Laugardagur 21. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Hefur loðað við konur að byrja seint að skrifa

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Benný Sif Ísleifsdóttir var orðin fjörutíu og sex ára þegar hún gerði alvöru úr því að leggja skriftir fyrir sig. Hún segist sáralítið hafa skrifað fyrir þann tíma, var heimavinnandi húsmóðir með fimm börn og síðan í námi í þjóðfræði í Háskólanum. Skriftirnar liggja þó vel fyrir henni og nú er önnur skáldsaga hennar, Hansdætur, komin út og fær rífandi góða dóma. Benný segir velgengnina þó geta verið tvíeggjað sverð, góðar viðtökur og hrós séu auðvitað hvatning til að halda áfram en setji jafnframt pressu varðandi næstu bók. 

Spurð hvers vegna það hafi tekið hana svona langan tíma að byrja að skrifa segir Benný Sif að það hafi nú verið sambland af ýmsum þáttum sem olli því. „Ég byrjaði ung að eignast börn, var komin með fjórar dætur tuttugu og níu ára, þannig að það tók hug minn og tíma lengi vel,“ útskýrir hún. „Þá var ég ekki búin að klára eiginlegt háskólanám og var þess vegna í fjarnámi í íslensku á meðan þær voru litlar. Þá bjuggum við maðurinn minn austur á Eskifirði, þar sem við erum bæði alin upp, en fluttum suður 2006 og þá eignaðist ég fimmta barnið, sem var drengur. Þegar hann var kominn á leikskóla fór ég í þjóðfræði í Háskóla Íslands og kláraði meistaranám í henni. Það var skömmu eftir hrun og ég átti svo sem ekki von á því að það væri beðið eftir mér með miklum spenningi á vinnumarkaði, ég var búin að vera heima svo lengi. Þess vegna ákvað ég að halda áfram að læra, hef alltaf verið dálítið góð í því og hafði meiri trú á mér þar heldur en á vinnumarkaðinum.“

Yngri en Guðrún frá Lundi

Benný hefur þó engan veginn þurft að kvarta yfir viðtökunum sem bækur hennar hafa fengið, en það segist hún auðvitað ekki hafa getað vitað fyrir fram. Námið í þjóðfræðinni hafi ýtt undir sjálfstraustið til að láta vaða og byrja að skrifa. „Ég settist bara niður í ársbyrjun 2016, eftir útskrift úr Háskólanum, og byrjaði að skrifa Grímu, útskýrir hún. „Ég var náttúrlega orðin fjörutíu og sex ára gömul þá og hugsaði með mér að ég næði kannski að jafna Kristínu Marju, sem byrjaði á svipuðum aldri, en ég var ári of sein með útgáfuna til að ná því. Guðrún frá Lundi var samt mun eldri og það hefur svolítið loðað við konur að byrja seint að skrifa, alveg þangað til á síðustu árum.“

Ýtarlegt og bráðskemmtilegt viðtal er við Benný í jólablaði Vikunnar en bók hennar Hansdætur er án efa ein sú athyglisverðasta í jólabókaflóðinu.

Myndir: Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Elsta tímarit landsins um daglegt líf, tísku, menningu, mat og lífsstíl.

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu vikuleg tölublöð á 832 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 1.795 kr.

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -