Fimmtudagur 2. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Herðakistill og hálsrígur geta orðið fylgifiskar skjáskrums ef maður passar sig ekki

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hvar sem maður kemur virðast símar vera á lofti. Alls staðar er einhver að skruna niður eftir skjánum og skoða nýjustu fréttir, slúður og myndir. En læknar segja þetta endalausa skrun vera að valda okkur líkamlegum skaða.

Líklega er það frekar augljóst að það að framkvæma sömu einhæfu hreyfinguna liðlangan daginn, þar sem maður rennir fingri eftir skjánum á símanum, geti leitt af sér kvilla á borð við vöðvabólgu og verkja. Vöðvabólga hefur til dæmis verið leiðinlegur fylgikvilli þess að nota tölvumús mikið svo manni finnst ekki svo ótrúlegt að símaskrunið geti leitt af sér sömu óþægindi.

Mikið álag á hálsinn að hanga álútur yfir símanum

Breski læknirinn dr. Christian Jessen segir í pistli í The Closer að slík óþægindi geta verið tilkomin af einhæfri, endurtekinni hreyfingu en einnig af stöðunni sem maður er í á meðan maður framkvæmir hana. Þegar tölvumúsin er notuð heldur maður hendinni iðulega langt frá líkamanum og dr. Jessen segist í starfi sínu sjá mörg tilfelli sinabólgu. Að renna þumlinum eftir símaskjánum geti einnig valdið bólgum en það sem hann taki einna mest eftir séu slæm líkamsstaða, þökk sé snjallsímum, tölvum og spjaldtölvum sem allir hangi álútir yfir daginn út og daginn inn.

Jessen segir að það sé orðin sjálfgefin stelling að vera niðurlútur. Það setji mikið aukaálag og mikinn þunga á hálsinn. Meðalhöfuð vegi um fjögur og hálft kíló og þegar maður halli höfðinu fram um 60 gráður til að horfa á skjáninn aukist álagið á hálsinn og verði tæplega þrjátíu kíló, sem sé heilmikið.

Hann segir að áður fyrr hafi það aðallega verið eldra fólk sem fékk sveigju á efri hluta hryggsins en nú sé æ algengara að hann sjái unglinga með slík vandamál.

- Auglýsing -

Líkamsstaðan skiptir miklu máli

En hvað er til ráða? Dr. Jessen mælir með því að halda skjánum í augnhæð, eins og verið sé að lesa bók. Hann segir að hægt sé að athuga hvort maður sé of álútur með því að nota málband, eða eitthvað beint, til að athuga hvort eyrað sé í flúkti við öxlina. Ef maður er mjög hávaxinn þurfi frekar að huga að því hvort maður sé farinn að skjóta bakinu í kryppu og þá þurfi að passa sig sérstaklega vel.

dr. Christian Jessen segir heila kynslóð geta endað með herðakistil ef ekki er varlega farið við snjallsímaskjáinn.

Nauðsynlegt sé fyrir alla að huga vel að líkamsstöðunni og taka sér hlé frá skjánum ef maður finnur fyrir verkjum, rétt eins og maður myndi gera ef um annars konar meiðsli væri að ræða. Þá mælir dr. Jessen með því að fólk haldi heilanum við, þótt það taki hvíld, og segist hvetja sína sjúklinga til að gera hlutina á annan hátt en þeir eru vanir. Til dæmis sé gott að nota hina höndina þegar maður burstar í sér tennurnar, þá hægri ef maður er örvhentur og svo framvegis. Þá sé gott að hafa tölvumúsina öfugu megin við það sem maður er vanur, reyna að nota hinn þumalinn við að skruna niður skjáinn og halda símanum hærra, eða í augnhæð.

- Auglýsing -

Mikilvægt er að teygja vel, að sögn læknisins, á handleggjum, fingrum og baki og rúlla upp öxlum því vöðvarnir stífna og það valdi sársauka.

Leyfum dr. Jessen að eiga lokaorðið:
„Það leikur enginn vafi á því að við notum símana okkar allt of mikið. Við þurfum að áttta okkur á því að við erum ekki að missa af neinu þótt við skiljum þá við okkur um stund og að þegar við notum þá ættum við að hafa hugann við það sem við erum að gera. Annars gæti heil kynslóð ungs fólks endað með herðakistil.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -