Aníta Hirlekar vann til gullverðlauna á The International Design Awards, árlegri uppskeruhátíð arkitekta og hönnuða.
„Það er ótrúlega jákvætt að störf manns fái svona athygli og svo er alltaf frábært að fá viðurkenningu fyrir vinnuna sína, þetta er bara rosalegur heiður,“ segir Aníta Hirlekgar fata- og textílhönnuður um sigurinn.
The International Design Awards eru afhent í Bandaríkjunum ár hvert af alþjóðlegri dómnefnd og veitt þeim sem þykja skara fram úr á sviði arkitektúrs, innanhússhönnunar, grafískrar hönnunar, vöruhönnunar og fatahönnunar. „Þetta eru alþjóðleg keppni sem fer fram í Los Angeles í Bandaríkjunum í því skyni að hvetja unga og upprennandi hönnuði til dáða og vekja á þeim athygli,“ útskýrir Aníta, sem vann til gullverðlauna í flokki Pret-A-Porter Woman fyrir haust- og vetrarlínu sína sem kom á markað á síðasta ári.
Í umsögn dómnefndar kemur fram að litasamsetning línunnar sé einstök, óvenjuleg og heillandi og heimurinn sem Aníta hafi skapað í kringum hana sé sérstaklega eftirtektarverður „Mér finnst ótrúlega gaman að línan skyldi heilla dómnefndina, sérstaklega þar sem ég lagði mikla vinnu í hana,“ segir hún. „Ég var alveg tvö og hálft ár að vinna hana, frá því að ég skissaði hana upp og þar til hún fór í framleiðslu.“
„Stílastar erlendra stjarna hafa verið að senda mér skilaboð, þeir vilja kaupa föt á viðskiptavini sína.“
Spurð hver sé hugmyndin að baki línunni segir Aníta að hún hafa byrjað sem einskonar andóf gegn klisjum innan tískuheimsins. „Þar er búið að vera mjög mikið í tísku að nota falleg blóm og plöntur sem innblástur og ég vildi búa til abstrakt blóm sem væru einskonar andóf gegn þeirri vinsælu hugmynd. Ég fór því að gera mínar eigin útgáfur í textíl og þróa þær og úr varð þessi litríka haust- og vetrarlína.“
Aníta tekur fram að fatnaðurinn sé allur hannaður og þróaður verkstæði hennar á Íslandi. „Þar handgeri ég textílprufur og þróa mynstur, en mynstrin sem eru prentuð á flíkunar eru öll handmáluð, sem krefst mikillar vinnu. Það gerir líka að verkum að þótt flíkur séu gerðar úr sama mynstri þá er hver og ein einstök.“
Línan var upphaflega frumsýnd á HönnunarMars í fyrra og hlaut góðar undirtektir og Aníta neitar ekki að henni þyki skemmtilegt að nú, heilu ári síðar, skuli hún hafa heillað dómnefnd úti í heimi. „Já, mér finnst ótrúlega gaman og magnað að ég skuli hafa frumsýnt línuna hérna og Íslandi og nú sé dómnefnd úti að tala um hana. Það sýnir bara enn og aftur að íslensk hönnun er að fá athygli langt út fyrir landsteinana,“ segir hún glaðlega.
Og í kjölfar sigursins hafa viðbrögðin ekki látið á sér standa. „Ég hef fundið fyrir miklum áhuga frá Bandaríkjunum. Fólk úr öðrum geirum í hönnunarheiminum hefur sett sig í samband við mig með það fyrir augum að skoða mögulegt samstarf og stílastar erlendra stjarna hafa verið að senda mér skilaboð, þeir vilja kaupa föt á viðskiptavini sína. Þessi bandaríski heimur er svolítið fjarlægur og það getur verið erfitt að nálgast hann þannig að þessi verðlaun gætu opnað dyr og ný tækifæri,“ segir Aníta, full tilhlökkunar.