Föstudagur 15. nóvember, 2024
1.7 C
Reykjavik

Hvað er sjúkleg fyrirtíðaspenna? – Lærðu að þekkja einkennin

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Upplifir þú reiði, depurð, pirring eða spennu dagana áður en þú byrjar á blæðingum? Finnur þú jafnvel fyrir vonleysi og þunglyndi? Upplifir þú óstöðugt sálrænt ástand, viðkvæmni í brjóstum, höfuðverk, truflun á meltingu og jafnvel einkenni frá hjarta? Eru verkir frá móðurlífi miklir?

Þá gætir þú hugsanlega glímt við sjúklega fyrirtíðaspennu, eða PMDD (Premenstrual Dysphoric Disorder).

Margar konur glíma við fyrirtíðaspennu, en sjúkleg fyrirtíðaspenna er flokkuð sér í DSM-IV flokkunarkerfinu og sálræn og líkamleg einkenni eru alvarleg, jafnvel hamlandi í daglegu lífi. Skapsveiflurnar sem fylgja sjúklegri fyrirtíðaspennu geta verið ofsafengnar og valdið miklum ama.

Eins og með fyrirtíðaspennu koma einkenni sjúklegrar fyrirtíðaspennu yfirleitt fram sjö til tíu dögum áður en blæðingar hefjast. Einkennin geta svo varað fram yfir fyrstu daga blæðinga. Einkenni geta þó komið fram strax eftir egglos, sem er oft um tveimur vikum fyrir fyrsta dag blæðinga. Þau koma ávallt fram á svokölluðu gulbússtigi, sem er í síðari hluta tíðahringsins.

Skráð tölfræði segir að algengi sjúklegrar fyrirtíðaspennu sé um 3-8 prósent kvenna á barneignaraldri. Það er þó talið að mun fleiri tilvik séu óskráð og margar konur með PMDD ranglega greindar með aðra kvilla og raskanir. Því er tíðnin sennilega nær 13-18 prósentum kvenna á barneignaraldri.

Uppþemba og bólgur, höfuðverkir, viðkvæmni í brjóstum, meltingartruflanir, þreyta og breytingar á svefni og fæðuvenjum geta allt verið einkenni bæði fyrirtíðaspennu (PMS) og sjúklegrar fyrirtíðaspennu (PMDD). Til þess að greinast með sjúklega fyrirtíðaspennu þurfa hinsvegar einhverjir þessara andlegu kvilla að vera til staðar á gulbússkeiði (dagana frá egglosi til blæðinga):

- Auglýsing -

Depurð og vonleysi

Kvíði eða spenna

Ýktar skapsveiflur

Mikill pirringur eða reiði

 

Þess má geta að þunglyndi kvenna með sjúklega fyrirtíðaspennu verður oft svo slæmt að sjálfsvígshugsanir gera vart við sig. Það sem greinir þetta frá hefðbundnu þunglyndi er að einkennin hverfa eftir fyrstu daga blæðinga og gera ekki vart við sig aftur fyrr en í síðari hluta nýs tíðahrings.

Orsök röskunarinnar er enn óljós. Þó virðist undirliggjandi þunglyndi og kvíði vera algengt meðal kvenna sem glíma við sjúklega fyrirtíðaspennu. Það gæti bent til þess að þær hormónabreytingar sem valda blæðingum geri einkenni lyndisraskana verri.

- Auglýsing -

Þó engin lækning sé til við sjúklegri fyrirtíðaspennu er ýmislegt sem hægt er að gera til þess að hugsanlega draga úr einkennum eða koma alveg í veg fyrir þau.

 

Eftirfarandi leiðir hafa gefið góða raun:

Þunglyndislyf, sér í lagi SSRI lyf, hafa reynst vel. Sumar konur taka þau eingöngu á gulbússkeiði, á milli eggloss og tíðablæðinga, á meðan aðrar taka lyfin alla daga mánaðarins. Þessi lyf geta dregið úr sálrænum einkennum, þreytu, hinum ýmsu fæðulöngunum og svefnvandamálum.

Getnaðarvarnarpillur. Inntaka getnaðarvarnarpilla með engu hléi, eða stuttu hléi, hefur gefið góða raun í að draga úr einkennum fyrirtíðaspennu og sjúklegrar fyrirtíðaspennu. Slíkt hentar þó auðvitað einungis konum sem vilja ekki verða óléttar og þola aðrar hugsanlegar aukaverkanir getnaðarvarnarpilla.

Fæðubótarefni. Dagleg inntaka á kalki, B-6 vítamín, magnesíum og L-Tryptófan er allt eitthvað sem dregið getur úr einkennum bæði fyrirtíðaspennu og sjúklegrar fyrirtíðaspennu. Kalk er þar efst á lista. Þó skal ávallt ráðfæra sig við lækni áður en byrjað er að taka inn bætiefni.

Jurtalyf á borð við Munkapipar (Vitex agnus-castus) er talið geta dregið úr tíðatengdum vandamálum. Sérstaklega er jurtin talin geta dregið úr skapsveiflum, pirringi, viðkvæmni í brjóstum, bólgum, verkjum og fæðulöngunum í tengslum við blæðingar.

Breytingar á neysluvenjum. Það getur gefið góða raun að minnka koffínneyslu, hætta að reykja og draga úr eða hætta neyslu á áfengi.

Regluleg hreyfing.

Hollt og fjölbreytt mataræði.

Streitustjórnun – minnkuð streita og meiri slökun, til að mynda í formi hugleiðslu, núvitundar og jóga. Mikilvægt er að forðast óþarfa streitu á heimili og í samböndum.

 

Ef ofangreind einkenni sjúklegrar fyrirtíðaspennu eiga við þig og blæðingar valda þér mikilli vanlíðan er mikilvægt að leita til læknis og fá aðstoð.

 

Heimildir: Mayo Clinic.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -