Föstudagur 27. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Gerðu meira af því sem gerir þig glaða og graða

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Stolinn koss er ávallt sætastur,“ sagði einhver. Jú, það getur vissulega verið sætt að stela sér kossi en ef viðkomandi er ókunnugur, eða svo gott sem, er huggulegt að biðja um leyfi. Spurningin „má ég kyssa þig?“ getur jafnvel verið mjög sexí og kveikt neista sem fer eins og eldur um sinu.

 

Ég veit svo sem ekki hvort það sé hægt að kenna einhverjum listina að kyssa vel; kannski er þetta svolítið spurning um að vera annaðhvort góður í því eður ei. Svo er auðvitað huglægt hjá hverjum og einum hvað er góður koss og hvað ekki. En eitt er víst að það er um að gera að æfa sig og kossar skaða ekki, sé rétt farið að og þeir skiljia ekki eftir sig frunsu eða bitsár.

Ég held því fram, algjörlega kinnroðalaust, að ég sé mjög góð í að kyssa. Og mér finnst það afar gaman þótt ég geri ekki alveg nógu mikið af því þessa dagana. „Gerðu meira af því sem gerir þig glaða,“ er ágætis tilvitnun sem ég ætti kannski að taka til athugunar. Og jafnvel ganga lengra og segja: „Gerðu meira af því sem gerir þig glaða og graða.“

Þegar pör hafa verið lengi saman gleymist nefnilega stundum að kossar geta verið stór hluti af forleiknum, það er oft verið að flýta sér og fólk dembir sér beint í rúmið án þess að gera mikið meira en rífa sig úr fötunum og ganga til verks. Hvað kveikir meira í manni en kossar og létt kitl á næmu svæðin eins og til dæmis varirnar og hálsinn?

Holly Richmond, sálfræðingur og kynlífsráðgjafi, hvetur sambúðarfólk og kærustupör til að gera meira af því að kyssast og segir að kelerí hafi önnur áhrif á tilfinningar fólks heldur en kynlíf. Kossar gefi til kynna að maður hafi áhuga á viðkomandi og langi til að eiga tíma með honum, það liggi ekkert á og aðalmálið sé að njóta. Það sé sem sagt ekki bara verið að stefna á að ná fullnægingu eins og er nú líklega oftast málið í kynlífinu.

Velkomin heim, voff voff

- Auglýsing -

Ég skil hvað Holly er að fara með kossa í samböndum en verandi einhleyp er ég meira að kyssa mér til gamans. Reyndar finnst mér þetta auðvitað líka spurning um að sjá svo hvort kossaflensið geti leitt til einhvers meira. Að mínu mati skiptir góð færni í kossum mjög miklu máli og ég myndi satt að segja ekki nenna að eyða mjög löngum tíma í að reyna að fá einhvern til að verða betri í þessari list sem kossar eru. Ég hef kysst nokkuð marga gaura og það hefur verið jafnmisjafnt og þeir hafa verið margir.

„Það er líka eitthvað kynæsandi við það að vera beðinn svona um leyfi fyrir kossi.“

Þegar hinn gríski Konstantinos, sem var líkastur grískum guði í mannsmynd, hallaði sér að mér og spurði hvort hann mætti kyssa mig, kiknaði ég í hnjánum og fékk fiðring út um allt. Ég hugsaði með mér að þetta gæti ekki orðið annað en stórkostlegt svo ég kinkaði kolli, ég gat ekki talað því ég kom ekki upp orði fyrir spennu. Konstantinos með sínar þykku og fagurlega löguðu varir hallaði sér rólega að mér og horfði djúpt í augu mín. Hann mátti eiga það að hann byrjaði vel. Það er líka eitthvað kynæsandi við það að vera beðinn svona um leyfi fyrir kossi. En svo byrjaði ballið. Grikkinn fór hamförum með vörunum og tungunni, rétt eins og andlitið á mér væri risastór sleikipinni. Hann kyssti mig með opnum munni yfir allt andlitið og sleikti mig einhvern veginn í framan í hverjum kossi. Nú hef ég aldrei átt hund, en ég get ímyndað mér að svona myndi húsbóndahollur hundur taka á móti eiganda sínum eftir langan aðskilnað. Voff!

Svo var það hinn þýski Michael. Hann var hvorki með þykkar varir né fagurlega lagaðar og það að kyssa hann gerði barasta ekkert fyrir mig. Hann skaut tungubroddinum alltaf upp í mig ótt og títt, mjög hratt, inn út, inn út, inn út. Þegar ég lokaði augunum ímyndaði ég mér að ég væri að kyssa slöngu, þið vitið hvernig þær eru; skjótandi út úr sér tungunni. Ég hugsaði líka að þetta hlyti að vera óskaplega þreytandi fyrir hann, þ.e.a.s. ef maður getur orðið þreyttur í tungunni. Við Michael vorum búin að hittast í smátíma þegar ég ákvað að segja við hann að ég væri ekki alveg að fíla þessa slöngu-aðferð hans. Hann tók ekkert sérlega vel í þessa athugasemd mína og sagði: „Allar konur sem ég hef kysst hafa sagt að þeim þætti þetta rosalega gott.“ Ég brosti blítt og sagðist þá annaðhvort vera sú fyrsta sem þetta höfðaði ekki til eða ég væri sú fyrsta sem þyrði að segja satt.

- Auglýsing -

Svo hef ég kysst menn sem hafa alveg verið með þetta og ég hefði hugsanlega getað staðið í kossaflensi með þeim allan sólarhringinn. Og margir þeirra hafa verið íslenskir, ég vil taka það fram svo ekki sé á strákana okkar hallað.

Að spyrja um leyfi getur verið sexí

„Góður koss ætti að vera eins og góðar samræður,“ sagði vinur minn um daginn þegar ég var að leggja drög að þessum kossapistli mínum og spurði hann hvað honum þætti um kossa. „Maður þarf að koma með innlegg í umræðuna, fattarðu. Og það sama á við um kossa. Maður til dæmis hægir á sér og þá læðir hinn aðilinn tungunni inn fyrir varirnar á mér á meðan. Mér finnst líka geggjað ef hún færir sig frá því að narta létt í varirnar yfir í það að narta létt í eyrnasneplana. En það má ekki bíta fast, nema með mínu leyfi,“ sagði hann og blikkaði mig.

„Góður koss ætti að vera eins og góðar samræður.“

Vinkona mín sem sat þarna við borðið hjá okkur kinkaði kolli og sagði að það skipti líka máli að hinn aðilinn væri með athyglina í lagi. „Ef hann til dæmis er alltaf að reyna að reka upp í mig tunguna en ég er með munninn harðlokaðan, þá er greinilegt að mig langar ekkert að hleypa henni upp í mig,“ sagði hún ákveðin. „Ég vil ekki að gaurinn ráðist á mig eins og ég sé risastór ís með dýfu. Fyrir mér skiptir máli að byrja rólega á kossinum, með lokaðan munn og svo er hægt að opna örlítið fyrir fleiri möguleika. Mér finnst líka alltaf notalegt þegar hann tekur varlega utan um höfuðið á mér eða gælir við hárið í hnakkanum á meðan við erum að kyssast.“

Við sammæltumst um að það væri svo sem ekkert eitt rétt í þessum kossamálum. Aðalatriðið væri að sýna virðingu og vera meðvitaður um að lesa í aðstæður.

Ekki gleyma kossunum þegar kemur að forleiknum

Það skiptir máli í þessu, eins og í svo mörgu öðru, að báðir aðilar séu á eitt sáttir og það sé ekki verið að þvinga neinn til að gera eitthvað sem hann ekki vill. Þess vegna er gott að spyrja um leyfi áður en maður smellir óumbeðnum kossi á varir einhvers. Sérstaklega ef þið þekkist lítið sem ekkert. „Má ég kyssa þig?“ getur verið mjög sexí spurning. Það er til dæmis hægt að hvísla því lostafullt í eyra hins aðilans og gera þetta svolítið sexí. Ókunnugi maðurinn hristir kannski höfuðið og þá nær það ekki lengra. Þá má bara halda leitinni áfram.

En svo geta kossar líka verið hluti af forleiknum, bæði hjá ykkur sem þekkist lítið sem ekkert, eða ykkur sem eruð í föstu sambandi eða hjónabandi. Smellið kossi á eiginmanninn næst þegar þið undirbúið kvöldmatinn í eldhúsinu. Það getur verið mjög rómantískt. Eða þar sem þið eruð í göngutúr  í Heiðmörk. Maður er svo fljótur að festast í hversdagsleikanum og vananum og gleyma litlu hlutunum sem gefa lífinu smávegis lit. Varirnar eru ekki eini staðurinn sem hægt er að kyssa. Það má kyssa augnlokin, kinnarnar og í kringum eyrun. Svo er hálsinn næmt svæði og hægt að koma mörgum til með því að kyssa eða renna tungunni þar létt yfir.

Nokkur kossaráð Veru

Ekki gleyma að bursta áður en kossaflensið hefst.
  • Burstaðu tennurnar og notaðu tannþráð. Það er reyndar magnað hvurslags kraftaverk tannþráður einn og sér getur gert. Rotnandi matarleifar gefa ekki góða lykt og það er rosalega fráhrindandi að vera með andfýlu eins og það kraumi í graftarpolli í iðrunum.
  • Ekki byrja á tungunni – hviss, bamm, búmm. Kossinn byrjar með vörunum. Mundu að það má líka kyssa aðra staði en varirnar, til dæmis kinnarnar, hálsinn og eyrun.
  • Passaðu þrýstinginn. Þetta á ekki að vera eins og að kyssa tuskudúkku, þannig að þrýstinginn má ekki vanta en hann má heldur ekki vera of mikill.
  • Ekki ofhugsa kossana en reyndu samt að lesa í aðstæðurnar og hvernig og hvar hinn aðilinn er að kyssa þig því það er líklegt að hann vilji að þú kyssir hann þannig á móti.
  • Hafðu hemil á munnvatninu. Munnurinn á þér á ekki að vera eins og krani.
  • Ef þú veist ekki hvort hinn aðilinn sé hrifinn af því að láta narta í varirnar á sér, skaltu sleppa því. Sumum finnst það gott en öðrum ekki og það er betra að vera viss. Það má spyrja og svo má líka prófa sig rólega áfram með því að sjúga til dæmis neðri vörina varlega og narta svo örlétt í hana. En ekki sjá hinn aðilann fyrir þér sem safaríkan hamborgara sem þú ætlir að sökkva tönnunum í, það kann ekki góðri lukku að stýra.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -