Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

Hress og harðdugleg …

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni

Ég stjórna fyrirtæki sem er starfrækt yfir vetrartímann. Eitt haustið, annað árið mitt sem yfirmaður, réði ég hressa og harðduglega konu sem öllum líkaði vel við. Hún reyndist þó ekki öll þar sem hún var séð og kenndi mér dýrmæta lexíu.

Þó að ég hafi verið upp með mér og yfir mig ánægð þegar mér var treyst til að stjórna þessu litla fyrirtæki og hátt í tuttugu starfsmönnum þess, fann ég fljótt að þetta var ekki jafnauðvelt starf og ég hélt í fyrstu. Ég vildi vera vinur starfsmannanna frekar en leiðinlegur yfirmaður og að þau hefðu líka sitt að segja um mál fyrirtækisins.

Sjálf hafði ég unnið undir hálfgerðri ógnarstjórn þar sem yfirmaðurinn kúgaði alla. Ef einhverjum varð á, jafnvel smávægilega, varð hann öskureiður og gargaði á viðkomandi fyrir framan hina. Ég ætlaði ekki að verða þannig. Ég breytti vinnutímanum fljótlega eftir að ég byrjaði þannig að þeir sem vildu mæta fyrr gátu á móti hætt fyrr á daginn og þeir sem seinna mættu hættu síðar. Ég var liðleg við fólk sem þurfti að skreppa frá og stundum hvatti ég það til að mæta ekkert aftur þann daginn, það ynni bara hraðar næsta dag.

Þetta voru mistök. Sumir, aðallega þeir yngri, fóru að misnota sér frelsið, sýndu mér kurteisi og voru indæl en gerðu bara það sem þeim sýndist. Mættu kannski seint án þess að hafa fyrir því að vinna það af sér og fengu að skreppa en komu svo ekkert aftur án þess að ræða það við mig.

Ég vissi ekki hvernig ég ætti að bregðast við, ekki vildi ég vera leiðinleg og fannst góður mórall á vinnustaðnum of mikilvægur fyrir nöldur. Í þeirra sporum hefði ég elskað svona vinnustað og alveg örugglega ekki misnotað mér traustið.

- Auglýsing -

Þarna var ég í kringum fertugt og fólkið sem var nær mér í aldri og eldra virtist kunna að meta stjórnunarstíl minn, það sinnti verkefnum sínum af alúð og sýndi mér fulla virðingu á allan hátt.

Mögulega var þessi framkoma þeirra yngri óafvitandi, ég veit það ekki, en ég kunni ekki listina að fara milliveginn.

Ég fór stundum út á lífið með samstarfsfólkinu og bauð því af og til í mat heim til mín. Fyrsti veturinn minn í þessu starfi gekk áfallalaust þótt ég væri oft þreytt en ég lærði ekki mína lexíu fyrr en annan veturinn, þegar Guðbjörg kom til starfa.

- Auglýsing -

Heimboð í höllina

Hún var afskaplega hress og skemmtileg, virkaði líka rösk og dugleg sem var góður kostur því það komu álagstímar þar sem allir þurftu að leggja mikið af mörkum. Guðbjörg var svo dugleg að ég ákvað að setja hana yfir ákveðið verkefni og hún leysti það ágætlega af hendi. Hún fékk lyklavöld og hærri laun og þegar losnaði starf við að þrífa fyrirtækið þrisvar í viku sóttist hún eftir því og fékk. Hún þurfti á peningum að halda eins og allt ungt fólk sem er að koma sér þaki yfir höfuðið en þau hjónin höfðu það samt ágætt miðað við marga aðra í sömu sporum.

Þótt mikið væri að gera ríkti líf og fjör hjá okkur, sérstaklega í matar- og kaffitímum og mikið var hlegið þegar Guðbjörg sagði sögur af fólki og viðburðum úr lífi sínu og annarra. Af og til greindi ég þó svolítið illgjarnan tón í sögum hennar. Einnig áttaði ég mig á því með tímanum að hún var gat verið ansi frek og svarað harkalega fyrir sig, eins og hún óttaðist að yfir hana yrði gengið ef hún gerði það ekki. Sögur hennar fjölluðu líka oftar en ekki um það að hún léti sko engan vaða yfir sig.

Henni var tíðrætt um heimili sitt og hversu stórkostlega fallegt það væri. Þegar hún keypti sér nýjan tungusófa í stofuna sagði hún að nú væri ástæða til að fagna og bauð okkur öllum í heimsókn eitt laugardagskvöldið, í Pálínuboð þar sem allir komu með eitthvað matarkyns til að setja á borðið. Ég held að við höfum öll verið spennt að sjá „höllina“ hennar Guðbjargar sem var frekar stór fjögurra herbergja íbúð í snyrtilegri blokk í Grafarvogi.

Mér hálfbrá þegar ég gekk inn í íbúðina sem minnti á engan hátt á höllina sem Guðbjörgu var tíðrætt um, ef eitthvað, þá var íbúðin frekar ósnyrtileg og húsgögnin lúin. Gott að hún var svona ánægð með sitt en ég var samt svolítið hissa. Við hrósuðum sófanum í hástert og áttum fínustu kvöldstund með henni, manninum hennar og litlu sonunum tveimur.

Stórtækur þjófur

Skömmu eftir áramót tók ég eftir því að það hafði gengið óvenjuhratt á birgðirnar í eldhúsinu og lítið eftir af tei, kaffi, sykri, kexi og fleira en ég hafði keypt heilmikið inn á milli jóla og nýárs. Ég vildi að starfsfólkið gæti fengið sér eitthvað að borða í kaffitímanum og keypti reglulega ávexti, osta og salöt sem mikil ánægja var með. Kex og sælgæti keypti ég alltaf í miklu magni sem sparaði bæði tíma og peninga. Ég geymdi það í stórum skáp sem fáir gengu um. Nú var nánast helmingurinn horfinn úr skápnum, óvenjulítið til af kaffibaunum og tei og janúar bara rétt rúmlega hálfnaður. Mér fannst meira að segja að minnkað hefði í birgðunum af eldhúsrúllum og salernispappír sem ég hafði keypt á svipuðum tíma. Þetta stakk mig illa, einhver hlaut að hafa látið greipar sópa. Slíkt hafði ekki gerst áður en þessi manneskja, ef hún var þá ein að verki, hafði gerst helst til stórtæk, ég hefði ekki tekið eftir neinu, alla vega ekki strax, ef hún hefði tekið minna magn í einu.

„Nú var nánast helmingurinn horfinn úr skápnum…“

Ég gat ekki rætt þetta við neinn, engan innan fyrirtækisins og ég vildi heldur ekki ræða þetta við vinkonur mínar. Ég er ekkja svo ekki gat ég rætt þetta við makann. Mér fannst mikill ábyrgðarhluti að þjófkenna fólk svo ég gerði það eina sem ég gat í stöðinni, keypti meira inn og ákvað að fylgjast betur með. Næstu vikurnar kíkti ég reglulega í skápinn en sá ekkert grunsamlegt svo ég sofnaði smám saman á verðinum.

Grunsamlegar mannaferðir

Einn fallegan dag snemma í apríl hætti ég snemma til að sinna ýmsum erindum og ákvað að vinna frekar í friði um kvöldið. Ég gerði þetta stundum og fannst gott að hafa vinnustaðinn út af fyrir mig. Ekki var langt að fara svo ég gekk frá heimili mínu í stað þess að fara á bílnum og það var dásamlegt gönguveður.

Þegar ég nálgaðist vinnustaðinn sá ég að bíllinn hennar Guðbjargar stóð við hliðardyrnar með skottið opið og maðurinn hennar var að bera þangað nokkuð stóran kassa. Hún kom út og þegar þau urðu vör við mig veifuðu þau. Mér fannst þau samt eitthvað skrítin, nánast flóttaleg. Ég sé enn eftir því að hafa ekki athugað hvað þau voru að gera en líklega vildi ég ekki „lenda í“ Guðbjörgu sem var þarna byrjuð að sýna á sér aðrar og leiðinlegri hliðar.

Nokkrum dögum seinna datt mér í hug að skoða lagerskápinn almennilega og uppgötvaði að búið var að fjarlægja heilmikið aftast úr hillunum, það sást ekki nema skoða vel og beygja sig niður. Á þessari stundu vissi ég að Guðbjörg væri þjófurinn. Mér leið mjög illa yfir þessu og vissi ekki hvernig ég ætti að bregðast við. Ég var líka brjáluð út í sjálfa mig fyrir gunguskapinn, að hafa ekki athugað hvað gekk á þarna um kvöldið.

Erfitt en lærdómsríkt

Þar sem ég hafði engar sannanir fyrir þessu, vildi ég alls ekki þjófkenna Guðbjörgu. Ég fór að hafa lagerskápinn læstan og enginn gerði athugasemd við það enda var það nánast bara ég sem gekk um hann. Svo fyllti ég reglulega á eldhússkápana, sparlega þó, en auðveldara var að fylgjast með birgðunum þar. Kaffið læsti ég líka inni og aðeins ein manneskja, fyrir utan mig, var með lykil að skápnum og það var sannarlega ekki Guðbjörg. Ég fann strax að vörurnar entust lengur sem sagði mér að ég hafði þurft að kaupa allt of mikið allan veturinn – það var ekki möguleiki að klára þetta fyrir sumarfrí.

Guðbjörg varð sífellt leiðinlegri í framkomu. Stundum sendi hún mér og öðrum ljótt augnaráð sem ég skildi ekkert í, það hafði ekkert sérstakt gerst sem útskýrði það, nema þá hennar eigin þjófnaður. Ég hafði ákveðið að gera ekkert í hennar málum, bara þrauka fram að fríinu, og svo yrði ég laus við hana. Hún var aðeins ráðin þennan vetur svo ég þurfti ekki að segja henni upp, bara að sleppa því að endurráða hana.

Nokkrir starfsmenn tóku mig á eintal og sögðu mér að Guðbjörg hefði allt á hornum sér varðandi fyrirtækið og talaði mjög illa um mig og fleiri innan fyrirtækisins. Mér þótti afar leitt að heyra það en ákvað samt að það væri ekki þess virði að eyða orku í að reyna að ræða málin, henni hefði verið trúandi til að ganga út sem hefði komið sér illa þegar svona stutt var eftir af starfseminni. Ég var farin að hallast að því að hún vildi hætta með látum en ég vildi ekki gera henni það til geðs að láta hana komast upp með það. Hún hafði talað mjög illa um fyrri vinnuveitendur sem allir voru algjör fífl … Þarna hefðu viðvörunarbjöllur átt að hringja en ég skemmti mér líklega of vel yfir fyndnu sögunum hennar.

„Hún hafði talað mjög illa um fyrri vinnuveitendur sem allir voru algjör fífl …“

Rétt fyrir sumarfríið okkar langa tilkynnti ég henni að ég þyrfti ekki á henni að halda næsta vetur, það væri fullmannað og rúmlega það.

„Eins og ég hefði ætlað að sækja um, það er svo margt að hérna,“ sagði hún hvefsin. „Hvað áttu við?“ spurði ég. Hún sagði að í fyrsta lagi hefði hún ekki efni á því að vinna bara yfir vetrartímann og svo fyndist henni mórallinn orðinn svo súr. Ég sagðist vera hissa á því, aðrir virtust sáttir.

Ekki löngu seinna fékk ég skýringu á þessu. Ein samstarfskonan hafði misst þolinmæðina við Guðbjörgu, þegar hún jós úr skálum reiði sinnar yfir því hve allt væri ómögulegt á þessum skelfilega vinnustað og sagði við hana: „Þegar fíflunum fjölgar í kringum mann ætti maður kannski að líta í eigin barm.“ Þetta fór greinilega illa í Guðbjörgu.

Við skiptum öllum vörunum á milli okkar starfsmannanna, þeim sem hefðu runnið út um sumarið, eins og kaffi og G-mjólk. Þegar ég bar saman reikninga þessa vetrar við fyrra ár og síðan næsta ár, sá ég að birgðirnar sem ég hafði keypt dugðu ekki bara fyrir okkur öll í vinnunni, heldur einnig fyrir fjögurra manna heimili í Grafarvogi.

Þessi vetur var lærdómsríkur því ég lærði hvernig á að vera yfirmaður. Eða, öllu heldur, hvernig á ekki að vera yfirmaður. Ótti minn við að styggja undirmenn mína hvarf og ég varð mun öruggari með mig. Ég útdeili verkefnum réttlátlega í stað þess að taka of mikið á mig eins og áður með tilheyrandi þreytu og stressi. Eftir að ég fór að standa með sjálfri mér upplifi ég meiri vellíðan í starfi. Ég get verið indæl og sveigjanleg við fólkið án þess að það misskilji það því það veit að ég stjórna þessum vinnustað.

Greinilega þurfti ég þessa lexíu frá Guðbjörgu til að ég áttaði mig og þess vegna er ég og verð henni ævinlega þakklát.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -