Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.1 C
Reykjavik

Fótunum kippt undan fjölskyldunni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Valgerður Sigurðardóttir skipar þriðja sætið á lista sjálfstæðismanna í Reykjavík. Hún hefur ekki tekið beinan þátt í stjórnmálum áður og því er þessi vettvangur nýr fyrir henni. Síðustu vikur og mánuðir hjá Valgerði hafa einkennst af pólitík, veikindum og aðlögun að  breyttum starfsvettvangi, en daginn eftir að hún þáði sæti á framboðslistanum fékk maðurinn hennar alvarlega heilablæðingu.

Valgerður er fædd og uppalin á Höfn í Hornafirði en flutti til Reykjavíkur til að fara í háskólanám. Hún bjó víða á höfuðborgarsvæðinu en segist ekki hafa fest almennilega rætur fyrr en hún flutti í Grafarvoginn fyrir 14 árum. Nándin við náttúruna og samheldið samfélagið fékk hana til að finnast eins og hún væri komin heim. Valgerður er gift Steini Sigurðssyni og samtals eiga þau þrjú börn.

„Við erum mjög samheldin og samstiga fjölskylda. Það skýrist eflaust af hluta til af því að við höfum ekki ömmur og afa í Reykjavík til þess að skjótast í mat til eða passa. Við eigum marga frábæra vini sem að við erum dugleg að hitta og gera skemmtilega hluti með. Ég er í frábærum hlaupahópi hérna í Grafarvogi, kannski aðeins slegið slöku við síðustu vikur en vonandi get ég farið að sýna mig meira eftir kosningar. Svo er auðvitað frábært að skella sér í Egilshöllina í hot yoga, það er góð slökun og núvitund. Við fjölskyldan erum dugleg að nýta okkur allt það sem Grafarvogurinn og næsta umhverfi býður upp á. Nálægðin við náttúruna er samt lykilatriði.“ segir Valgerður.

Aðspurð hvernig það hafi komið til að hún tók þá ákvörðun að fara í framboð, svarar Valgerður að hún hafi lengi látið málefni og hagsmuni Grafarvogs sig varða.„Mér er mjög umhugað um góða þjónustu og er oft hissa á af hverju ekki er hægt að veita grunnþjónustu er sveitarfélaginu ber að veita skammlaust. Að það sé eins og að vinna í lottó að koma barninu sínu að hjá dagforeldrum eða leikskólum. Það er algerlega galið að árið 2018 þurfum við að vera að kjósa um þá grunnþjónustu er sveitarfélaginu ber skylda til þess að veita. Ég sá að Sjálfstæðisflokkurinn var að auglýsa eftir fólki á lista og þar sem ég er mikil sjálfstæðiskona ákvað ég að gerast svo djörf að standa upp úr sófanum, hætta að tuða heima hjá mér og gefa kost á mér á lista. Þetta gerði ég án þess að hafa bakland í flokknum. Það var því óvænt ánægja að fá símtal frá kjörnefnd þar sem ég var boðuð á fund og niðurstaðan var sú að ég var sett í þriðja sætið.“

Ég var auðvitað himinlifandi með það traust sem mér var sýnt og er mjög spennt fyrir því að stíga inn á þennan nýja vettvang.“

Símtalið sem allir óttast að fá

Fótunum var hins vegar kippt skyndilega undan Valgerði og fjölskyldu, þegar Steini veiktist óvænt í febrúar og setti það lífið í annað takt.

„Þann 20. febrúar, daginn eftir að ég hafði þegið 3. sæti Sjálfstæðisflokksins í komandi borgarstjórnarkosningum, kom símtalið sem enginn vill fá en allir óttast að fá. Samstarfskona Steina hringir í mig um tvö leytið eftir hádegi og segir mér að hann hafi hnigið niður í vinnunni og það sé verið að flytja hann á Borgarspítalann. Ég rauk úr vinnu, leiðin frá Borgartúni niður á Borgarspítala í Fossvogi virtist óralöng og ótal hugsanir flugu í gegnum huga mér. Það eina sem ég vissi var að hann var mjög kvalinn en með meðvitund,“ segir Valgerður þegar hún rifjar upp þennan örlagaríka dag.

Ég fylltist einhverri óbilandi trú um að þetta myndi fara vel. Ég trúði því ekki að Steini minn færi frá mér þegar það væri svona fallegur dagur.

- Auglýsing -

Þegar Valgerður kom niður á bráðamóttöku var henni greint frá því að stór æð hefði sprungið í höfðinu á Steina og það væri tvísýnt með lífslíkur. Hún segist strax hafa fengið óaðfinnanlega þjónustu, hafi upplifað alúð og nærgætni frá starfsfólki og fengið að spyrja spurninga. „Ég fylltist ofsahræðslu í fyrstu. Steini var á leið í aðgerð og samt hélt lífið áfram fyrir utan spítalann. Skóladegi barnanna var brátt að ljúka og ljóst að ég var ekkert á heimleið næsta sólarhringinn. Vinkonurnar og fjölskyldan var ræst út og þau gættu þess að ég þyrfti ekki að hugsa um neitt utan veggja spítalans. Ómetanlegt en samt var það þeim svo sjálfsagt. Á meðan aðgerðin fór fram sat ég frammi á gangi og beið í von og ótta. Allt í einu braust sólin fram úr skýjunum og inn um gluggann þar sem ég sat og svo fór að snjóa, ekta jólasnjó. Ég fylltist einhverri óbilandi trú um að þetta myndi fara vel. Ég trúði því ekki að Steini minn færi frá mér þegar það væri svona fallegur dagur.“

Að aðgerð lokinni var Valgerði tilkynnt að Steini væri ekki með mátt vinstra megin í líkamanum en næsta dag sást að hann væri að koma til baka. Læknarnir fullvissuðu hana um að Steini myndi ná sér að fullu en fram undan væri langt bataferli. Honum var haldið sofandi en Valgerður að segir það hafa verið dásamlega stund þegar hann vaknaði á þriðja degi. „Sú staðreynd að hann væri á lífi voru góðar fréttir og annað skipti mig ekki máli á þessum tímapunkti. Í dag sjáum við fram á bjarta framtíð. Bataferlið hefur verið undravert, Steini glímir í dag við eftirköst af veikindunum og á að taka það rólega fram á haust. En við erum þakklát fyrir að hafa hann hjá okkur.“

Þetta er aðeins brot úr viðtalinu við Valgerði. Viðtalið í heild má nálgast í nýjasta tölublaði Vikunnar. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -