Laugardagur 26. október, 2024
4.5 C
Reykjavik

Gallagripur í hamingjuleit

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni:

Þegar ég stóð í skilnaði í fyrsta skipti átti ég samúð vina og ættingja. Fólk kom gjarnan til mín og sagði mér hversu leitt það væri vegna þess að hjónabandið gekk ekki upp og var óspart á ráðleggingar. Þegar ég skildi við eiginmann númer tvö fékk ég allt öðruvísi viðbrögð og ég varð vör við gífurlega fordóma. Vinir og ættingjar veltu því fyrir sér hvað væri að mér og af hverju í ósköpunum ég gæti ekki haldist í hjónabandi. Skilaboðin sem ég fékk voru þau að ég hlyti að vera hinn mesti gallagripur.

„Ég fékk meðal annars að heyra að við hefðum verið of ung þegar við hittumst, of ólík og fólk gekk svo langt að spyrja mig út í hvernig kynlífi okkar hefði verið háttað og hvort ég hefði sinnt honum nægilega vel! Þeir voru fáir sem sáu eitthvað athugavert við leiðina sem hann valdi, að láta sig hverfa á brott.“

Ég var tvítug þegar ég hitti fyrsta eiginmann minn. Við vorum bæði í námi og unnum samhliða því, keyptum okkur litla íbúð og ég hélt að ég væri búin að höndla hamingjuna fyrir lífstíð. Við giftum okkur eftir eins árs samband og við áttum heiminn. Eftir þriggja ára hjónaband fann ég lítinn miða á eldhúsborðinu einn föstudagseftirmiðdaginn. Á honum stóð að maðurinn væri farinn frá mér og vildi gjarnan sækja dótið sitt nokkrum dögum síðar. Hann notaði helgina til að skreppa til útlanda með annarri konu og flutti svo inn til hennar á mánudeginum. Ég fékk hálfgert taugaáfall enda stóð ég í þeirri trú að allt væri í góðu lagi á milli okkar. Ég fékk aldrei neinar útskýringar enda óskaði ég þeirra ekki frá honum. Ég átti nóg með að púsla sálartetrinu í mér saman því fátt er meira andlega niðurbrjótandi en að standa í skilnaði. Að sjálfsögðu var dómsstóll götunnar (vinir og ættingjar) búinn að greina ástæður skilnaðarins niður í rót. Ég fékk meðal annars að heyra að við hefðum verið of ung þegar við hittumst, of ólík og fólk gekk svo langt að spyrja mig út í hvernig kynlífi okkar hefði verið háttað og hvort ég hefði sinnt honum nægilega vel! Þeir voru fáir sem sáu eitthvað athugavert við leiðina sem hann valdi, að láta sig hverfa á brott. Eftir þetta hef ég veitt því athygli að í langflestum tilfellum þyki fólki það vera sök konunnar ef hjónabandið gengur ekki upp. Þær hafa ekki gert þetta og hitt nægilega vel að ógleymdum endalausum athugasemdum um útlit þeirra. Hjónabandsraunum mínum var hvergi nærri lokið á þessum tímapunkti þótt ég héldi að ég væri búin með minn skammt af höfnun.

Hið fullkomna hjónaband!

Þremur árum síðar hitti ég Ólaf. Þar sem ég var þakin örum á sálinni eftir fyrri reynslu, fór ég mér hægt og taldi að ég hefði haft alla neyðarhemla í lagi. Eftir tveggja ára samband fór ég að geta hugsað mér að deila hluta af lífinu með þessum yndislega manni. Þetta var fyrsta alvörusambandið hans og því erfitt fyrir hann að gera sér í hugarlund af hverju ég var svona hvekkt og vildi fara mér hægt. Hann kraup á kné og bað mín og væntanlega brúðurin sveif um á sæluskýi, þess fullviss að núna myndi hamingjan elta hana hvert fótspor. Ólafur starfaði í auglýsingaiðnaði og ég kynntist nýjum heimi í gegnum hann þar sem ég er kennari. Ég hitti margt fólk og kynntist mörgum þekktum andlitum. Veislur og kokteilboð urðu fljótlega hluti af lífsstíl okkar og ég lagði mig svo sannarlega fram um að aðlagast breyttum aðstæðum. Eftir tveggja ára hjónaband þurfti Ólafur að sinna verkefni erlendis í tæpt ár og ég ákvað að drífa mig með honum. Við höfðum lengi rætt um barneignir en Ólafur vildi alltaf bíða aðeins lengur, hann óttaðist skuldbindinguna. Á meðan við vorum úti varð ég ófrísk án þess að hafa planað það. Ég var alsæl þar sem ég þráði fátt meira en að eignast barn en því miður gladdist Ólafur ekki á sama hátt. Í hans huga voru börn fjötrar. Fyrstu mánuðir meðgöngunnar voru hræðilegir, ég kastaði stanslaust upp og endaði á sjúkrahúsi í útlendri borg þar sem ég þekkti fáa. Ólafur gaf það skýrt til kynna hversu lítið þetta barn, og meðgangan, kæmi honum við og sýndi mér litla væntumþykju. Ég var komin sex mánuði á leið þegar ég flaug heim en hann ætlaði að ljúka verkefninu og koma heim fyrir fæðinguna enda aðeins farinn að mildast í afstöðu sinni á þessum tíma. Hann kom heim þremur dögum áður en Sveinn litli fæddist. Um leið og hann fékk son sinn í fangið iðraðist hann orða sinna og hegðunar gagnvart barninu sem nú væri fætt og Sveinn var sólargeislinn hans um tíma.

Stríð án orða

- Auglýsing -

Hjónaband okkar var gott í nokkra mánuði á eftir. Ólafur gat varla séð af syni sínum og var hættur að stunda veisluhöldin í kringum vinnuna, hann vildi bara vera heima hjá okkur. Ég lagði mig fram um að vera þessi fyrirmyndarhúsmóðir og það eina sem Ólafur þurfti að gera var að mæta heim í mat. Ég gerði engar kröfur til hans, hvorki varðandi heimilisstörf né annað. Ég sá um að panta borð á veitingahúsi eða leikhúsmiða ef mig langaði að eiga rómantíska kvöldstund. Ég var sífellt á nálum því mér fannst sambandið standa og falla með því hvernig ég héldi utan um það og ég trúði því að ég ein bæri ábyrgð á hvernig til tækist. Sambandið versnaði smám saman og þegar við héldum upp á eins árs afmæli Sveins, töluðumst við varla við. Í stað þess að rífast, notuðum við þögnina sem tjáningartæki. Ég leitaði til sálfræðinga og annarra ráðgjafa í von um að þeir gætu hjálpað mér að bæta hjónabandið. Þeir bentu mér allir á þá staðreynd að ég væri ein að leita hjálpar en hjónaband byggðist á samspili tveggja einstaklinga. Ég reyndi að ræða við Ólaf um vandann en hann vildi ekki heyra á það minnst og rauk út í hvert skipti sem þessi mál komu upp. Einu sinni ætlaði ég að koma honum á óvart með því að kaupa helgarferð til London en þegar ég sýndi honum farmiðann, spurði hann hvað í ósköpunum ég væri að hugsa. Hann þyrfti að vinna alla helgina og hefði engan tíma í slór. Í stað þess að eiga rómantíska helgi með manninum mínum, fór ég með vinkonu minni í verslunarferð. Þegar Sveinn var tveggja ára viðurkenndi ég loksins fyrir sjálfri mér að ég væri í dauðadæmdu hjónabandi. Sambandið var steindautt og það fyrir löngu síðan.

Ólafur var ekki lengi að samþykkja skilnað þegar ég bar hann upp. Hann viðurkenndi að hafa lengi langað að ræða þann möguleika því hann vildi ekki búa við þetta ástand lengur. Hann var þegar búinn að koma sér upp verkefni erlendis og var á leiðinni út til sex mánaða þegar við ræddum um að skilja. Á meðan hann var úti undirbjó ég framtíð okkar Sveins. Mér fannst óendanlega sárt að þurfa að selja fallega húsið okkar en ég varð að gera það og ég keypti litla íbúð þess í stað. Þegar maður skilur er ekki nóg með að þurfa að takast á við allar tilfinningarnar, heldur tapar maður líka hluta af eigum sínum og þarf að byrja aftur frá grunni að koma sér upp húsnæði, húsmunum og öðru slíku.

Hjartað hafði vinninginn

- Auglýsing -

Ég hefði aldrei getað ímyndað mér viðbrögðin sem ég fékk frá fólki þegar það fór að spyrjast út að við værum að skilja. Það fyrirgefst að skilja einu sinni á lífsleiðinni enda annað hvert hjónaband sem endar með skilnaði. En skilnaður númer tvö er dauðadómur. Ég fékk að heyra svo margar andstyggilegar athugasemdir að ég ætla ekki að hafa þær verstu eftir. Skyndilega höfðu allir skoðun á því hvernig maður á að viðhalda góðu hjónabandi. Mamma fór að segja mér að stundum væri ég illa til fara að hennar mati og þar af leiðandi lítið spennandi fyrir manninn minn. Pabbi tilkynnti mér að ég hefði fitnað þegar ég gekk með strákinn og það gæti nú skýrt ýmislegt (bara svona til áréttingar þá er ég 175 cm á hæð og sextíu kíló). Ég fékk aldrei að heyra neina athugasemd í þá veru að hugsanlega hefði Ólafur ekki sinnt hjónabandinu nægilega vel. Hann var jú bara duglegi maðurinn sem vann nánast allan sólarhringinn til sjá fjölskyldunni farboða, eða þannig leit dæmið að minnsta kosti út í augum fólksins. Ein vinkona mín benti mér á að þar sem Ólafur væri alltaf í partíum með fræga fólkinu, skildi ég örugglega ekki hugsunarháttinn sem viðgengist þar, því ég væri nú bara kennari. Sem betur fer lét ég þessar illkvittnu athugasemdir ekki brjóta mig niður en ég verð að viðurkenna að auðvitað sárnuðu mér orð minna nánustu. Hvaða rétt hafði annað fólk til að dæma mig og mínar aðstæður hverju sinni? Ekki var ég að biðja það um álit og ég get rétt ímyndað mér hvað var sagt um mig þegar ég heyrði ekki til. Ég hef það oft á tilfinningunni að fólk haldi að skilnaður sé smitandi sjúkdómur því á tímabili fannst mér svokallaðir „vinir mínir“ forðast mig. Það gleymdist (alveg óvart) að bjóða mér í afmælisveislur, innflutningspartí og giftingar en svo frétti ég seinna af því að Ólafi hafi verið boðið (ætli það hafi verið fyrir tilviljun?).

„Ég hefði aldrei getað ímyndað mér viðbrögðin sem ég fékk frá fólki þegar það fór að spyrjast út að við værum að skilja. Það fyrirgefst að skilja einu sinni á lífsleiðinni enda annað hvert hjónaband sem endar með skilnaði. En skilnaður númer tvö er dauðadómur.“

Þegar ég hitti núverandi sambýlismann minn, fyrir tíu árum, var ég ekki á leiðinni í fleiri ástarsambönd. Mér fannst nóg komið. Honum tókst hins vegar að heilla mig upp úr skónum á nokkrum mánuðum. Ég var mjög lengi að læra að treysta honum og öðlast trú á sambandinu. Það má segja að þarna hafi tvær óheillakrákur hist því hann átti líka tvær sambúðir að baki og vissi nákvæmlega hvernig það væri að standa í þeim sporum að gera upp við sig hvort maður sé tilbúinn, eina ferðina enn.

Sem betur fer létum við hjartað ráða för og rugluðum saman reytum okkar. Við erum ekki gift og tókum þá ákvörðun strax að búa í óvígðri sambúð. Sambandið hefur svo sannarlega borið ávöxt, því í dag eigum við saman þrjú börn og erum hamingjusamari með hverju árinu sem líður.

Við erum öll bara mannleg og þar af leiðandi gera allir mistök einhvern tíma, sumir velja sér rangan maka en aðrir haga sér ekki eftir settum reglum. Stundum eru mistökin okkar svo stór að þau eru sjáanleg en sem betur fer gerum við líka oft mistök sem minna ber á. Næst þegar þú fréttir af einhverjum sem stendur í skilnaði eða sambúðarslitum, slepptu öllum athugasemdum og ráðleggingum. Það leikur sér enginn að því að standa í þessum sporum. Ef þú vilt gera eitthvað, sendu viðkomandi eins mikið af hlýjum hugsunum og þú getur. Það er það eina sem sárþjáð sál þarf á að halda.

Lífsreynslusaga úr Vikunni. Í hverri viku birtast spennandi lífsreynslusögur. Tryggðu þér eintak í næstu verslun eða í áskrift.

Fylgstu með Lífsreynslusögur Vikunnar á Facebook. Lífsreynslusögur er hlaðvarp þar sem blaðakonan Guðrún Óla Jónsdóttir les áhugaverðar lífsreynslusögur úr Vikunni. Í hverjum þætti eru fimm sögur lesnar. Þættirnir koma inn á Spotify og Storytel.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -