Þriðjudagur 29. október, 2024
5.7 C
Reykjavik

Furðu mikið að gera og sjá í Óðinsvéum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sveinn Sigurðsson mælir með áhugaverðum stöðum í Óðinsvéum.

Sveinn Sigurðsson bjó í miðbæ Óðinsvéa árin 2013-2015 þar sem hann var í námi í University of Southern Denmark og útskrifaðist með meistaragráðu í vörumerkjastjórnun og markaðssamskiptum. Hann er nú í atvinnuleit og bloggar um bjór hjá nobsbrewing.com.

„Þrátt fyrir að Óðinsvé sé þriðja stærsta borg Danmerkur með rúmlega 170 þúsund íbúa þá minnir borgin meira á smábæ. Íbúarnir eru virkilega vingjarnlegir og taka sérstaklega vel á móti Íslendingum,“ segir Sveinn sem bjó þar í tvö ár ásamt kærustu sinni, Þóreyju Richardt Úlfarsdóttur, og þar fæddist sonur þeirra, Almar Darri. „Í borginni eru margir viðburðir og hátíðir allan ársins hring, til dæmis H.C. Andersen Festival, Harry Potter-hátíð, Danski bjórdagurinn og tónlistarhátíðin Tinderbox.“

Munke Mose og Eventyrhave
Í miðborg Óðinsvéa eru tveir almenningsgarðar sem eru tengdir saman með göngustíg og þar þótti mér alltaf gaman að koma. Í Munke Mose er gott að setjast niður, fylgjast með mannlífinu og fuglalífinu og jafnvel fara í siglingu upp eftir Óðinsvéánni. Í Eventyrhave sem er í göngufjarlægð frá Munke Mose er fallegur blómagarður og einnig mörg listaverk tengd ævintýrum H.C. Andersen.

„Þrátt fyrir að Óðinsvé sé þriðja stærsta borg Danmerkur með rúmlega 170 þúsund íbúa þá minnir borgin meira á smábæ,“ segir Sveinn

Gamli bærinn
Mér finnst gamli bærinn sérstaklega fallegur og mjög gaman að rölta þar í gegn. Þar er hægt að kíkja í skranbúðir, sjá fæðingarstað H.C. Andersen og H.C. Andersen-safnið en einnig eru þar mörg sögufræg hús og staðir sem gaman er að líta á.

Egeskov-kastalinn
Egeskov-kastalinn er staðsettur í hálftíma akstursfjarlægð frá Óðinsvéum og hefur eitthvað við hæfi allra. Þar er mjög stór blómagarður sem fékk verðlaunin Best European Historic Garden árið 2012. Hægt er að skoða sjálfan kastalann og þar inni eru ýmsir sögulegir munir. Á svæðinu við kastalann er einnig stórt safn með ýmsum farartækjum, mikill fjöldi af mótorhjólum og bílum sem maður hefur ekki oft tækifæri til að sjá.

Markaðurinn á höfninni
Yfir sumartímann er gaman að fara niður á höfn á sunnudögum og skoða markað þar sem fólk kemur og selur notaða hluti. Þar myndast oft skemmtileg stemning og finna má ýmislegt forvitnilegt og skemmtilegt. Einnig er hægt að rölta um hafnarsvæðið og skoða bátana.

- Auglýsing -

Dýragarðurinn
Dýragarðurinn í Óðinsvéum er einstaklega skemmtilegur og hefur fengið verðlaun fyrir að vera besti dýragarður í Evrópu. Þar er hægt að sjá hin ýmsu dýr og smáfólkið getur fengið að klappa dýrum í húsdýragarðinum á svæðinu. Ég mæli sérstaklega með því að taka með nesti og verja heilum degi í að skoða dýrin.

Christian Firtal
Vegna þess að ég er mikill bjóráhugamaður þá get ég ekki sleppt því að minnast á Christian Firtal. Þessi litli staður er staðsettur í göngugötu niðri í bæ og þar er boðið upp á marga af bestu handverksbjórum sem framleiddir eru á Norðurlöndunum. Þar er hægt að fá 20 bjórtegundir á krana og fjöldann allan af bjór á flöskum en einnig eru margar gerðir af viskíi og koníaki.

Umsjón / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Mynd / Ingibjörg Hilmarsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -