Formaður VR segir undir stjórnvöldum komið hvort samkomulag gangi upp á milli félaga verslunarmanna og félaga Starfsgreinasambandsins annars vegar og Samtaka atvinnulífsins hins vegar.
„Við náðum, eins og segir í tilkynningunni, saman um ramma að mögulegum samningi og í því felst að stjórnvöld komi að þessari lausn. Við munum væntanlega funda með fulltrúum stjórnvalda strax upp úr klukkan níu.“ Þetta kom fram í máli Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, á Morgunvaktinni á Rás 1.
Um eitt í nótt var gengið frá yfirlýsingu um meginlínur kjarasamninga á milli félaga verslunarmanna og félaga Starfsgreinasambandsins annars vegar og Samtaka atvinnulífsins hins vegar, eins og fram kemur í tilkynningu sem ríkissáttasemjari sendi á fjölmiðla. Samningunum er ætlað að standa til 1. nóvember 2022, en frá þessu eru greint á fréttavef RÚV.
Ragnar segir að ef allt gangi upp geti samningurinn verið ásættanlegur fyrir verkalýðsfélögin, atvinnulífið og stjórnvöld. Nú sé það undir stjórnvöldum komið hvort samkomulagið gangi upp. Hamingjuóskir séu því ekki tímabærar á þessari stundu. „Ekki alveg strax. Ég myndi allavega bíða eitthvað fram eftir degi. Við náðum, eins og segir í tilkynningunni, saman um ramma að mögulegum samningi og í því felst að stjórnvöld komi að þessari lausn.“