Sunnudagur 22. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Gréta tónlistarkona: „Ég held að ég sé mjög misskilin“ – Barnæskan var ekki alltaf auðveld

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í viðtali Vikunnar var rætt við tónlistarkonuna Grétu Karen Grétarsdóttur. Gréta ólst upp hjá einstæðri móður sem veitti henni ástríka æsku, en hafði sinn djöful að draga, alkóhólisma.

Barnæskan var ekki alltaf auðveld og Gréta segist að mörgu leyti hafa verið umönnunaraðili móður sinnar, á meðan því hefði auðvitað átt að vera öfugt farið. Óttinn var gríðarlegur og kvíði fylgifiskur hans, hún óttaðist að vera tekin frá móður sinni en samt þráði hún að einhver myndi grípa í taumana og koma henni til bjargar.

Það má segja að þetta hafi litað allt líf Grétu sem segist hafa átt erfitt með að finna hver hún nákvæmlega er en kannski hafi hún ekki séð skóginn fyrir trjánum. Það eru spennandi tímar fram undan hjá Grétu sem vinnur nú að plötu og samdi nýverið við umboðsmann sem uppgötvaði Lady Gaga.

„Ég held að ég sé mjög misskilin,“ segir Gréta, „kannski vegna þess hvernig ég kýs að tjá mig eða ekki tjá mig. Ókunnugt fólk dæmir mig kannski út frá því hvernig ég birtist á samfélagsmiðlum og ég hef oft fengið að heyra það eftir því sem fólk kynnist mér, að ég sé allt öðruvísi manneskja en sú sem það hélt að ég væri.

Ég hef alltaf sagt að maður eigi ekki að dæma bókina eftir kápunni. Maður veit aldrei hvað fólk er búið að ganga í gegnum. Maður er kannski ekki alltaf að opna sig og leyfa öllum að heyra og vita allt um mann. Samfélagsmiðlar segja ekki alla söguna.“

Á þeim tíma sem Gréta var að alast upp voru umgengnismál barna ekki í sömu skorðum og þau eru í dag. Gréta segist því til að byrja með ekki hafa farið reglulega til föður síns.

- Auglýsing -

„Ég man að ég var alltaf rosalega feimin þegar ég hringdi í hann og spurði eftir Grétari,“ segir hún og brosir að minningunni. „Hann var líka að verða frægur með Stjórninni á þessum tíma. Hann fór svo að vera með konu sem hann var með í sautján ár. Þá fórum við að hafa meira samband og ég kynntist hálfsystkinum mínum pabba megin.

Þegar ég fór að fara meira til pabba tóku hann og konan hans eftir því að það væri eitthvað ekki alveg eins og það ætti að vera og fóru að spyrja mig út í heimilislífið hjá mömmu. Ég sagði að allt væri í lagi, ég vildi auðvitað ekki koma mömmu í vandræði, en þau sáu að það væri ekki allt í lagi og báðu mig um að láta sig vita ef mamma væri að drekka og þau gætu eitthvað gert.

Síðan missti mamma vinnuna í bankanum og fór í meðferð. Það þurfti nokkrar meðferðir til áður en hún náði að verða edrú en það var svo merkilegt að ég varð alveg ofboðslega reið þegar það loksins gekk. Ég veit að það hljómar ótrúlega, ég hefði átt að verða ofboðslega hamingjusöm. En ég var svo reið út í hana af því að hún sagði aldrei fyrirgefðu,“ segir Gréta við blaðamann Guðrún Óla Jónsdóttur og gerir stutt hlé á máli sínu.

- Auglýsing -

Gréta segist stolt af því að hafa aldrei gefist upp, þótt hún viðurkenni að hafa vissulega oft bognað. Þegar henni hafi liðið sem verst hafi minningin um móður sinn hvatt hana til að halda áfram.

„Auðvitað hefur þetta oft verið mjög erfitt og ég hef stundum verið nálægt því að gefast bara upp. En þá hefur komið upp sú hugsun hjá mér að líf mömmu væri þá bara til einskis. Allt sem hún gekk í gegnum væri fyrir bí og allur sársaukinn sem hún upplifði, og ég upplifði, hefði þá verið til einskis. Mér finnst ég líka hafa lifað draum okkar beggja, mamma átti sér alltaf þann draum að verða óperusöngkona og búa erlendis en hafði ekki tök á að láta hann rætast.“ Þannig ég ákvað að gera það fyrir okkur báðar.

Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni í Vikunni.

 

Heimild

Guðrún Óla Jónsdóttir. Ég er bara sú sem ég er. Vikan.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -