Þriðjudagur 28. janúar, 2025
-1.2 C
Reykjavik

Geymilegar gersemar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ýmsar gersemar leynast í geymslum landsins og það á ekki síst við um geymslur Hönnunarsafns Íslands.

Sýningin Geymilegir hlutir hefur staðið yfir frá árinu 2015. Þar má sjá sýnishorn af þeim fjögur þúsund munum sem eru í safneigninni, en sýningin er einmitt hönnuð með það fyrir augum að auðvelt sé að skipta hlutum út og setja nýja inn.

Sýningin Geymilegir hlutir hefur staðið yfir frá árinu 2015. Þar má sjá sýnishorn af þeim fjögur þúsund munum sem eru í safneigninni. Hér er Fundarstóll eftir Gunnar H. Guðmundsson, húsameistara Reykjavíkur, úr fundarsal borgarstjórnar Reykjavíkur að Skúlatúni 2. Einn af þremur misháum stólum úr sömu seríu sem safnið varðveitir. Þessir stólar eru enn í notkun hjá Reykjavíkurborg.

Aðdragandinn að stofnun Hönnunarsafns Íslands var allnokkur en umræðuna um nauðsyn á slíku safni má rekja aftur til ársins 1992 þegar félagið Form Ísland setti saman hóp með fulltrúum hönnuða, menntamálaráðuneytisins, Listasafns Íslands, Þjóðminjasafns Íslands og Reykjavíkurborgar um slíkt safn. Í framhaldinu var þeim tilmælum beint til menntamálaráðuneytisins að skipa nefnd er mæti með hvaða hætti stofna mætti safn er sinnti listiðnaði.

Í byrjun árs 1997 var niðurstaða þeirra nefndar að mikil þörf væri á safni er sinnti listhandverki og iðnhönnun. Árið 1998 gerðu því menntamálaráðuneytið og Garðabær samkomulag um að reka í sameiningu íslenskt hönnunarsafn er safnaði og sýndi listiðnað.

Fyrst um sinn var safnið deild í Þjóðminjasafni Íslands en með nýjum samningi við menntamálaráðuneytið árið 2006 tók Garðabær við rekstri Hönnunarsafns Íslands og starfar safnið sem stofnun á vegum bæjarfélagsins. Þá hafði safnið til afnota lítinn sal við Garðatorg þar sem haldnar voru nokkrar sýningar á ári en skrifstofu og varðveislurými var að finna á öðrum stað.

Árið 2009 var safninu valinn staður við Garðatorg 1 og fluttist öll starfsemi safnsins þangað þegar reglubundið sýningahald safnsins hófst í maí 2010.

Safneign safnsins stækkar jafnt og þétt og telur nú um fjögur þúsund gripi.

Í dag starfa á safninu forstöðumaður og sérfræðingur ásamt gæslu- og afgreiðslufólki. Nýbúið er að útbúa sýningarrými í anddyri safnsins þar sem verða settar upp minni sýningar á verkum eða verkefnum hönnuða.

- Auglýsing -

Gripir safnsins falla í eftirfarandi flokka: húsgagnahönnun, grafísk hönnun, arkitektúr, fatahönnun, vöru- og iðnhönnun, textílhönnun, skartgripahönnun, gull- og silfursmíði, keramík og glerlist.

Safneign safnsins stækkar jafnt og þétt og telur nú um fjögur þúsund gripi. Safnið kaupir reglulega inn gripi í safneignina en einnig berst töluvert af gjöfum til þess. Það er safninu mikils virði að fólk hugsi til þess, hvort sem það vill gefa eða fá hjálp við að greina hluti í sinni eigu.

Sífellt meiri fróðleikur um hönnunarsögu Íslendinga

- Auglýsing -

Nýir gripir sem koma í safnið á hverju ári leggja grunn að efni til rannsókna og þeir eru í sjálfu sér vitnisburður á hverjum tíma um það sem sérfræðingar álíta æskilegt að sé varðveitt í safni. Gildi þeirra hluta sem koma til safnsins breytist, merking getur orðið önnur – og jafnvel meiri.

Árið 1969 var Manfreð Vilhjálmsson fenginn til að hanna húsgögn og innréttingar fyrir nýjan unglingaskemmtistað, Tónabæ, í Skaftahlíð 24. Í Tónabæ vildi Manfreð skapa umhverfi sem reykvískir unglingar ættu ekki að venjast heima hjá sér og með því gera staðinn að þeirra athvarfi.

Undanfarin ár hafa safninu borist nokkrar stórar gjafir sem styrkja safneign þess mjög. Má þar nefna gjöf frá grafíska hönnuðinum Gísla B. Björnssyni á munum frá ævistarfi hans. Gjöf frá Einari Þorsteini Ásgeirssyni arkitekt á gripum sem tengjast vinnu hans og nú síðast gjöf frá Bláa lóninu á stóru keramíksafni sem hefur að geyma afar gott yfirlit yfir íslenska leirlistasögu.

Eitt af hlutverkum Hönnunarsafns Íslands er að stuðla að rannsóknum á íslenskri hönnunarsögu. Með stækkandi safneign safnast sífellt inn meiri fróðleikur um hönnunarsögu Íslendinga.

Safnið hefur fengið hrós fyrir það að hafa örlítið aðra hugsjón en önnur hönnunarsöfn erlendis, það er, á safninu er að finna bæði hversdagslega og hástemda hönnun. Þannig má glöggt sjá hvernig íslensk hönnun hefur haft áhrif á heimili, samfélag og menningu þjóðarinnar – og öfugt.

Breidd safneignarinnar er greinileg á sýningu safnsins Geymilegir hlutir sem nú er í gangi.

Þar eru til sýnis nokkrir af þeim úrvalsmunum sem safnið varðveitir af ýmsum ástæðum – sem dæmi má nefna Don Cano-krumpugalla og fallegt Max-sófasett. Lýsingarorðið geymilegur er lítt þekkt í dag. En gömul merking orðsins var sett í samhengi við gjafmildi og stórhug, eins og vitnað er um í tímaritinu Skírni árið 1913 á eftirfarandi hátt: „… þá verður sá talinn mestur er mest gaf af geymilegum hlutum,“ en í þessari setningu liggur einmitt kjarninn í starfsemi Hönnunarsafnsins.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -