Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

Hættuleg heimsókn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni

Um það bil einu og hálfu ári eftir að ég kynntist konu í gegnum Netið, konu sem sagðist vera frænka mín, ákvað ég að þiggja boð hennar um að koma í stutta heimsókn til hennar í Bandaríkjunum.

 

Ég er félagslynd en samt varkár í samskiptum og tel mig vera ágætis mannþekkjara. Þegar ókunnug kona, íslensk og búsett í Bandaríkjunum, sendi mér vinabeiðni á Facebook lét ég sem ég sæi það ekki. Hún skrifaði mér þá bréf á svo bjagaðri íslensku að ég hélt fyrst að þetta væri svindl. Í öðru bréfi sagðist hún vera skyld mér og það gat alveg verið. Ég skil samt ekki hvernig hún fann mig og af hverju hún vildi verða vinkona mín á fésinu. Á endanum samþykkti ég vinabeiðni hennar en fannst þó ekki líklegt að við værum frænkur.

Kata var ekki uppáþrengjandi Facebook-vinkona og mér fór að finnast hún indæl og skemmtileg. Hún sagði mér lítið af sjálfri sér, ég vissi bara að hún hefði verið kornung þegar hún flutti út, að Bob, maðurinn hennar, ynni hjá hernum og börnin tvö væru uppkomin. Sjálf væri hún hætt að vinna úti.

Heimboð

Við Kata færðum okkur fljótlega yfir á Skype-ið og töluðum yfirleitt saman á þann hátt. Alltaf á íslensku þótt hún væri ryðguð í henni. Um það bil ári eftir að við kynntumst fór hún að tala um hvað það væri gaman ef ég kæmi í heimsókn. Ég tók það ekki alvarlega í fyrstu en maðurinn minn hvatti mig til að fara ef mig langaði. Kata talaði mikið um alla staðina sem hún ætlaði að sýna mér og búðirnar þar sem ég gæti gert góð kaup. Hálfu ári eftir að hún talaði fyrst um þetta ákvað ég að fara í tíu daga heimsókn til hennar. Hún sendi mér mynd af Bob svo ég þekkti hann því hann sótti mig á flugvöllinn.

- Auglýsing -

Bob virtist vænsti maður og við spjölluðum mikið saman á leiðinni heim til hans og Kötu, eða Katie, eins og hann kallaði hana. Þegar við komum að húsinu hringdi Bob bjöllunni sem mér fannst skrítið. Ég sá að hann kíkti inn í gegnum gægjugatið á hurðinni og svipurinn á honum var svo furðulegur að ég gægðist líka. Fyrir innan stóð Kata með byssu í hönd og miðaði á dyrnar.

Hvað er ég komin út í? hugsaði ég. Bob kallaði: „Hæ, Katie, þetta erum við.“ Þá opnaði hún dyrnar og bauð mig velkomna. Mér létti en var samt hugsandi. Þetta var bara fyrsta undarlega atvikið af mörgum. Síðar áttaði ég mig á því að hún hefði mögulega skotið okkur Bob ef hann hefði opnað með lyklinum. Hún var hrædd við ókunnuga og sagði alla hættulega. Fljótlega komst ég að því að hún hafði alltaf fjaðurhníf innan seilingar og svaf með haglabyssu undir rúmi.

Erfiðir dagar

- Auglýsing -

Næstu daga komst ég að því að Kata var vægast sagt mjög sérstök manneskja.

Hún fór fljótlega að tala um að Bob væri ósáttur við veru mína hjá þeim. Það kom mér á óvart því hann hafði ekki sýnt mér annað en vinsemd. Ég reyndi að afsaka mig við hann, sagði að það væri ekkert flug heim fyrr en á brottfarardaginn minn en mér fannst hann bara verða undrandi.

Kata var með holdafar sitt á heilanum og ég fór nokkrum sinnum með henni í ræktina. Á líkamsræktarstöðinni var maður sem brosti og blikkaði mig, ég brosti á móti en talaði ekkert við hann. Þegar Kata sagði Bob frá þessu varð hann bálreiður og sagði mér að kæra hann og stöðina fyrir kynferðislega áreitni. Það nánast datt af mér andlitið, þetta var svo langt frá því að vera áreitni og ég sagði að engin ástæða væri til að kæra.

Kata eldaði bara rétti eftir sérstökum matarkúr, svipuðum Danska kúrnum. Þótt grönn væri léttist ég um fimm kíló í ferðinni. Hún vék aldrei frá þessum kúr og var því aldrei til í að koma með mér á kaffihús eða út að borða.

Við fórum ekki í neinar af þeim ferðum sem Kata hafði lofað mér. Bob hringdi daglega úr vinnunni og stakk upp á ýmsum skemmtilegum stöðum sem við gætum heimsótt en Kötu leist aldrei á neitt. Við skruppum reyndar nokkrum sinnum í mollið skammt frá. Miðað við hvað Kata hafði sagt mér um fólkið þarna, að það skyti fyrst og spyrði svo, fannst mér furðulegt hvernig hún hagaði sér í mollinu. Hún lék sér að því að rekast á fólk og biðjast síðan innilega afsökunar. Ég gat ekki stillt mig um að segja: „Þú ert ekki hrædd við að vera skotin núna?“

Eitt sinn fékk ég hjól Kötu lánað og skrapp í smáferð um hverfið þrátt fyrir viðvaranir hennar. Hún vildi meina að fólkið í þessu annars rólega hverfi væri hættulegt og myndi skjóta mig. Fólkið reyndist þó vera afar vingjarnlegt og margir veifuðu til mín og spjölluðu.

Eftir nokkra daga var ég farin að leita að öðru flugi heim en án árangurs. Kata endurtók reglulega hvað Bob fyndist óþægilegt að hafa mig. Þótt mig grunaði að það væri bara lygi, leið mér illa yfir því. Um leið og hann kom heim úr vinnu, fór ég inn í herbergið mitt og hékk þar ein allt kvöldið. Bob hafði lánað mér fartölvu og það bjargaði mér alveg.

„Eftir nokkra daga var ég farin að leita að öðru flugi heim en án árangurs.“

Einn daginn hringdi maðurinn minn og ég fór að skæla, ég var að deyja úr heimþrá. Ég skrökvaði að honum að ég væri bara kvefuð því Kata gat heyrt hvað ég sagði. Þarna var ég orðin smeyk við hana.

Í hættu stödd?

Brottfarardagurinn rann loks upp, ég gat ekki beðið eftir að komast í burtu. Ég hafði pantað leigubíl út á völl fljótlega eftir hádegi. Veðrið var sérlega gott og ég hafði sagt við bæði Kötu og Bob að ég ætlaði að setjast út í sólina. Áður en Bob fór í vinnuna hafði hann beðið mig um að finna myndir frá Ísland. Ég gat þó fátt sýnt honum áður en hann fór til vinnu. Ég ætlaði að halda leitinni áfram úti í garði og vista myndir í tölvunni hans.

Kata fór í sturtu og ég þurfti að sækja eitthvað inn í herbergi áður en ég settist út í sólina. Ég fór síðan fram en hugboð fékk mig til að stoppa á miðri leið. Ég sneri við og skildi ekki hvað hafði komið yfir mig. Þetta endurtók sig svo ég settist inn í herbergi í smástund. Þegar ég fór fram aftur og ætlaði að gera þriðju tilraunina til að fara út heyrði ég þrusk fyrir aftan mig, þar stóð Bob vígalegur á svip. Mér dauðbrá en heilsaði. Hann virtist áhyggjufullur og spurði hryssingslega hvar Kata væri. „Hún er í sturtu,“ svaraði ég hissa.

Bob fór inn í baðherbergi og ég heyrði að þau hjónin rifust hástöfum. Hann kom fram, kvaddi mig og dreif sig í vinnunna. Kata kom glottandi fram og spurði hvort ég hefði tekið eftir því að Bob hefði verið með hníf. Nei, sagði ég en önnur hönd hans var reyndar fyrir aftan bak. Nú vissi ég ástæðuna. Hún sagði mér nánast hlakkandi að hún hefði sent honum SMS áður en hún fór í sturtu og sagst vera í hættu stödd. Því hefði hann komið heim. Hún sagði mér líka að hún hefði sett öryggiskerfið á þegar Bob fór og ef ég hefði reynt að fara út í sólbað, hefði það farið af stað og allt fyllst af löggum.

Ég starði á hana, hvaða rugl var þetta? Þarna var mér endanlega nóg boðið, ég sótti ferðatöskuna mína og sagðist ætla að bíða eftir leigubílnum úti. Ég þakkaði síðan fyrir mig og strunsaði út. Hún kallaði á eftir mér: „Getum við samt ekki verið vinkonur áfram?“ Ég svaraði: „Helst ekki.“ Klukkutíma seinna kom leigubíllinn og í flugvélinni á heimleið leið mér eins og ég hefði sloppið úr háska.

Ég heyrði ekkert frá Kötu í tvö ár. Ég var stödd London í helgarferð með manninum mínum og þegar ég fékk Facebook-skilaboð frá henni. Hún sagði að ég væri léleg vinkona að spyrja hana ekki um líðan hennar eftir skurðaðgerð sem hún hafði farið í. Ég sagðist þekkja fólk sem hefði það miklu verra en hún. „Viltu þá ekki bara fleygja mér út af Facebook?“ spurði hún og þótt ég vissi að hún meinti það ekki, tók ég hana á orðinu og eyddi henni þaðan og blokkeraði, sama gerði ég á Skype-inu.

Ég hélt að ég þekkti Kötu, ég leit á hana sem góða vinkonu. Svo reyndist hún vera snarrugluð og gott dæmi um hvað fólk getur leynt á sér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -