Laugardagur 26. október, 2024
4.5 C
Reykjavik

Hvað er að stoppa þig? Hentu þér í djúpu laugina þú lifir bara einu sinni!

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir Katrínu Laufeyju Rúnarsdóttir

Mig hefur lengi langað að koma niður á blað og miðla áfram til allra sem eru að hugsa um að láta vaða en kannski bara láta sér nægja að hugsa það bara… HVAÐ EF…  ég myndi bara láta vaða. Málið er að þú veist aldrei nema þú bara láta vaða og kanna málið… hvað gæti gerst í versta falli, hvað er það versta sem gæti gerst?  Jú þér mistekst.. en er það svona hræðilegt? Svarið er nei. Það er nefnilega bara gargandi snilld að mistakast öðru hvoru.

Af hverju lærir maður mest? Svar: MISTÖKUM

Þegar maður var klikkaður unglingur þurfti maður að lenda í því að eyða öllum peningunum sínum til að læra að meta þá. Maður þurfti að verða bensínlaus til að læra af því og hugsa: í þessu ætla ég ekki að lenda aftur. Ég gæti haldið endalaust áfram, þú skilur hvað ég er að meina er það ekki? Hvernig er þetta öðruvísi með að láta vaða í það sem þig langar að gera með lífið? Það er ekkert öðruvísi. Jú kannski er það fjárhagsleg áhætta og það er allt í lagi að vera skynsamur ekkert að því. En ef maður stekkur aldrei í djúpu laugina og kannar aldrei málið þá veistu bara aldrei hvað EF.

Gekk með drauminn í maganum í níu ár

Ég gekk lengi með í maganum að mig langaði að stofna mitt eigið fyrirtæki. Ég gekk með það í maganum í ein níu ár. Ég var ein heima að vinna sem verktaki, ég tók að mér auglýsingasölu í hin ýmsu blöð. Ég elskaði það að vinna við þetta.. en þetta var aldrei alveg nóg og líka frekar leiðigjarnt að vinna ein heima. Að vera heimavinnandi var ég einhvern veginn ekki í vinnunni. Pásan fór í að taka úr þvottavélinni eða þrífa húsið, athyglin var ekki 100% í vinnunni.

- Auglýsing -

Það hlýtur að vera eitthvað meira þarna úti

Ég gafst upp og réði mig aftur í fasta vinnu, en fann samt að þetta var ekki það sem ég vildi gera. Sú hugsun kom í kollinn á mér að það hlyti að vera eitthvað meira sem mér væri ætlað að gera en þetta. Ég sagði upp starfi mínu sem var ritari í grunnskóla, sem var frábær reynsla og mjög gefandi starf. Ég lærði alveg heilan helling af því starfi en fannst það ekki það sem ég vildi gera það sem eftir væri.

Settist á skólabekk með dætrunum

- Auglýsing -

Ég var þá 39 ára gömul og ekki búin með stúdentinn svo ég ákvað að henda mér bara í framhaldskólann hér í Vestmannaeyjum með dætrum mínum. Tek fram að það var með þeirra leyfi. Og skilyrðin voru að ég myndi ekki tala mikið í tímum sem ég var með þeim í. Einu tímarnir sem ég fékk ekki tíu í tjáningu í voru tímarnir sem ég var með þeim í. En já sem sé, ég kastaði út í heiminn ósk um að fá fleiri skemmtileg verkefni til mín og að fjárhagurinn myndi reddast með þessari hugdettu minni að segja upp fasta starfinu mínu. Því ég var og er fjögurra barna móðir.

Stærðfræðin eins og kínverska

Ég byrjaði um haustið í skólanum með öllum 16-18 ára krökkunum og tveimur elstu dætrum mínum. Vá hvað þetta var gaman og ég hefði aldrei trúað því að ég gæti fengið níu í stærðfræði þar sem stærðfræðin var eins og kínverska í fyrsta tímanum, og ég panikaði en kennarinn benti mér þá góðlega á að ef ég væri í fyrsta tíma í kínversku þá myndi ég nú ekki kunna mikið svo þetta væri allt ósköp eðlilegt. Mér létti við þessa ábendingu og mætti í alla tíma, gerði eins og kennarinn sagði og búmm þetta var bara leikur einn. Og vá hvað mig langaði að hrista þessa krakkaorma sem voru ekki að nenna þessum skóla. Og segja þeim að njóta þess að vera BARA að læra og þurfa ekki að hafa neinar einustu áhyggjur af öðru en því. En ég lét það nú vera því ég lofaði jú dætrum mínum að tala ekki mikið sem ég og stóð við.

Svarið kom við beiðni minni sem ég kastaði út í heiminn

En svo kom svarið við beiðni minni sem ég kastaði út í heiminn. Þarna á þessum tíma var ég enn með eitt söluverkefni sem var samt ekki nægilega mikið eitt og sér. En sem sé, ég fékk símhringingu þar sem bent var á mig sem auglýsinga-sölukonu og mér boðið klikkað flott verkefni sem ég tók að sjálfsögðu. Þarna bættust við tvö blöð í hóp þeirra fjögurra sem ég var nú þegar með. Ég náði að klára þessa önn með stæl og var mjög stolt af sjálfri mér að stíga þetta skref að hefja nám aftur. En þar sem verkefnin og draumur minn var að stækka mína eigin vinnu var hafin ákvað ég að pása námið og einbeita mér að því að skila vel af mér þeim verkefnum sem komin voru.

Ég var ákveðin í að mér skildi takast þetta

En ég vissi bara ekkert hvernig ég myndi fara að því og ákvað að treysta alheiminum í að koma því til mín. Ég vissi af annarri ungri konu sem var í sömu pælingum og ég. Hana langaði til að stofna sitt eigið fyrirtæki og taka á leigu húsnæði fyrir skrifstofu. Við höfðum rætt um það nokkrum árum áður, sem sé ég og þessi unga dama sem ég þekkti smá í gegnum sameiginlega vini. En svo höfðum við ekkert rætt það aftur.

Sendum skilaboð á sömu mínútu til hvor annarrar

Þannig að það er með ólíkindum að á sömu mínútunum rekumst við á auglýsingu um húsnæði sem var til leigu… hún var á gangi framhjá glugga þar sem stóð á miða: Til leigu. Og ég á sömu mínútu að sjá sömu auglýsingu á Facebook þar sem eigandinn var að deila henni. Ég fékk þá flugu í höfuðið að senda henni skilaboð hvort hún hefði séð þessa auglýsingu og hvort við ættum að skoða þetta.. hún var þá á sömu stundu að skrifa mér skilaboð um það sama.

Já heimurinn virkar stundum stór furðulega og skemmtilega

Við tókum sem sé þetta húsnæði á leigu. Vissum ekkert hvernig við færum að þessu, vissum ekki alveg hvort þetta myndi ganga upp en létum vaða og vorum ákveðnar í því að finna okkur fleiri verkefni. Ég seljandi auglýsingar og hún hönnuður, býr til auglýsingar, og setur upp blöð.. þetta gat bara ekki klikkað. Það er bara þannig þegar maður hefur 100% trú á því að hlutirnir gangi upp þá bara ganga þeir upp.  Hik er sama og tap. Og það hjálpar líka að vera ekki hrædd við að mistakast.

Lumaði á snilldarhugmynd

Þegar við vorum búnar að koma okkur fyrir á skrifstofunni þá lumaði Lind (unga daman) á hugmynd sem hún var ekki alveg búin að klára að móta en var búin að ganga með í dálítinn tíma. Hún bar þessa hugmynd undir mig. Hún var varla búin að klára setninguna þegar ég hoppaði upp í loft: JÁ Lind þetta er gargandi snilld.

Hugmyndin var að stofna bæjarfjölmiðil

Við fórum í að stofna bæjarfjölmiðil fyrir Vestmannaeyjar. Okkur fannst vanta alls konar upplýsingar og hvað væri um að vera á Eyjunni. Við stofnuðum Tígul sem átti bara í fyrstu að vera upplýsinga- og viðburðablað sem kæmi út einu sinni í viku ásamt því að vera með vefsíðu með sömu upplýsingum og í blaðinu. Svo bættist við eitt og eitt viðtal eða spjall…. svo til að gera langa sögu stutta þá erum við komnar á fullt blaðamennskuna með öllu hinu.

Ég hefði aldrei trúað því ef mér hefði verið sagt að ég ætti eftir að verða blaðamaður fyrir 10 árum. Ég er nú enn að átta mig á því hvernig í ansk… ég komst hingað. Ég sem er ekki einu sinni stúdent, er seinlæs og er lesblind og hef ekki hundsvit á bæjarmálum eða pólitík.

Elska lífið

Í dag elska ég í ræmur að sitja á bæjarstjórnarfundum og hlusta á flokkana rífast sín á milli. Elska að spjalla við skemmtilegt fólk og fræðast til að getað miðlað áfram frábæru efni.

Elska að vera á öllum viðburðum og taka þátt í öllu stórskemmtilega bæjarlífinu hérna í Eyjum.

Elska að selja auglýsingar, sem er mitt innlegg til að rekstur fyrirtækisins okkar gangi upp.

Í dag á ég og rek mitt fyrirtæki sem heitir Leturstofan ásamt Lind. Stundum þarf ég að klípa mig og kanna hvort mig sé nokkuð að dreyma.

Tók lífið í gegn og hristi af mér fólkið sem dró mig niður

Í öllu þessu ferli tók ég líf mitt í gegn, hristi af mér það fólk sem saug úr mér orkuna. Ég leitaði til þeirra sem gáfu mér orku og góð ráð, ég fann mína leið því þú getur ekki farið leið annarra, bara þína leið. Enda er manns eigin leið allra besta leiðin hvort sem það er í hreyfingu, mataræðinu eða vinnulega séð.

Fann draumaprinsinn

Þar sem það virkaði svo vel að kasta út í heiminn beiðnum og óskum gerði ég það aftur í byrjun síðasta árs og hálfu ári seinna var mér svarað þegar ég kynntist manni sem er maður drauma minna. Og í dag er ég hamingjusamasta kona í heimi, ég á fjögur heilbrigð börn, þrjú aukabörn og tvö auka auka börn, alls níu börn það er eitthvað. Og ég vinn í draumastarfinu mínu fyrir sjálfa mig í fyrirtæki sem ég bjó til sjálf. Vel gert ég sjálf og ef ég get þetta þá getur þú þetta, ég lofa.

Kveðja til þín frá mér Kata Laufey 44 ára ung kona.

Greinarhöfundur er eigandi Leturstofunnar sf. og FKA-kona.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -