Þriðjudagur 29. október, 2024
5.7 C
Reykjavik

Helmer hjónin hittast aftur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Brúðuheimili Hendriks Ibsen hefur lengi verið talið eitt af umdeildustu raunsæisverkum síðari ára. Í verkinu Dúkkuheimilið, annar hluti, hitta áhorfendur fyrir sömu persónur, fimmtán árum síðar, en verkið er sýnt um þessar mundir í Borgarleikhúsinu.

Ibsen skrifaði leikritið um Helmer-hjónin (e. A Doll´s House) árið 1897 en endir verksins var byltingarkenndur, svo ekki sé meira sagt. Eftir sat spurningin, hvað varð um Nóru eftir að hafa yfirgefið mann sinn og börn með þekktasta hurðaskelli bókmenntasögunnar.

Í nýju höfundarverki Lucas Hnath, Dúkkuheimilið, annar hluti, ber Nóra að sömu dyrum, fimmtán árum síðar, og það sem áhorfendur fá fljótt að vita er að hjónin eru enn gift.
Ár er síðan verkið var frumsýnt á Broadway og það var strax tilnefnt besta leikritið á Tony-verðlaunahátíðinni, enda er það skemmtilega skrifað, í anda Ibsens þar sem kjarnastefið um kraft konunnar er haft að leiðarljósi. Leikhúsgestir þurfa ekki að hafa lesið Ibsen eða séð Brúðuheimilið því forsagan kemst vel til skila í þýðingu Sölku Guðmundsdóttur.

Fjölbreytt listform héldu sýningunni á lofti en búningar Stefaníu Adolfsdóttur voru ákveðinn senuþjófur. Nóra sveiflaðist um sviðið líkt og nautabani og ögrar bæði eiginmanninum og úreltum viðhorfum.

Litavalið var jafnframt áhugavert og augljóst að gæði ríktu innan fjölskyldunnar sem þar til nú hafði sópaði vandamálum undir flauelsteppið.
Tónlistin átti sinn þátt í að skapa magnþrungna stemningu Nýja sviðsins þar sem Una Sveinbjargardóttir á heiður skilinn. Leikmynd Barkar Jónssonar birti ískalt og persónuleikalaust heimili sem minnti frekar á grafhýsi en glæsihöll. Lýsing Björns Bergsteins Guðmundssonar jók jafnframt dramatísk áhrif tónlistar og dansatriða sem römmuðu verkið listilega inn undir leikstjórn Unu Þorleifsdóttur.
Dansatriðin áttu stóran þátt í uppfærslunni undir stjórn Sveinbjargar Þórhallsdóttur. Verkið hefst með danshreyfingum sem verða að viðloðandi stefi. Danshreyfingarnar hefði á köflum mátt stytta þó að tilkomumikill tangó hjónanna síðar í verkinu hafi verið táknrænn þar sem Nóra kvaddi endanlega þá undirgefnu konu sem hún eitt sinn var.

Í uppgjöri hjónanna var jafnframt bráðsnjallt að sjá Nóru spegla líkamsstöðu Þorvaldar og beina sjónum að karllægum stellingum þegar kemur að yfirráðaorðræðu.

Margrét Helga Jóhannsdóttir fer með hlutverk barnfóstrunnar Önnu Maríu en viðhorf hennar kallaðist á við hjónin hvort um sig. Lágróma rödd Emmu, dóttur hjónanna, í meðförum Ebbu Katrínar Jónsdóttur, speglaði svo unga Nóru með viðhorf feðraveldisins að leiðarljósi. Textinn hefur nefnilega tvær hliðar svo áhorfendur halda á einhvern hátt með öllum karakterunum fjórum. Ólíkar hugmyndir um ástina, skuldbindingu hjónabandsins, samskipti kynjanna og stöðu konunnar á sannarlega við í samtíma leikhúsi.
Þótt umfjöllunarefnið sé þungt er alltaf stutt í húmorinn, þökk sé Hilmi Snæ Guðnasyni sem lífgerir hér kunnuglegan karakter. Þau Hilmir og Unnur Ösp Stefánsdóttir eru óumdeilanlega miklir þungavigtaleikarar. Ástríðan á milli Nóru og Þorvaldar er enn til staðar og á einhverjum tímapunkti glitti í von um að hjónaband þeirra hlyti farsælan endi. Lok verksins eru þó sterk því Nóra er hvergi nærri hætt í baráttu sinni fyrir frelsi konunnar. Það er vel hægt að mæla með Dúkkuheimili, öðrum hluta, fyrir alla sem vilja komast nær því að skilja hvað það felur í sér að vera manneskja.

Umfjöllunina má finna í 39 tbl. Vikunnar.

Texti/ Íris Hauksdóttir.

- Auglýsing -

Mynd / Grímur Bjarnason.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -