Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-3.4 C
Reykjavik

„Get ekki enn skilið fjandskap hennar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni:

Ég var að verða tvítug þegar mamma dó. Ég var í menntaskóla úti á landi og langaði mest að hætta í honum til að styðja pabba í sorginni. En hann talaði mig til þar sem ég átti bara einn vetur eftir til stúdentsprófs. Þegar ég kom heim í jólafrí var ný kona flutt inn á heimilið og allt var breytt.

 

Mamma hafði verið mjög slöpp í margar vikur. Þegar hún loksins dreif sig til læknis kom í ljós að hún var með bráðahvítblæði. Um vorið dó hún. Við pabbi syrgðum hana sárt, hann var eins og vængbrotinn fugl við lát hennar. Ég var í framhaldsskóla úti á landi þar sem mamma ólst upp, í skólanum hennar, og ég átti bara ár eftir í stúdentinn. Ég spurði pabba hvort ég ætti ekki að ljúka náminu í bænum til að geta verið hjá honum en hann sagði að mamma hefði viljað að ég kláraði námið þarna. Það varð úr. Ég heimsótti pabba stundum um helgar og ég fann að honum leið betur þegar þegar leið á árið en ekki grunaði mig að ný kona væri komin í spilið, hann minntist ekki á neitt slíkt.

Jólafríið mitt hófst upp úr miðjum desember og ég dreif mig strax heim. Pabbi sótti mig á BSÍ og það urðu miklir fagnaðarfundir. Á leiðinni sagðist hann vilja segja mér svolítið. Svo sagði hann mér vandræðalegur frá því að hann hefði kynnst yndislegri konu fyrir tveimur mánuðum, konu sem hefði algjörlega bjargað honum upp úr sorginni. Konan væri nýflutt inn á heimilið með syni sína, frábæra stráka sem væru 10 ára og 7 ára. Okkur ætti örugglega öllum eftir að koma vel saman. Ég var bæði steinhissa og slegin yfir þessu en vildi þó alls ekki hljóma eins og eigingjarn krakki svo að ég óskaði honum til hamingju með þetta í fátinu.Mér fannst þó að hann hefði mátt segja mér frá þessu fyrr.

Undarlegt jólafrí

Heimili mitt hafði breyst. Það var alveg eðlilegt, enda hlaut konan að eiga húsgögn og persónulega muni sem hún vildi hafa með sér. Sem betur fer var herbergið mitt óbreytt. Mamma hafði haft gaman af því að gera það fallegt, látið m.a. ramma inn teikningar eftir mig frá því ég var barn, heklað fallegt teppi á rúmið mitt og sett smekklegan svip sinn á ungmeyjarherbergið mitt.

Nýja konan, sem ég ætla að kalla Stellu í þessari frásögn, hafði verið úti í búð og kom fljótlega heim. Hún heilsaði mér kurteislega með handabandi og kynnti sig. Svo fór hún inn í eldhús. Pabbi spurði mig spenntur hvernig mér litist á hana og ég sagði að hún virkaði voða indæl. Ég talaði þó þvert um hug mér, fannst hún frekar kuldaleg í fasi en það gat stafað af feimni. Það átti þó eftir að koma í ljós að Stella var hreint ekkert ánægð með tilveru mína og mér fór fljótlega að líða eins og mér væri ofaukið á eigin heimili.

- Auglýsing -

Jólafríið var eiginlega algjör martröð. Stella var yfirleitt skárri við mig þegar pabbi heyrði til en þess á milli yrti hún varla á mig. Ég var almennileg við hana og langaði til að kynnast henni en hún gaf ekkert færi á sér.

„Mér fór smám saman að finnast eins og ég hefði misst hann líka.“

Ég er alls ekki feit en mætti þó alveg losna við nokkur kíló. Stella fór að stríða mér á því og sagði kannski: „Heldurðu að þú hafir gott af því að fá þér aftur á diskinn?“ „Eru þetta ekki aðeins of þröngar gallabuxur á þig? Svona buxur eru bara fyrir þær grönnu!“ Það sveið undan þessu en ég reyndi að brosa og láta á engu bera. Ég er frekar feimin að eðlisfari og var enn viðkvæm eftir móðurmissinn. Það síðasta sem ég vildi gera var að bresta í grát yfir einhverju sem Stella segði við mig, ég veit að pabbi hefði orðið alveg eyðilagður, ég fann hvað hann langaði til að allt gengi upp. Mér fór smám saman að finnast eins og ég hefði misst hann líka. Hann heyrði stundum þegar Stella stríddi mér en fannst þetta bara góðlátlegt grín. Hann hélt að við værum að nálgast hvor aðra með þessu. Ég var auðvitað sérlega viðkvæm fyrir öllu áreiti á þessum tíma en ég held samt að undir öðrum kringumstæðum hefði þetta heldur ekki verið léttbært. Synir Stellu voru fínir og okkur kom ágætlega saman. Mér fannst Stella ekki ánægð með það og hún kallaði iðulega á strákana og bað þá um að fara út með ruslið eða vinna viðvik fyrir sig ef þeir spjölluðu við mig.

Ég bauðst til að ryksuga á Þorláksmessu og vandaði mig mikið við það. Mér sárnaði mjög þegar Stella ryksugaði allt nokkrum tímum seinna með píslarvættissvip á andlitinu, eins og þetta hefði verið svona illa gert hjá mér. Hún sagðist ekki geta skúrað nema það væri almennilega ryksugað.
Pabbi gaf mér góða jólagjöf og að auki væna peningaupphæð. Ég sá á Stellu að henni mislíkaði þetta mjög. Ég vildi að pabbi hefði laumað þessu til mín þegar hún sá ekki til.

- Auglýsing -

Þegar allir voru komnir upp í rúm á jólanótt heyrði ég að Stella fór að skamma pabba fyrir að gefa mér peningana. Ekki hefði hann gefið strákunum hennar svona mikið og það væri ljótt að gera upp á milli barnanna. Ég heyrði að pabbi svaraði rólega að ég væri í skóla og þyrfti á peningum að halda. Stellu fannst nóg að hann borgaði skólabækur og heimavistargjöld fyrir mig. Ég grúfði mig niður í koddann minn og hélt fyrir eyrun til að heyra ekki meira.

Nýtt heimili

Það var léttir að komast aftur í skólann eftir áramótin. Ég fór ekki til pabba og Stellu í páskafríinu, heldur einbeitti mér að náminu. Við pabbi hringdum oft hvort í annað og spjölluðum saman. Í einu símtalinu sagði hann mér að íbúðin væri komin í sölu. Stella átti íbúð sem hún ætlaði að selja líka og stefnan var sett á raðhús, jafnvel einbýlishús. Hann bætti við að það yrði örugglega aukaherbergi fyrir mig á nýja heimilinu. Þetta með aukaherbergið stakk mig og ég fór að átta mig á því að líf mitt yrði aldrei samt. Ég var náttúrlega orðin tvítug og í raun fullorðin en mér fannst hlutirnir ganga heldur hratt fyrir sig. Gamla lífið mitt var farið að liðast í sundur á ógnarhraða. Ég þroskaðist hratt þessa mánuðina.

„Hann skildi ekki að þau höfðu fleygt hlutum sem minntu mig á mömmu, eins og heklaða teppið sem hún gaf mér þegar ég var 12 ára og ótal margt fleira.“

Eftir stúdentsprófið flutti ég heim til pabba og Stellu. Ég hafði ekkert val, þetta var eina heimilið sem ég átti. Þau voru flutt í lítið og sætt raðhús og mín beið lítið gestaherbergi inn af forstofunni. Herbergið var ágætt en ég fékk áfall þegar ég áttaði mig á því að öllu gamla dótinu mínu hafði verið fleygt í flutningunum. Bækurnar mínar, teikningarnar og margt fleira persónulegt hafði endað í Sorpu. Ég fór að gráta þegar ég áttaði mig á þessu og pabbi varð alveg miður sín. „Við héldum að þú vildir ekki púkka upp á eitthvert barnadót, orðin þetta gömul,“ sagði hann. Hann skildi ekki að þau höfðu fleygt hlutum sem minntu mig á mömmu, eins og heklaða teppið sem hún gaf mér þegar ég var 12 ára og ótal margt fleira. Hann bað mig innilega fyrirgefningar. Stella hnussaði bara. Hún fór að vera hryssingsleg við mig þótt pabbi heyrði til en var svo sem ekki mikið skárri við syni sína, hún gat verið afar kvikindisleg við þá. Pabbi hló stundum og sagði að hún hefði svartan húmor en áttaði sig ekki á því hvað hún var særandi.

Þetta sumar bjó ég heima og vann eins og skepna. Samskipti okkar Stellu voru í algjöru lágmarki og ég sá heldur ekki mikið af pabba. Um haustið fór ég í HÍ. Ég var svo heppin að fá herbergi í stúdentagörðunum. Ég vissi innra með mér að ég myndi aldrei flytja heim aftur.

Ég hélt næstu jól með kærastanum mínum, yndislegum strák sem ég kynntist í skólanum og sem er reyndar maðurinn minn í dag. Tengdamamma umvafði mig frá fyrstu stundu og þótt ég hefði ekki talað um þessi mál við hana áttaði hún sig á þessu sjálf og talaði um ljóta framkomu við móðurlaust barn. Henni fannst pabbi litlu betri en Stella og fór ekki ofan af því þótt ég reyndi að verja hann.

Ég hef reynt að setja mig í spor Stellu en get ekki enn skilið fjandskap hennar út í viðkvæma menntaskólastelpu sem var í sárum. Pabbi var svo gjörsamlega blindaður af ást að hann tók ekki eftir neinu eða kannski vildi ekki taka eftir neinu. Það er ekki í eðli mínu að vera með læti, annars hefði ég kannski getað breytt ástandinu eitthvað, hver veit, eða gert illt verra.

Ég á mína eigin fjölskyldu í dag, eignaðist yndislegan son með manninum mínum. Við pabbi erum alltaf góðir vinir en mér finnst erfitt að heimsækja þau Stellu! Ég samgleðst pabba þrátt fyrir allt, hann er voða hamingjusamur með Stellu sinni. Mér finnst bara leitt að hún skuli hafa litið á mig sem ógnun og reynt með öllum ráðum að losna við mig. Henni tókst það en samt er hún alltaf frekar leiðinleg í þau fáu skipti sem ég kem í heimsókn. Það er hennar mál, hún er hætt að koma mér úr jafnvægi og ég svara henni fullum hálsi en þó af fyllstu kurteisi. Það virðist virka einna best á hana, hún verður kurteis á móti.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -