Laugardagur 4. janúar, 2025
-2.2 C
Reykjavik

 Heimsfrægar fyrir að borða sushi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sushi-klúbburinn Súsí er gagnmerkur félagsskapur sem stofnaður var í Horsens í Danmörku fyrir tíu árum og telur félagskonur á breiðu aldursbili sem eiga það sameiginlegt að hafa einhvern tíma búið í Horsens. Klúbburinn hefur þó löngu flutt starfsemi sína til Íslands og blómstrar sem aldrei fyrr að sögn Lenu M. Aradóttur, einnar af félagskonunum.

„Það voru fjölmargir Íslendingar í námi í VIA-háskóla í Horsens, konur og karlar, meðal annars í byggingarfræði, alþjóðaviðskiptum, Value Chain Management eða uppeldisfræði. Aðrir fóru í snyrtiakademíuna eða út á vinnumarkaðinn, eða hugsuðu um heimilið á meðan makinn var í námi,“ útskýrir Lena. „Meirihlutinn af þeim sem voru í náminu voru karlmenn en þeir áttu margir fjölskyldur og Íslendingafélagið í Horsens var mjög aktíft. Einhvern tíma kom upp sú hugmynd að hittast heima hjá einni af íslensku konunum og búa til sushi saman. Ein okkar var mjög fróð um sushi-gerð og fræddi okkur hinar og lengi framan af vorum við alltaf með heimatilbúið sushi þegar við hittumst.“

Sushi-kvöldin urðu geysivinsæl meðal íslensku kvennanna, hópurinn stækkaði sífellt og á endanum var svo komið að þær þurftu að fá matsalinn í skólanum lánaðan fyrir fundina.

„Það bjuggu allir í frekar litlu húsnæði þarna úti svo það var ekki pláss fyrir okkur allar í heimahúsum lengur,“ segir Lena og hlær. „Við stofnuðum klúbbinn formlega 2009 og það merkilega er að þótt stöðugt bættist í hópinn þá er alltaf sami kjarninn.“

Best að kynnast konum úr ólíku umhverfi

Lena segir markmið klúbbsins hafi alltaf verið að leyfa öllum sem vildu að vera með og þótt það séu bara konur í honum sé það ekki vegna þess að karlmenn séu bannaðir, þeir hafi bara aldrei sótt um inngöngu. En hvað er það sem hefur haldið hópnum saman í öll þessi ár?

„Ég spurði einmitt hinar að því þegar ég vissi að ég væri að fara í þetta viðtal hvað þeim fyndist best við að vera í Súsí,“ útskýrir Lena. „Flestar voru sammála um að það besta væri að þar kynntust þær konum sem þær hefðu ekki annars kynnst. Við erum á mjög dreifðu aldursbili, með mjög mismunandi menntun, vinnum mismunandi störf og þetta er rosalega fjölbreyttur hópur. Okkur finnst ofboðslega gaman að hittast í jákvæðu umhverfi og byggja hver aðra upp með fólki sem við myndum ekki annars umgangast.“

„Þegar við fórum í bústaðinn síðast gerði hún sushi-pítsu sem var alveg brjálæðislega góð. Það hefur hver sinn smekk á því hvernig hún vill hafa sitt sushi.“

- Auglýsing -

Í upphafi var alltaf borið fram heimagert sushi þegar klúbburinn hittist en eftir að konurnar fluttu heim, höfðu meira að gera og meiri fjárráð var farið að bjóða upp á aðkeypt sushi.

„Við erum bara komnar í aðeins meiri lúxuslífsstíl, orðnar aðeins eldri,“ segir Lena og glottir. „En það er enn þá mjög spes að hittast og búa til sushi saman og það gerum við alltaf einstöku sinnum. Förum til dæmis í bústað einu sinni á ári og gerum sush-ið sjálfar að minnsta kosti í annarri hverri ferð, það er alveg yndislegt.“

Hvað er hópurinn orðinn stór?

- Auglýsing -

„Í hópnum okkar á Facebook eru tuttugu og sjö meðlimir í augnablikinu,“ segir Lena. „Þær eru ekki allar mjög virkar en það eru alla vega um tuttugu konur sem eru mjög duglegar að mæta.“

Blaðamaður frá Varsjá mætti á staðinn

Í sumar fagnaði Súsí tíu ára afmælinu með því að hópurinn fór saman til Póllands þar sem lifað var í vellystingum. Hvers vegna varð Pólland fyrir valinu?

„Við erum búnar að tala um það í mörg ár að við þyrftum að fara eitthvað út og gera eitthvað skemmtilegt saman,“ útskýrir Lena. „Tvær úr hópnum tóku svo af skarið, pöntuðu sér flugmiða til Wroclaw í Póllandi og hvöttu okkur hinar til að koma líka. Þátttakan fór fram úr þeirra björtustu vonum, á endanum vorum við tuttugu sem fórum í þessa helgarferð.“

 „Eigandinn verður alveg uppveðraður yfir því hvað þetta sé merkilegt og kallar til blaðamann sem mætti og mér skilst að hann hafi setið í lest frá Varsjá í tvo til þrjá tíma bara til að koma og taka viðtal við okkur.“

Og borðuðuð þið bara sushi allan tímann?

„Nei, við gerðum það nú ekki,“ segir Lena og skellihlær. „En við borðuðum á algjörlega frábærum sushi-stað þar sem maturinn var yndislegur og við fengum alveg framúrskarandi þjónustu.“

Heimsókn hópsins til Wroclaw vakti svo mikla athygli þarlendra að kallaður var til blaðamaður sem tók við þær viðtal og myndaði í bak og fyrir. Hvernig kom það til?

„Já, það er óendanlega fyndin saga,“ segir Lena og skellir aftur upp úr. „Við skildum bara ekkert hvað við vorum komnar út í. Þannig var að ein okkar sendi tölvupóst á veitingastað til að bóka borð og þar kemur fram að það sé að koma tuttugu kvenna hópur frá Íslandi, sushi-klúbburinn Súsí. Eigandinn varð alveg uppveðraður yfir því hvað þetta væri merkilegt og kallaði til blaðamann sem mætti og mér skilst að hann hafi setið í lest frá Varsjá í tvo til þrjá tíma bara til að koma og taka viðtal við okkur. Hann birti síðan grein með myndum og eftir á vorum við allar alveg á útopnu yfir því að nú yrðum við heimsfrægar. Í gríni auðvitað. En þetta var mjög skemmtilegt.“

Ekkert mál að borða vegan-sushi

Það er greinilega mikið fjör þegar hópurinn hittist en hafa myndast einhver viðvarandi vináttutengsl í gegnum starfsemi klúbbsins?

„Já, algjörlega,“ segir Lena með sannfæringu. „Það eru litlir hópar innan stóra hópsins. Til dæmis erum við nokkrar á mínum aldri með lítinn saumaklúbb sem hittist enn þá reglulega. Við höfum allar búið í Horsens og vorum nánar þar og svo héldum við vináttunni eftir að við komum til Íslands.“

Hvað finnst mökum ykkar um þetta uppátæki ykkar?

„Þeir voru mjög margir með okkur úti líka og þekkjast vel,“ segir Lena. „Maðurinn minn fer til dæmis í veiðiferðir með mönnum nokkurra úr hópnum, þannig að í rauninni er þetta stór vinahópur. Mér finnst þetta alveg einstakt. Það eru allir alltaf velkomnir og maður kannast við alla og alltaf jafngaman að hitta hópinn.“

Eruð þið ekki orðnar algjörir sushi-sérfræðingar eftir öll þessi ár?

„Ég veit nú ekki hvort við teljumst sérfræðingar,“ segir Lena sposk. „Það eru þarna nokkrar sem eru ofboðslega klárar í sushi-gerð og þær eru dálítið í því að leiðbeina okkur hinum. Ég kann alveg að rúlla sushi-rúllur, en einn sérfræðinganna okkar er kominn út í alls kyns tilraunastarfsemi. Þegar við fórum í bústaðinn síðast gerði hún sushi-pítsu sem var alveg brjálæðislega góð. Það hefur hver sinn smekk á því hvernig hún vill hafa sitt sushi. Við erum til dæmis tvær í hópnum sem eru vegan, borðum ekki fisk, en það er ekkert mál að fá vegan-sushi með grænmeti og ávöxtum. sumum finnst skrýtið að kalla það sushi en orðið þýðir hrísgrjón svo það er engin þversögn í því að borða sushi án fisks.“

 „Það væri ekkert smáflott að fara til Japans á tuttugu ára afmælinu.“

Það hlýtur að vera langþráður draumur allra sushi-unnenda að komast til Japans, stefnið þið á að fara þangað?

„Það væri reyndar alveg geggjað markmið,“ segir Lena og brosir. „Ég tek þetta mál upp í sumarbústaðaferðinni í febrúar. Reyndar er það ansi langt ferðalag og margar okkar enn þá með ung börn en kannski við setjum bara stefnuna á að hafa það sem framtíðarmarkmið. Það væri ekkert smáflott að fara til Japans á tuttugu ára afmælinu.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -