Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Frísklegra útlit í fjórum skrefum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Okkur hættir til að láta allt annað, jólagjafainnkaup, smákökubakstur, þrif, skreytingar, eldamennsku eða baðtíma barnanna, ganga fyrir okkar eigin vellíðan og afslöppun. Þess vegna erum við oft örmagna á aðfangadagskvöld og þau þreytumerki sjást í andliti okkar. Í ár ættum við allar að reyna að gefa okkur tíma fyrir okkur sjálfar, það þarf ekki að vera meira en tuttugu mínútur og getur ýmist verið á jóladag, annan í jólum eða hvenær sem hentar. Nýtum þennan tíma til að hressa upp á húðina og til að láta stressið líða úr okkur.

Fyrsta skref
Það er grundvallaratriði að byrja með hreina húð, þannig að ef þú ert með farða á þér eftir daginn skaltu þrífa hann af þér, muna að taka tvöfalda hreinsun. Síðan er mikilvægt að djúphreinsa húðina því þegar dauðar húðfrumur safnast fyrir á yfirborðinu verður ásýnd húðarinnar líflausari og ójafnari. Hægt er að nota einhvers konar skrúbb en best er að nota ávaxtasýru, öðru nafni glycolic-sýra, því hún hreinsar burtu dauðu húðfrumurnar í hvelli án þess að erta húðina.

Annað skref
Fylgdu hreinsuninni eftir með léttu andlitsnuddi því það eykur blóðflæði til húðarinnar og byggir upp vöðvana svo að hún slappast síður. Lykillinn að góðu andlitsnuddi er að nota einhvers konar olíu til að koma í veg fyrir að húðin dragist til. Það má nota olíuhreinsi eða þartilgerða andlitsolíu en einnig er vel hægt að nota almennar plöntuolíur svo sem kókosolíu eða möndluolíu. Gott er að byrja með léttum en þéttum strokum upp á við og til hliðar til að undirbúa húðina og síðan eru fingurgómar löngutangar notaðir til að þrýsta á punkta á andlitinu. Eftir eingöngu eitt skipti er hægt að sjá mikinn mun á húðinni sem virkar slakari en jafnframt stinnari og ljómar vegna aukins blóðflæðis og næringar. Þrífðu húðina svo með volgum þvottapoka eða notaðu tissjú til að fjarlægja leifar af olíu.

Þriðja skref
Við höfum áður mælt með því að nota tvo maska hvorn á fætur öðrum, fyrst hreinsimaska og svo rakamaska, til að hámarka áhrifin. Hreinsimöskum er ætlað að hreinsa burtu dauðar húðfrumur og önnur óhreinindi og gefa húðinni sléttara yfirbragð. Í rakamöskum eru hins vegar ýmis rakagefandi og róandi efni sem hjálpa við að styrkja húðina, gera áferð hennar fallegri og auka ljóma hennar. Þegar maður er tímabundinn er sniðugra að nota nokkra maska í einu á ólík svæði andlitsins og sníða þannig andlitsmaskann eftir sínum þörfum. Flestir maskar þurfa um fimmtán mínútur til að virka, en yfirleitt er óhætt að leyfa þeim að vera á húðinni í um það bil hálftíma svo það er um að gera að slappa af. Húð augnsvæðisins er þynnri og viðkvæmari en annars staðar á andlitinu sem þýðir að öll þreytumerki verða sýnilegri þar og hún þarfnast sérstakrar umhirðu. Regluleg notkun augnkrema getur dregið úr baugum, minnkað poka og þrota og spornað gegn hrukkumyndun á svæðinu. En stundum er þörf á skjótari lausn og þá er gott að grípa til augnmaska sem eru oftast þunnar tauskífur, gegnsósa í virkum efnum, og lagðar á augnsvæðið.

Fjórða skref
Eftir að þú hefur þvegið maskana af er mikilvægt að koma strax aftur raka á húðina. Byrjaðu á að strjúka bómullarskífu yfir með rakagefandi og róandi andlitsvatni sem undirbýr húðina fyrir þann rakagjafa sem kemur á eftir. Rakaþörf húðar getur verið mjög mismunandi, sumir eru með þurra húð, aðrir feita, en allir þurfa þó að nota rakakrem við sitt hæfi. Ekki er úr vegi að nota olíu á húðina ef maður er að fara í háttinn því olíur innihalda mikið magn virkra og náttúrulegra efna og veita húðinni góðan raka og næringu. Ef þú ert að dekra við þig á aðfangadagsmorgun eða ert ekki að fara beint í háttinn nægir þér að setja á þig rakagefandi serum, síðan þitt venjulega dagkrem og þá ertu tilbúin í slaginn.

Umsjón / Hildur Friðriksdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -