Transformer er málið fyrir Guðjón Orra Gunnarsson sem er tvítugur Reykvíkingur og á eitt stærsta safn Íslands af plastkörlum af tegundinni Transformer auk ýmissa annarra fígúra af svipuðu tagi.
„Transformer eru persónur utan úr geimnum sem hafa hug á að leggja undir sig orkulindir jarðarinnar. Sumir með ofbeldi en aðrir í samstarfi við jarðarbúa. Þeir dulbúa sig sem farartæki á jörðinni til þess að koma áformum sínum í kring,“ segir Guðjón Orri þegar við stöndum saman og skoðum safnið hans.
Hvenær fórstu að safna Transformer-persónum? Blaðamaður spyr andaktugur er hann virðir fyrir sér tilkomumikið safnið af umræddum geimpersónum sem Guðjón geymir á mörgum hillum. Þar er sannarlega marga sérkennilega og jafnvel háskalega náunga að sjá. „Ég var sex ára þegar ég fékk fyrsta Transformer-karlinn. Ég á hann ekki lengur en sá samskonar karl á Netinu. Hann var hins vegar svo dýr að ég lét vera að kaupa hann. Ég fór að safna markvisst Tranfsformer-körlum þegar ég var tíu ára. Safnið mitt hefur að geyma að minnsta kosti þrjú hundruð slíka, suma á ég í ýmsum stærðum,“ bætir Guðjón við.
Hafa í hyggju að drepa alla á jörðinni
Hver úr safninu er í mestu uppáhaldi hjá þér? „Ég á dálítið erfitt með að velja – held samt að ég nefni Springer. Hann getur breytt sér bæði í þyrlu og bíl og er einn af þeim góðu úr Transformer-hópnum utan úr geimnum. Aðalpersónan af hinum góðu er Optimus Prime, hann er höfðingi þeirra og vill hjálpa mannfólkinu á jörðinni að nýta orkulindir sínar.“
„Ég fór að safna markvisst Tranfsformer-körlum þegar ég var tíu ára. Safnið mitt hefur geyma að minnsta kosti þrjú hundruð slíka, suma á ég í ýmsum stærðum.“
Hver er höfðingi þeirra vondu? „Hann heitir Megatron og er alltaf grár, hann á ég í nokkrum stærðum. Hann og hjálparmenn hans hafa í hyggju að drepa alla á jörðinni með ofurvopni. Hjálparpersónur Megatrons á ég líka til í safninu mínu.“
Er þetta dýrt tómstundagaman? „Já. Ég held að ég hafi eytt meiripartinum af peningunum mínum undanfarin ár í þetta safn. Ég hef reyndar líka fengið ýmsa Transformer-karla að gjöf.“
Hefurðu verið í sambandi við erlenda safnara? „Nei, en ég er í sambandi við tvo íslenska safnara. Við höfum hist á kaffihúsi. Ég hef ekki enn séð söfnin þeirra, bara heyrt um þau. Við ræddum reyndar meira um spilakvöld þegar við hittumst, við spilum saman borðspil.“
Fann Transformers-borðspil í Góða hirðinum
Hefurðu farið til útlanda til að kaupa í safnið? „Já, ég hef farið margar slíkar ferðir og keypt persónur í safnið sem ekki fást hér heima. Ég hef líka skoðað mikið á Netinu og stundum keypt þar inn í safnið mitt.“
Ertu að hugsa um að halda áfram að safna? „Já, mér finnst þetta mjög gaman og ætla ekki að hætta í bráð. Ég safna reyndar fleiru og hef sjálfur sett saman módel. Þau eru samt ekki af „ætt“ Transformer, heldur Gundam sem eru japönsk módel. Ég leita víða að einhverju í safn mitt. Um daginn var ég heppinn, fann í Góða hirðinum Transformer-borðspil sem er alveg ónotað,“ segir Guðjón, lukkulegur með að hafa fundið þennan dýrgrip.
Texti / Guðrún Guðlaugsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson