Elísabet Gunnarsdóttir er tískuáhugafólki vel kunn en hún stofnaði fyrstu íslensku blogg-veröldina þar sem fjölbreyttur hópur bloggara kom saman undir einum hatti.
Níu árum síðar hefur Elísabet skapað sér heimili víðs vegar um Evrópu en flakkið skrifast á atvinnu æskuástarinnar sem Elísabet giftist nú fyrr í sumar. Þrátt fyrir fjölbreytta búsetu er Elísabet óhrædd við að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd enda segir hún tækifærin ótæmandi.
„Ef maður tileinkar sér að skrifa heiðarlega og vera ekkert að þykjast vera annar en maður er gengur allt vel. Ég tel að það hafi verið lykillinn að mínum árangri.”
„Ég held mínu striki óháð því hvað öðrum finnst. Ég hef að sjálfsögðu fengið gagnrýni sem fer fyrir brjóstið á manni, sérstaklega þegar fólk skrifar eitthvað á Netinu en getur síðan ekki staðið á bak við skrif sín í persónu. Það er alltaf óheillandi. En ég finn fyrir miklum meðbyr sem er margfalt meira jákvætt en neikvætt og það hvetur mig áfram.”
„Ég lít á samstörf sem hluta af launum, en það er ekki alltaf auðvelt að fá greitt í peningum. Þannig fæ ég kannski föt á börnin mín sem hluta af greiðslu fyrir eitthvað verkefni sem aðrir eyða hluta af launum í. Launin berast á annan máta til mín.”
„En það er erfitt að sjá framtíðina fyrir sér í þessum málum. Margir telja að samskiptamiðlar muni færast yfir í minni hópa og miðla. Þannig verðir þú kannski á einum miðli einungis með fólki sem þú þekkir eða átt eitthvað sameiginlegt með. Þá minnkar aðeins þetta áreiti sem nú er á miðlunum í formi auglýsinga og pósta frá fyrirtækjum. Það er mikið talað um hópa (e. tribals) í þessum efnum, að fólk fari að skiptast meira niður í svona flokka og hangi meira með sínum líkum inn á samskiptamiðlum. Það er ein kenning sem mér finnst hljóma nokkuð líkleg þar sem samskiptamiðlar tapa sjarma sínum að einhverju leiti þegar þeir stækka of mikið.
Á vissan hátt er ég heppin að búa erlendis í mínu starfi. Ég á mér einkalíf og pæli lítið í því hvernig ég er til fara þegar ég fer út úr húsi. Eflaust væri ég ekki jafn frjálsleg ef ég byggi á Íslandi.”
„Í sjálfu sér er ég ekki viss um að ég hefði haldið svona lengi út sem bloggari ef ég byggi á Íslandi því ég hleypi fólki nálægt mér á samfélagsmiðlum.”
„Það hafa ekki allir sömu skoðun á því, sérstaklega þegar börnin fylgja með. Þau eru bara svo stór hluti af mínu lífi að ég myndi ekki geta útilokað þau frá bloggi og samskiptamiðlum. Eftir að Instagram story kom hef ég gefið fylgjendum mun persónulegri nálgun og ég held að fólk kunni vel að meta það. Þetta er viss kafli í mínu lífi sem mun ljúka einhvern daginn og ég mun bara njóta á meðan á honum stendur. Ég elska að geta veitt einhverjum innblástur og það drífur mig áfram í mínu.”
Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.
Texti / Íris Hauksdóttir.
Myndir / Aldís Pálsdóttir.
Förðun / Björg Alfreðs.