Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Hryllilega vont en þess virði

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni:

Margir hafa heyrt alls kyns hryllingssögur af fegrunaraðgerðum sem hafa mistekist og í mörgum tilfellum eru þær sjálfsagt sannar. Hins vegar heppnast meirihluti slíkra aðgerða vel og sjúklingarnir eru ánægðir með árangurinn. Ég er ein af þeim.

Ég fór í fitusog fyrir um fimm árum og sé ekki eftir því þótt ég hafi kvalist mikið dagana eftir aðgerðina. Ég var mjög grönn sem barn og unglingur og hefði vel sómt mér sem fyrirsæta á einhverri forsíðu glanstímaritanna. Tuttugu og eins árs varð ég ófrísk og þyngdist mikið á meðgöngunni. Ég var afar óánægð með þyngdaraukninguna þar sem ég hafði aldrei verið í vandræðum með aukakílóin áður og vissi ekki hvernig ég átti að ná þeim af mér. Ljósmóðirin varaði mig við að reyna að megra mig en sagði mér að huga vel að mataræðinu. Ég reyndi það en var stöðugt svöng og sótti gríðarlega í feitan mat og sætindi. Stundum varð löngunin mér ofviða og ég tók bókstaflega átköst. Raðaði í mig frönskum kartöflum, súkkulaði, ís og öðru góðgæti.

Ég vonaðist til að þegar barnið fæddist myndi eitthvað töluvert renna af mér. Vinkona mín hafði fitnað mikið á meðgöngu en kílóin fuku af henni um leið og barnið kom í heiminn. Mikið af þyngdinni hafði verið bjúgur og hún var fljót að komast í gott form, enda íþróttakona og dugleg að hreyfa sig. Síðustu sex vikurnar stóð ég í stað. Í hvert sinn sem ég fór í skoðun og sá að talan á vigtinni var óbreytt fagnaði ég. En svo fæddist barnið. Þar fóru fjögur kíló og búið. Allt hitt sat fast. Tuttugu og sex kíló sem hreyfðust ekki neitt.

Brjóstagjöfin var ekki grennandi 

Ég beið og vonaði að ég myndi ná mínu fyrra formi meðan barnið var á brjósti. Mamma hafði sagt mér að þegar hún átti mig, grenntist hún gríðarlega meðan á brjóstagjöf stóð og hún hafði alltaf sagt að ég hefði bókstaflega étið sig upp. Fyrstu þrjá mánuðina gerðist ekkert. Ég fór út með stelpuna mína í vagni og gekk og gekk um hverfið í klukkutíma á hverjum degi. Svo varð hún sex mánaða og ég ákvað að hafa hana lengur á brjósti. Hugsanlega myndi það einhverju breyta og ég byrja að grennast eins og þessar heppnu konur sem tálguðust niður meðan börnin þeirra drukku. Ekkert gerðist.

- Auglýsing -

Stelpan mín vandi sig sjálf af brjóstinu þegar hún var tíu mánaða. Þá tók hún snuð og það var eins og hún þyrfti ekki á mér að halda eftir það. Ég held reyndar að ég hafi ekki mjólkað mikið þegar þetta var, vegna þess að ég fann aldrei fyrir neinu þegar mjólkurframleiðslan var að hætta. Líklega hefur mjólkin þurrkast upp af sjálfu sér og stelpunni ekki fundist nein ástæða til að sjúga þegar hún fékk ekki neitt. Þá fór ég í stífan duftmegrunarkúr. Keypti mér Herbalife og skipti út næringardrykkjum fyrir tvær máltíðir á dag. Ég léttist um sex kíló og síðan ekki söguna meir.

Við tóku viðtöl hjá næringarfræðingi og skynsamleg megrun með réttu mataræði og hreyfingu undir leiðsögn sérfræðinga en kílóin fóru hægt. Á átta mánuðum fóru átta kíló. Ég reyndi að klæða þessi tólf kíló af mér en það gekk ekki alltaf vel. Ég var svo sem ekkert voðalega feit en ég var með stóran maga og þykk læri sem mér tókst ekki að losa mig við. Um það bil tveimur og hálfu ári eftir að ég eignaðist dóttur mína hitti ég gamla vinkonu mína sem var nýflutt til landsins eftir nám í útlöndum. Ég gleymi aldrei því sem hún sagði við mig þegar hún sá mig: ,,Nei, en hvað þú ert myndarleg, bara komin í aðra umferð!“ sagði hún og hélt að ég væri orðin ófrísk aftur. Ég þarf varla að orðlengja það að þessir endurfundir okkar urðu ákaflega vandræðalegir þegar ég sagði aumingja konunni að ég væri alls ekki ófrísk. Það mátti ekki á milli sjá hvor okkar var aumingjalegri.

„Það má eiginlega segja að þessi fundur hafi verið kornið sem fyllti mælinn. Ég var miður mín á leiðinni heim og henti mér hágrátandi upp í rúm strax og ég kom inn. Maðurinn minn reyndi að róa mig því honum fannst þessi hugmynd mín um að fara í fitusog algjör vitleysa og peningaeyðsla.“

Gríðarlegar kvalir

- Auglýsing -

Það má eiginlega segja að þessi fundur hafi verið kornið sem fyllti mælinn. Ég var miður mín á leiðinni heim og henti mér hágrátandi upp í rúm strax og ég kom inn. Maðurinn minn reyndi að róa mig því honum fannst þessi hugmynd mín um að fara í fitusog algjör vitleysa og peningaeyðsla. Ég var hins vegar ákveðin í að gera þetta því þessi aukaþyngd var farin að hafa veruleg áhrif á sálarlíf mitt, miklu meiri en nokkurn gat órað fyrir.

Ég pantaði því tíma hjá lýtalækni og fór í viðtal til hans. Hann tók mér opnum örmum og mér fannst gott að finna að ég þurfti ekki að afsaka þessa ákvörðun mína fyrir honum. Þetta var ekki bara hégómi og tildur í mér heldur réttmæt ákvörðun sem bæri að virða. Ég var því enn ákveðnari í því að láta verða af aðgerðinni og við komum okkur saman um að taka af maganum á mér og örlítið af innanverðum lærunum. Ég var að flestu leyti afar ánægð með þá þjónustu sem ég fékk hjá lýtalækninum, allt frá fyrsta viðtali þar til aðgerðinni var lokið, nema að því leyti að mér fannst hann ekki vara mig nægilega vel við þeim ofboðslegu kvölum sem ég upplifði þegar ég vaknaði eftir svæfinguna.

Ég var mjög marin og bólgin þegar ég vaknaði eins og ég hafði búist við en kvalirnar voru líka alveg ótrúlega miklar. Til samanburðar get ég sagt að mér fannst fæðing dóttur minnar tæpum þremur árum áður, sem þó var nokkuð strembin, afar léttvæg í samanburði við þessa reynslu.

Ég gat þó farið heim af sjúkrahúsinu sama dag, uppdópuð af verkjalyfjum. Ég var afar veik fyrstu dagana og mjög viðkvæm andlega því ég óttaðist að aðgerðin hefði öll verið til einskis því ég sá engan mun á mér. Ég mátti bara ekki til þess hugsa að hafa eytt öllum þessum peningum og gengið í gegnum þessar raunir ef árangurinn yrði enginn. Ég gerði mér kannski bara ekki grein fyrir því þarna fyrst að ég var enn þá bólgin og með bjúg og því ekki raunhæft að ætla að árangurinn sæist.

„Ég var mjög marin og bólgin þegar ég vaknaði eins og ég hafði búist við en kvalirnar voru líka alveg ótrúlega miklar. Til samanburðar get ég sagt að mér fannst fæðing dóttur minnar tæpum þremur árum áður, sem þó var nokkuð strembin, afar léttvæg í samanburði við þessa reynslu.“

Árangur kemur í ljós

Sem betur fer breyttist það smátt og smátt og um tveimur mánuðum síðar var ég laus við bjúginn og afar ánægð með árangurinn. Ég held nú að maðurinn minn hafi innst inni verið ánægður líka þótt hann elskaði mig og væri alveg sama hvernig ég var í laginu. En ég gerði þetta heldur ekki fyrir hann heldur fyrir sjálfa mig og engan annan. Nú eru liðin tæp fimm ár síðan ég fór í aðgerðina. Ég hef  haldið sama formi og reyndar hef ég örlítið grennst en það hefur kostað aðhald. Það er nefnilega misskilningur að fitusog leysi öll vandamál. Maður getur ekki bara lagst í sukk og svínarí á eftir og ætlast til þess að halda línunum. Þess vegna hef ég stundað leikfimi reglulega, sem ég hafði nú reyndar gert í langan tíma áður en ég fór í aðgerðina. Ég er þó ekki frá því að mér hafi reynst auðveldara að byrja í leikfiminni eftir aðgerðina heldur en fyrir hana því sálartetrið var í betra formi og því átti ég auðveldara með að drífa mig út í líkamsræktarstöð.

Mér finnst leiðinlegt hvað sumt fólk hefur mikla fordóma gagnvart svona aðgerðum. Ég hef aldrei leynt því að ég hafi kosið að fara þessa leið og þegar ég tala um það hnussa sumir og hneykslast á hversu hégómleg ég sé. Mér hefur líka verið sagt að þetta sé leti og ég hafi ákveðið að fara auðveldu leiðina, ekki nennt að hreyfa mig nóg og ná þessu af mér sjálf. Það er líka til fólk sem hefur sagt við mig hreint út að peningunum hefði verið betur varið í eitthvað annað, að ég hefði átt að gefa þá til góðgerðarmála og svo framvegis. En mér finnst samt að ef fólk er það óánægt með útlit sitt að það hefur veruleg áhrif á andlega líðan þess eigi það að gera eitthvað í því. Í mínu tilfelli var fitusogið lausnin og ég sé ekki eftir því þrátt fyrir að kvalirnar eftir aðgerðina hafi verið miklar. Sársaukinn var þess virði og ég veit að það undir mér komið að halda þessu við og koma í veg fyrir að kílóin safnist á mig aftur.

Lífsreynslusaga úr Vikunni. Í hverri viku birtast spennandi lífsreynslusögur. Tryggðu þér eintak í næstu verslun eða í áskrift.

Fylgstu með Lífsreynslusögur Vikunnar á Facebook. Lífsreynslusögur er hlaðvarp þar sem blaðakonan Guðrún Óla Jónsdóttir les áhugaverðar lífsreynslusögur úr Vikunni. Í hverjum þætti eru fimm sögur lesnar. Þættirnir koma inn á Spotify og Storytel.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -