýrum og jafnvel lífsháska. Ferðin verður því óvænt mjög mótandi viðburður í þeirra lífi.
Ný byrjun
Myndin The Perks of Being a Wallflower er byggð á samnefndri bók eftir Stephen Chbosky og segir frá Charlie sem stendur á tímamótum, hann hefur lokið grunnskóla og nýbyrjaður í menntaskóla. Hann hefur þó þurft að glíma við erfiðleika og áföll sem fæstir af hans samnemendum hafa kynnst, en besti vinur hans framdi sjálfsmorð nokkrum mánuðum áður og Charlie hefur átt erfitt með að sætta sig við það. Hann dreymir um að verða rithöfundur og hefur um nokkurt skeið komið hugsunum sínum frá sér í bréfum til ímyndaðrar persónu sem fær að vita allt. Fljótlega kynnist Charlie stjúpsystkinunum Sam og Patrick sem eru eldri en hann. Þau taka hann að sér og kynna hann fyrir hinum ýmsu litbrigðum lífsins, bæði innan veggja skólans og utan hans, og tekst þannig að draga hann út úr skelinni.
Dularfullar systur
Myndin fjallar um fimm systur í úthverfi Detroit árið 1974 og dularfulla tilveru þeirra. Þær búa í ósköp venjulegu húsi sem stendur við fallega gróna götu. Myndin er sögð af strákunum í nágrenninu sem dáðu þær og dýrkuðu og eru enn með þær á heilanum, tuttugu árum seinna. Þeir hittast því til að reyna að leysa ráðgátuna um Lisbon-systurnar, sem voru aldar upp við mikinn aga heimafyrir. Eftir að yngstu systurinni tekst, í sinni annarri tilraun, að svipta sig lífi verða foreldrar stúlknanna mun strangari við þær sem eldri eru. Þær einangrast smám saman frá samfélaginu og enginn gerir neitt í neinu svo að þær taka málin í sínar hendur. Þetta er saga um ást, einmanaleika, einangrun og hversu erfið unglingsárin geta verið sumum.
Texti / Hildur Friðriksdóttir