Þriðjudagur 24. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Heppnust í heimi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni

Þegar ég var fimmtán ára fékk ég vægast sagt erfiðar fréttir. Fólkið sem ég hafði þekkt alla ævi sem mömmu og pabba sagði mér að þau hefðu ættleitt mig þegar ég var nýfædd. Ég varð bálreið og ákvað að að finna „alvöruforeldra“ mína.

Líf mitt hafði verið mjög gott, ég ýki ekki þótt ég segi að mér hafi nánast verið vafið inn í bómull þótt vissulega ríkti agi á heimilinu. Mér fannst það kannski ekki á unglingsárunum en þegar ég leit til baka fullorðin finnst mér ég hafa átt fullkomið líf. Pabbi og mamma reyndu sitt besta til að veita mér allt það besta án þess þó að ofdekra mig.

Daginn eftir fimmtánda afmælisdaginn minn komu þau að máli við mig og sögðust vilja segja mér nokkuð sem ég ætti rétt á að vita. Þau hefðu ákveðið fyrir löngu að ég fengi að heyra sannleikann þegar ég yrði fimmtán ára, þá væri ég orðin nógu þroskuð. Þá var ár í að ég yrði sjálfráða sem var 16 ára á þessum tíma.

Ég fékk hjartslátt og fann kvíðann læsast um mig en samt átti ég ekki von á því að þau segðu mér að ég hefði verið ættleidd. Þau bættu því við að ég væri nú samt ekkert minna en alvörudóttir þeirra, þeim gæti ekki þótt vænna um mig. Ég yrði þó að fá að vita hið sanna.

„Mér leið eins og mér hefði verið hafnað og ég svikin, það særði. Einhverjum grunni hafði verið kippt undan fótunum á mér og mér fannst ég svífa í lausu lofti.“

Ég tók þessu hreint ekki vel, fór að hágráta og gargaði svo á þau, skipaði þeim að koma sér út úr herberginu mínu. Ég var í algjöru losti. En þau gerðu það sem ég bað um og voru örugglega í uppnámi eins og ég. Þeim fannst þau án efa hafa verið að gera rétt með þessu en áttu líklega ekki von á því að ég tæki þessu svona illa. Ég var í raun bara krakki sem hafði engan þroska til að skilja þetta. Mér leið eins og mér hefði verið hafnað og ég svikin, það særði. Einhverjum grunni hafði verið kippt undan fótunum á mér og mér fannst ég svífa í lausu lofti. Ég get eiginlega ekki lýst þessu betur en þetta voru skelfilegar fréttir að fá, fannst mér.

- Auglýsing -

Einbeitt ákvörðun

Næsta dag var ég búin að jafna mig örlítið en ég var fálát og hálffúl við foreldra mína. Það kraumaði einhver reiði í mér þótt ég vissi ekki alveg hvers vegna. Líklega vildi ég að þau hefðu sagt mér þetta fyrr en samt ekki … og ekki þegja yfir því heldur. Æ, ég vissi ekki hvað ég vildi. Þetta voru hræðilegar fréttir að fá fyrir unglingsstelpu sem átti nóg með sig og alla hormónana sem kraumuðu.

Ég fór til Báru vinkonu, ég varð að segja einhverjum frá þessu og henni hef ég getað treyst alla ævi, eða í marga áratugi núna.

- Auglýsing -

Báru brá mikið. Fyrst hélt hún að ég væri að grínast en eftir smástund meðtók hún þetta og var ofboðslega hissa. Hún hvatti mig áfram þegar ég sagði henni að ég væri ákveðin í því að finna „alvörupabba og -mömmu“ og komast að því hvers vegna þau höfðu þurft að gefa mig frá sér. Kannski átti ég fleiri systkini og það hafði ég alltaf þráð. Stóra systir mín var tólf árum eldri en ég og gat aldrei fyrirgefið mér fyrir að koma í fjölskylduna. Hún var líka ættleidd, ég komst að því sama kvöld og ég fékk tíðindin, og hún fylltist mikilli afbrýðisemi þegar ég kom til sögunnar. Einhverra hluta vegna sagði hún mér aldrei frá því að ég væri ættleidd og það fannst mér skrítið því hún gat verið svo andstyggileg. Hún hefur eflaust lofað pabba og mömmu því þegar hún var þrettán ára og fékk tíðindin af eigin ættleiðingu. Hún tók því ekki vel og þess vegna var ákveðið að bíða aðeins með að segja mér sannleikann, eða þar til ég yrði fimmtán ára.

Við systir mín náðum ekki saman og á þessum tíma var hún nýgift og átti barn. Ekki gat ég leitað til hennar, henni var svo illa við mig og mér við hana. Það breyttist þó smám saman næstu árin og nú erum við nánar og góðar systur.

Undarleg heimsókn

Með hjálp pabba og mömmu komst ég að því að líffræðilegur faðir minn hefði verið bandarískur hermaður á Vellinum og líffræðileg móðir mín aldrei vitað fullt nafn hans. Hún hafði kynnst öðrum hermanni skömmu eftir að hún eignaðist mig og gaf, og flust með honum til Bandaríkjanna. Það var víst engin leið að hafa uppi á henni en hún átti móður á lífi og ég fékk aðstoð við að komast í samband við hana. Hún bjó í kjallaraíbúð í nokkuð stóru timburhúsi í Vesturbænum í Reykjavík og var tilbúin til að taka á móti mér einn laugardaginn eftir hádegi. Ég vildi alls ekki taka pabba og mömmu með mér þótt þau byðust til þess að vera mér til halds og trausts, heldur bað ég Báru vinkonu um að koma með mér.

Við Bára tókum strætó, að mig minnir leið 4 sem stoppaði skammt frá húsinu. Við gengum niður kjallaratröppurnar og ég bankaði á dyrnar. Eftir smástund myndi ég hitta alvöruömmu mína og ég var með fiðrildi í maganum af spenningi og tilhlökkun.

Dyrnar opnuðust örlítið en nóg til að megn fýla bærist út og skylli á okkur. Gömul, hrukkótt kona horfði á okkur í gegnum rifu á dyrunum og þegar ég heilsaði og sagði hver ég væri, greip hún í mig og dró mig inn. Síðan lokaði hún og Bára varð eftir úti. Ég gekk inn og fór á eftir ömmu inn í eldhús. Mest langaði mig til að taka fyrir nefið en stillti mig um það. Lyktin var af sorpi, tóbaksreyk og fúkka, held ég, en ég hafði aldrei áður farið inn í hús sem lyktaði svona. Allir gluggar voru harðlokaðir, dagblaðabunkar um allt og ruslapokar sem átti eftir að fara með út í tunnu. Ég er ekki viss um að hún hafi verið ruslasafnari, hún var bara sóði. Ég sá að eldri maður lá hrjótandi í sófa þegar við gengum fram hjá stofunni.

„Gömul, hrukkótt kona horfði á okkur í gegnum rifu á dyrunum og þegar ég heilsaði og sagði hver ég væri, greip hún í mig og dró mig inn. Síðan lokaði hún og Bára varð eftir úti.“

Við settumst við eldhúsborðið í þögn en svo spurði ég hvort gamli maðurinn í sófanum inni í stofu væri afi minn. Nei, afi minn væri löngu dauður úr drykkju, sagði hún. Þetta væri nú bara kærastinn hennar. Svo þagnaði hún, kveikti sér í sígarettu og fór að leggja kapal á eldhúsborðinu. Ég horfði í kringum mig og sá fleiri ruslapoka á eldhúsgólfinu, þar af nokkra með tómum vínflöskum. Enn ríkti þögn og mér datt ekkert í hug til að segja. Eftir um það bil fimm mínútur af vandræðalegri þögn stóð ég upp. Andrúmsloftið var svo óþægilegt að ég gat ekki verið þarna lengur. Ég kvaddi ekki, lét mig bara hverfa.

Augun opnast

Bára beið áhyggjufull í kjallaratröppunum þegar ég kom út og horfði spurnaraugum á mig. Ég kom ekki upp orði. Við gengum þegjandi niður á Lækjartorg og þaðan náðum við vagni heim. Sem betur fer voru fáir í strætó og enginn sat fyrir aftan okkur því ég grét alla leiðina heim. Bára hélt í höndina á mér og reyndi ekki að tala við mig.

Ég elti Báru heim til hennar og var að mestu leyti búin að jafna mig þegar við komum upp í herbergið hennar. Ég sagði henni hvernig þetta hefði verið og hún hryllti sig.

Bára var mun þroskaðri og fullorðinslegri en ég á þessum árum og alltaf snögg að átta sig á hlutunum. Hún spurði mig hvort ég væri ekki fegin að hafa sloppið við að alast upp hjá svona óreglufólki og ætti heima hjá góðu fólki sem elskaði mig. Ójú, ég var fegin og allt í einu fann ég fyrir sterku og djúpu þakklæti til pabba og mömmu fyrir að „bjarga mér“ frá slæmu lífi. Ég gat alveg séð fyrir mér hvernig allt hefði orðið ef „alvörumóðir“ mín hefði alið mig upp, því mér fannst líklegt að hún væri ekkert ósvipuð konunni sem ég heimsótti og var amma mín. Mig langaði ekki lengur til að kynnast líffræðilegri móður minni og heldur ekki vita hver faðir minn væri. Ég átti elskulega foreldra og þurfti ekki meira.

Þegar ég kom heim, nokkrum klukkutímum seinna en ég hafði ætlað, biðu pabbi og mamma eftir mér. Þau sögðust hafa haft miklar áhyggjur en þau skömmuðu mig ekki fyrir að koma svona seint.

Ég sagði þeim stuttaralega að ég kærði mig ekki lengur um að finna móður mína, það nægði mér að hafa hitt konuna sem ætti að heita amma mín, og ég vildi ekki þekkja hana. Þeim brá en ég sá að þeim létti líka þó að þau reyndu að leyna því.

Þótt ég segði þeim fátt á þessum tíma fengu þau alla sólarsöguna með tímanum. Ég hafði lært að meta þau og tilveruna sem þau gáfu mér, eflaust mun fyrr en flestir unglingar. Ég get ekki lýst því hve þakklát ég er þeim fyrir að bjarga þeim frá því lífi sem ég ímynda mér að hefði beðið mín ef ég hefði ekki verið ættleidd. Alla tíð síðan þetta var hef ég reynt að sýna þeim það með ýmsum hætti.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -