Eftir Ásdísi Ósk Valsdóttur
Með tilkomu Covid þurftu fasteignasalar að takast á við ýmsar áskoranir. Allt í einu var ekki hægt að halda hefðbundin opin hús. Margir verkferlar urðu úreltir og við urðum að endurhugsa margt upp á nýtt. Ég hef verið fasteignasali í 18 ár og þrátt fyrir að tækninni hafi fleygt fram hafa opin hús, sýningar, skráningar og eftirfylgni verið nánast óbreytt allan þennan tíma.
Ég lét því gamlan draum rætast og lét skrifa kerfið Mínar síður sem tekur út megnið af handavinnunni. Mínar síður gera einnig okkar viðskiptavinum kleift að fylgjast mun betur með söluferlinu.
Kaupendur geta bókað sig í opið hús á netinu og sótt upplýsingabækling fyrir eignina. Þeir geta valið þann tíma innan tímaramma opna hússins sem hentar þeim best. Með því að sækja upplýsingabæklinginn þá eru þeir mjög vel upplýstir um eignina áður en þeir mæta á svæðið.
Seljendur geta fylgst með í rauntíma hversu margir kaupendur hafa bókað sig í opna húsið og hvernig það gekk fyrir sig. Þeir geta einnig átt samskipti við fasteignasalann í gegnum kerfið. Þegar eignin er seld þá er kaupandinn einnig tengdur við kerfið og þá fá báðir aðilar aðgang að upplýsingum á sama tíma.
Það er auðvelt að stýra hversu margir koma að skoða á sama tíma og okkar reynsla er að kaupendur vilja síður mæta í troðin opin hús þar sem erfitt er að skoða eignina og ná athygli fasteignasalans fyrir mannfjölda. Við getum lengt í opna húsinu á einfaldan máta ef þess þarf. Eftir opna húsið fá allir kaupendur sjálfvirkan eftirfylgnipóst til að kanna hvernig þeim hafi litist á eignina. Þannig tryggjum við að allir sitji við sama borð og að enginn gleymist. Áður gat eftirfylgnin hæglega tekið 5-10 klukkutíma ef mjög margir mættu í opna húsið, núna tekur hún 1 mínútu, algörlega óháð fjöldanum sem mætir .
Við erum einnig með Kaupóskakerfi undir Mínar síður. Þar geta kaupendur skráð inn sínar kaupóskir. Þeir fá sendar ábendingar þegar eignir koma á skrá sem passa við þeirra kaupóskir og stundum fara eignir ekki á netið heldur eru eingöngu seldar út úr þessum listum. Einnig geta seljendur leitað á heimasíðu Húsaskjóls og séð hversu marga kaupendur við erum með á skrá að þeirra eign.
Við notum rafrænar undirritanir þannig að bæði kaupendur og seljendur geta skrifað undir tilboð og fylgiskjöl með rafrænum hætti og skiptir engu hvar í heiminum þeir eru staddir, á meðan þeir hafa íslenskt símkort. Við hjá Húsaskjóli tókum þá ákvörðun að breyta okkar vinnuumhverfi. Við lokuðum stóru skrifstofunni, leigðum minna skrifstofuhúsnæði sem allir starfsmenn hafa aðgang að þegar þeir vilja, ásamt fundarherbergjum. Við vinnum heima og nýtum t.d. zoom fyrir vinnufundi. Öll verðmöt fara fram á zoom og skiptir því engu hvar starfsmaðurinn er staddur, hann getur alltaf tekið þátt.
Á einu ári fórum við með Húsaskjól úr því að vera hefðbundin fasteignasala í það að vera rafræn og sjálfvirk fasteignasala. Vinnusparnaður per eign er að meðaltali 10 klukkutímar. Með því að innleiða nýja kerfið fengum við fasteignasalarnir aukinn tíma til að einbeita okkur að því sem skiptir mestu máli, að þjónusta viðskiptavininn betur. Í staðinn fyrir að skrá niður upplýsingar í opnu húsi um skoðendur getur við verið til staðar og svarað spurningum gestanna.
Árið 2021 er langstærsta ár Húsaskjóls frá upphafi en samt hafa færri vinnustundir verið unnar. Þessi breyting gerir það að verkum að við getum veitt betri þjónustu og sinnt vinnunni okkar miklu betur án þess að þurfa að vinna öll kvöld og helgar eins og áður.
Greinarhöfundur er löggiltur fasteignasali, eigandi Húsaskjól fasteignasölu og félagskona í FKA.