Þriðjudagur 29. október, 2024
5.7 C
Reykjavik

Heimilið endurspeglar okkur sjálf

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Virpi Jokinen er ættuð frá Finnlandi en hefur verið búsett hér á landi í aldarfjórðung. Hún hafði starfað sem skipulagsstjóri Íslensku óperunnar í 11 ár, þar til fyrir rúmu ári þegar hún ákvað að venda kvæði sínu í kross og stofna fyrirtækið Á réttri hillu. Skipulagsaðstoðin sem Á réttri hillu býður upp á felst í því að koma til aðstoðar hjá einstaklingum og minni fyrirtækjum þegar skipulagsleysi veldur vanda.

Virpi segir verkefnin mjög mismunandi eftir þörfum viðskiptavina og að starf hennar taki breytingum eftir því hvað hvert verkefni kallar á. „Öll verkefnin byrja á klukkustundar viðtali til að ræða stöðuna, sjá heimilið eða fyrirtækið og setja markmið í samstarfi við viðskiptavininn. Eftir það er svo undir viðskiptavininum komið hvort óskað er eftir að fá mig aftur seinna til að vinna að sjálfu verkinu. Á meðan til dæmis er unnið að meiri háttar tiltekt eða undirbúningi flutninga er hlutverk mitt að vera tímavörður, hvetja viðskiptavininn áfram, finna mögulegar lausnir og koma með tillögur. Ég tek aldrei ákvarðanir um neitt eða mynda mér skoðun á því hvað viðskiptavinurinn á eða á ekki að gera. Markmið starfs míns er að viðskiptavinir annaðhvort nái markmiðum sínum eða komist hægt og rólega af stað í átt að markmiðum sínum“, segir hún.

Ekki alltaf auðvelt að óska eftir aðstoð

„Ég hafði sinnt margvíslegum verkefnum hjá Óperunni og var alltaf með marga bolta á lofti,“ segir Virpi þegar hún útskýrir hvernig hugmyndin að fyrirtækinu hafi komið til. „Í framhaldinu kviknaði þessi hugmynd, að fara af stað með eigin rekstur og að loknu frábæru Brautargengisnámskeiði hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands ákvað ég láta slag standa og stofnaði Á réttri hillu í ársbyrjun 2018. Nafnið á fyrirtækinu kom til mín í spjalli við vinkonu á veitingastað þar sem ég var enn eina ferðina að útskýra þessa hugmynd og að ég hefði svo mikla trú á þessu, mér fyndist ég bara vera svo á réttri hillu með þetta. Hún segir að svipurinn á mér hafi verið kostulegur þegar við áttuðum okkur á að þarna væri rétta heitið loksins fundið. Þá var ekki aftur snúið og daginn eftir tók ég frá lénið www.arettrihillu.is.“

Virpi segir viðtökurnar hafa verið mjög góðar og hún fagnar því hversu margir hafa sett sig í samband við sig. „Það er ekki alltaf auðvelt að óska eftir svona persónulegri þjónustu, hvað þá að fá einhvern gjörókunnugan heim til sín. Ég hugsa að mér sé óhætt að fullyrða að flestum ef ekki öllum viðskiptavinum mínum hingað til hafi þótt þjónustan koma sér vel og að möguleg feimni þeirra við að velja þessa þjónustu hafi snúist í ánægju yfir að hafa áttað sig á þessum möguleika og stigið það erfiða skref að hafa samband. Viðskiptavinir fyrirtækisins eru breiður hópur fólks, einstaklingar til jafns við fjölskyldur, fólk með eigin rekstur, yngra og eldra fólk. Það sem einna helst einkennir viðskiptavinina er að þeir eru oft á tíðum með mjög skýrar hugmyndir um lokamarkmiðið eða í það minnsta með mjög sterka tilfinningu fyrir þörf á ákveðinni breytingu á nákvæmlega þessum tímapunkti. Út frá því er þjónustan einnig hugsuð. Á réttri hillu er til aðstoðar á þeim tímapunkti í lífinu, verkefninu eða ferlinu þegar hennar er þörf. Að mínu mati er engin skömm að því að óska eftir aðstoð en það er aftur á móti dapurt að neita sér um það ef brýn þörf er fyrir hendi.“

Meginatriði að gefa sér góðan tíma

Hingað til hafa öll verkefni sem Virpi hefur tekið að sér snúist um hluti í eigu einstaklinga og fyrirtækja. Hún aðstoðar við að finna leiðir til að fækka þeim og koma því sem eftir verður betur fyrir. Í samstarfi við viðskiptavini hefur hún meðal annars létt á ýmiss konar hlutum á heimilum, fækkað pappírum, tekið til í bílskúrum, geymslum og háaloftum, undirbúið flutninga og útbúið vinnuherbergi.

Aðspurð um ráð fyrir þá sem vilja taka heimilið sitt í gegn telur Virpi meginatriði að gefa sér góðan tíma. „Að ætla heilt ár í að létta á venjulegu heimili er ekki langur tími, í mörgum tilfellum örugglega bara alveg mátulegur. Í upphafi er nauðsynlegt að sjá lokamarkmiðið fyrir sér og gefa sér góðan tíma til að móta það, jafnvel skrifa það niður. Ef um fjölskyldu er að ræða er mikilvægt að fá sjónarmið allra um það hvað hver og einn telur mikilvægt til að tryggja að útkoman þjóni öllum á heimilinu sem best. Ég tel að það sé lítið gagn að lista sem á stendur allt sem er að, en allt öðru máli gegnir um lista þar sem kemur fram hvernig maður vill hafa ákveðna hluti. Ég á við að í stað þess að hugsa eða skrifa hjá sér „bílskúrinn er fullur af dóti“ væri betra að skrifa „ég vil geta keyrt bílinn inn í bílskúr“ eða „ég vil geta gengið að verkfærunum vísum á sínum stað og í lagi“. Þarna eru komin skýr markmið sem hægt er að fara að vinna að.

Ítarlegra viðtal við Virpi og fleiri góð ráð frá henni má finna í nýjasta tölublaði Vikunnar.

- Auglýsing -

/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
Myndir: Unnur Magna

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -