Fimmtudagur 26. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Hafði sjúklega mikla þörf fyrir „fullkomna“ fjölskyldu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga sem birtist í Vikunni

Um tvítugt kynntist ég góðum manni sem síðar varð eiginmaður minn. Hann hafði mikla, eiginlega sjúklega mikla þörf fyrir „fullkomna“ fjölskyldu en sjálfur upplifði hann ekki eðlilegt fjölskyldulíf í æsku, að eigin mati. Mér leið æ oftar eins og líf mitt væri lélegt leikrit.

 

Fyrsta kærastann eignaðist ég þegar ég var 15 ára, hann var í sama skóla og ég og algjör ljúflingur. Við vorum saman í eitt ár, eða þar til ég byrjaði í menntaskóla. Tveir kærastar til viðbótar komu inn í líf mitt fram að 21 árs aldri en þá kynntist ég Pétri, bráðmyndarlegum manni sem var sjö árum eldri en ég. Hann var vel menntaður og í góðu starfi, algjör happafengur, að mati vinkvenna minna sem sögðust dauðöfunda mig af honum.

Við kynntumst á skemmtistað. Hann gaf sig á tal við mig þar sem ég stóð ein við barinn og reyndi að kaupa mér bjór. Pétur náði athygli barþjónsins í hvelli og áður en ég vissi af var ég komin með bjór í hönd og það í boði hans.

Við fórum að vera saman stuttu seinna og urðum óaðskiljanleg. Pétur vildi verja hverri frístund með mér og ég var svo ástfangin að ég lét allt og alla lönd og leið til að geta verið með honum. Ég hafði tekið með ársfrí frá skóla eftir stúdentinn og ætlaði í háskóla um haustið en breytti þeirri ákvörðun fyrir orð Péturs. Honum bauðst frábær vinna úti á landi sem hann sagðist ekki ætla að þiggja nema ég kæmi með sér. Auðvitað flutti ég með honum, skárra væri það nú, hann var ástin í lífi mínu.

Einangrun

- Auglýsing -

Við komum okkur vel fyrir í fallegu einbýlishúsi í kaupstaðnum og mér fannst lífið leika við mig. Ég ætlaði að finna mér vinnu þarna og athuga einnig með háskólanám utanskóla en óvænt varð ég ófrísk þrátt fyrir að vera á pillunni. Pétur var yfir sig hamingjusamur með væntanlega fjölgun, mun ánægðari en ég, mér fannst ég of ung til að eignast börn og átti eftir að gera svo margt.

Dóttirin kom í heiminn og var algjör gleðigjafi. Foreldrar mínir heimsóttu okkur nokkrum sinnum, yfir sig lukkuleg með fyrsta barnabarnið. Ég hafði haldið fram að þessu að Pétri líkaði vel við foreldra mína en varð vör við að honum leið best þegar við vorum tvö saman ásamt barninu. Hann talaði sem minnst við foreldra mína og virtist frekar þvingaður í návist þeirra. Þau fundu það og smám saman fækkaði heimsóknum þeirra án þess að ég áttaði mig almennilega á því. Við bættum það upp með löngum og góðum símtölum.

Þegar dóttir mín var orðin rúmlega ársgömul fór ég að finna fyrir eirðarleysi og orðaði það við Pétur. Ég sagði honum að mig vantaði eitthvað að gera annað en að hugsa um heimilið og barnið. Mér fyndist líka leiðinlegt að eiga enga góða vini í þessum bæ, bara kunningja, og ég saknaði foreldra minna og vina. Pétur sagði að ég gæti bara hringt í fólk þegar mér leiddist, til þess væri síminn. Dóttirin væri allt of ung til að ég færi að vinna frá henni, ég ætti að gera mér grein fyrir því. Við rifumst um þetta og á endanum lét ég undan.

- Auglýsing -

Ég lagðist í bókalestur og byrjaði líka að prjóna, það gerði viðburðasnautt og einmanalegt líf mitt mun léttbærara. Pétur var alsæll með húsmóðurlegu konuna sína og tjáði mér það á ýmsan máta. Hann hrósaði mér reyndar bara fyrir að gera það sem hann vildi að ég gerði. Hann varð fúll ef ég talaði lengi í síma við mömmu og pabba þegar hann var heima, jafnvel þótt hann væri að horfa á sjónvarpið og barnið sofnað. Mér fannst barnalegt hjá honum að vera svona frekur á athygli en stytti kvöldsímtölin sem voru þó alls ekki algeng til að þóknast honum. Á þessum tíma var ég ekki farin að átta mig á því hvað ég var orðin einangruð frá öðru fólki. Pétri leið ekki vel með annað fólk en mig í kringum sig og allt átti að vera svo fullkomið.

Eflaust hefur fólkið í bænum haldið að ég væri merkileg með mig, því ég gaf lítið færi á mér, afþakkaði boð að ganga í vissan félagsskap, þáði ekki kaffiboð frá nágrönnum og slíkt og á endanum gáfust allir upp.

Pétur setti stundum út á útlit mitt og málfar. Ég var sannarlega ekki feit en hafði bætt örfáum kílóum á mig á meðgöngunni sem virtist angra hann eitthvað. Hann leiðrétti málfar mitt og sagði stundum að ég talaði eins og unglingur. Ég varð óöruggari með mig og ég stóð mig að því að reyna að þóknast Pétri á allan hátt.

Foreldrar Péturs bjuggu í útlöndum þar sem faðir hans starfaði og þau komu örsjaldan í heimsókn. Mér fannst þau ekki vera ánægð með val Péturs á tengdadóttur. Ég fann ekkert fyrir því í kringum brúðkaupið en með tímanum fór mér að finnast eins og þau liti niður á mig. Eins og sonurinn hafa tekið niður fyrir sig með því að giftast ómenntaðri konu. Þessu fólki fannst stúdentspróf algjör lágmarksmenntun en þau voru bæði vel menntuð, sérstaklega tengdapabbi, og afskaplega snobbuð. Þau höfðu ferðast mikið og fannst þau yfir flesta hafin. Þau voru allt of fáguð til að sýna mér leiðindi en kunnu vel þá list að sýna mér lítilsvirðingu án þess að hægt væri að festa hönd á því. Pétur heimsótti þau örsjaldan og sem betur fer bað hann mig aldrei um að koma með sér. Honum virtist heldur ekki líða sérlega vel í návist þeirra.

Undarlegt pilluhvarf

Dóttir okkar var þriggja ára og ég farin að leita mér að vinnu þegar Pétur talaði um að eignast annað barn. Ég vildi það alls ekki en sagðist ætla að hugsa málið. Ég þorði hreinlega ekki að svara honum neitandi. Ekki svo löngu seinna sagði ég Pétri að ég vildi bíða aðeins með frekari barneignir, í hálft ár eða ár, og hélt áfram á pillunni. Atvinnuástandið var ekki sérlega gott í þessum bæ og ég fann ekkert við mitt hæfi. Úrtölur Péturs bættu ekki úr skák, hann vildi hafa mig heimavinnandi, það fór ekki á milli mála.

Eitt kvöldið þegar ég ætlaði að fara að taka pilluna sá ég mér til undrunar að ég var þegar búin að því … sem var skrítið vegna þess að mig rak ekki minni til þess. Ég hafði ekkert farið á baðherbergið á efri hæðinni allt kvöldið og ég geymdi pilluspjaldið þar. Að mér læddist sá grunur að Pétur hefði eitthvað haft með þetta að gera en ég sagði ekkert við hann, heldur tók inn síðustu pilluna á spjaldinu. Mér fannst þetta mjög óþægilegt og kom pilluspjaldinu fyrir ofan í snyrtiveskinu mínu.

„Eitt kvöldið þegar ég ætlaði að fara að taka pilluna sá ég mér til undrunar að ég var þegar búin að því … sem var skrítið vegna þess að mig rak ekki minni til þess.“

Tveimur mánuðum seinna tók ég eftir því að pilla dagsins var horfin svo ég þóttist fullviss um að Pétur hefði farið í veskið. Af því að ég var á verði tók ég eftir þessu, annars hefði ég án efa haldið að ég hefði gleymt því að taka hana. Ég fór að hugsa um hvort Pétur hefði kannski gert þetta þegar ég varð ófrísk á sínum tíma en dóttirin kom undir þrátt fyrir að ég væri á pillunni.

Eitt kvöldið var ég óvenjueirðarlaus og fann fyrir pirringi. Dóttirin var sofnuð og Pétur sat og horfði á sjónvarpið. Ég settist hjá honum og spurði hann hreint út hvort hann hefði tekið pillur úr pilluspjöldunum mínum til að ég yrði ófrísk. Viðbrögð Péturs komu mér á óvart, mjög svo. Hann stökk upp úr stólnum og greip í handlegginn á mér. Bað mig vinsamlegast um að koma ekki með svona ásakanir. Hann væri nógu sár yfir því að ég vildi ekki eignast annað barn með honum og ég ætti ekki að vera með svona bull. Þarna sannfærðist ég um að hann hefði gert þetta. Ef hann hefði verið saklaus af þessu hefði hann bara farið að hlæja.

„… mér fannst ég eins og fangi og staðsett inni í lélegu leikriti og þráði mest af öllu að losna úr því.“

Í kjölfar þessa atviks breyttist allt. Ég fór að endurmeta líf mitt og áttaði mig á því að ég elskaði Pétur ekki lengur, mér fannst ég eins og fangi og staðsett í lélegu leikriti og þráði mest af öllu að losna úr því. Það var sjúklegt hvað Pétur lagði mikla áherslu á að eiga hina fullkomnu fjölskyldu. Ég vissi að það yrði honum gífurlegt áfall ef ég færi fram á skilnað en það ákvað ég að gera fyrr eða síðar, ég varð að losna úr þessu gervilífi sem ég lifði.

Langþráð frelsi

Það leið heilt ár áður en ég þorði að minnast á hjónaskilnað. Alveg eins og ég vissi þá varð Pétur brjálaður en ég stóð föst á mínu. Hann hótaði að taka af mér barnið, eins og ég hafði búið mig undir, en ég var sallaróleg. Sagði að vonandi bæri okkur gæfa til að skilja í góðu og að dóttir okkar gæti umgengist báða foreldra sína sem mest. Ég vissi að þetta var í nösunum á honum því hann hafði enga þolinmæði gagnvart dóttur okkar nema þegar hún var hrein og róleg eða sofandi. Ég sá um alla umönnun hennar en vissi að honum þótti mjög vænt um hana.

Ég flutti í bæinn og heim til foreldra minna ásamt dóttur minni. Eftir að ég stakk upp á við Pétur að hann væri með dóttur okkar annan hvern mánuð dró hann mjög í land. Ekki hefði „viku og viku fyrirkomulag“ gengið vegna fjarlægðarinnar svo hugmynd mín um mánuð og mánuð hefði frekar gengið upp. Ég gæti þá farið í háskóla eins og mig hafði dreymt um síðustu árin en það yrði erfiðara ef ég væri með dóttur okkar alfarið.

Mig langaði satt að segja að komast að því hvort honum væri alvara með að vilja umgangast dóttur sína svona mikið eða hvort hann ætlaði að reyna að nota hana gegn mér. Í ljós kom að það síðara var rétt því við skilnaðinn var ákveðið að umgengni hans við dóttur okkar yrði eftir samkomulagi.

Mér fannst gott að hið sanna kom í ljós en með tímanum varð Pétur miklu betri pabbi. Hann flutti til Reykjavíkur innan árs eftir skilnaðinn og þá fóru feðginin að hittast fyrir alvöru. Hann sýndi og sannaði að hann er frábær faðir.

Hann fann sér nýja konu, ekkju með tvö börn, og er mjög hamingjusamur. Hann virðist ekki reyna að móta konuna í eitthvert fjölskylduform, heldur hefur hann greinilega eitthvað lært af skilnaði okkar tveggja þar sem ég útskýrði fyrir honum hvað stjórnsemi hans hefði haft skaðleg áhrif á hjónabandið.

Lífið er harla gott núna. Ég fór í háskólanámið sem ég þráði og er komin í sambúð með yndislegum manni.

Pétur er góður maður, það verður ekki af honum tekið. Hann upplifði einmanalega æsku sem einkabarn foreldra sem höfðu engan tíma fyrir hann. Því reyndi hann að búa til hina fullkomnu fjölskyldu, nema hvað hinn „aðalleikarinn“ í leikritinu lék ekki hlutverk sitt á réttan hátt, að hans mati.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -