Rope-jóga gengur út á að bæta líkamlega og andlega heilsu, er heildrænt hug- og heilsuræktarkerfi.
Það styrkir alla vöðva líkamans en mesta áherslan er á kvið og aftanáliggjandi lærvöðva, sem eru þeir vöðvar í líkamanum sem eru hvað óvirkastir. Ástæðan fyrir því er að auka jafnvægi í líkamanum og koma í veg fyrir álag og verki í baki, herðum og hnjám.
Æfingarnar eru gerðar í böndum á bekk þar sem legið er á baki og hliðum. Þetta eru öflugar kviðæfingar, læra- og rassæfingar þar sem vöðvarnir fá að njóta sín til fulls og mikil einangrun á þann vöðva sem unnið er með hverju sinni. Á sama tíma er verið að upplifa frið, kyrrð og ró. Einnig eru gerðar teygjur í böndunum þar sem auðvelt er að slaka á með aðstoð bandanna.
Eins og fram kemur í bók Guðna Gunnarssonar, Máttur viljans, gengur rope-jóga út á að vera tilbúin til að vakna til vitundar, taka ábyrgð, fyrirgefa sér og auka þar með heimild okkar til velsældar með því að standa við gefin loforð.