Mánudagur 23. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Í örvæntingarfullri leit að maka: „Hvar er hann þá, minn eini rétti?“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni: Ég á margar vinkonur og flestar á lausu í leit að maka. Ýmsar hugleiðingar fara oft í gegnum huga minn þegar ég horfi á þær og ég hef heyrt þær orða hugsanir sínar hvað þetta varðar oftar en einu sinni. Spurningin sem brennur á okkur öllum er sennilega sú hvort hinn eini rétti sé til og ef svo er hvar hann leynist. Þurfum við að hafa okkur allar við til að finna hann eða munu örlögin sjá til þess að við hittumst áður en yfir lýkur?

Stundum finnst mér að best sé að vera ein. Það tryggir að við verðum ekki fyrir vonbrigðum. Hugsanlega erum við búnar að búa okkur til einhverja staðlaða hugmynd um það hvernig draumamakinn á að líta út, hvernig hann á að hegða sér og hvað hann þarf að geta. Þegar við svo kynnumst einhverjum sem gæti komið til greina í okkar huga þá þurfum við að kryfja viðkomandi og sambandið til mergjar. Það verður til þess að við tínum til öll smáatriði sem ekki passa og komumst að þeirri niðurstöðu að þegar allt kemur til alls þá hentar þessi einstaklingur okkur alls ekki, enda stenst hann engan veginn væntingar.

Oft erum við svo blindar að við sjáum ekki hvað er beint fyrir framan nefið á okkur. Óskirnar eru orðnar svo óraunhæfar og oft byggðar á hugmyndum úr bandarískum bíómyndum eða bókum sem sannarlega gefa aldrei rétta mynd af raunveruleikanum. Í sumum tilfellum hafa hugmyndirnar um það hvernig sá eini rétti á að vera náð slíkum tökum á okkur að við þorum ekki að leyfa okkur að komast að því hvað býr í annarri manneskju af ótta við að sambandið gangi ekki upp. Stundum erum við búnar að reyna það oft og vera í það mörgum samböndum sem öll hafa endað illa að kvótinn fyrir náin kynni er uppurinn og trúin á okkur sjálfar sem gefandi og ástríkar manneskjur líka.

Skyndikynni og hrátt kynlíf látið duga

Þá förum við að stunda skyndikynni og látum hrátt kynlíf duga. Það veitir hins vegar ekki fullnægju nema skamman tíma. Ég spyr mig oft: Höfum við endalausa orku til að þramma um skemmtistaði borgarinnar í leit að hamingju og hinum eina rétta? Auðvitað detta einhverjar í lukkupottinn og finna hann og það heldur okkur hinum gangandi og glæðir vonir okkar um að við verðum næstar. En í raun er þetta eins og að spila í lottói. Vissulega gefur þinn miði möguleika á vinningi en hverjar eru vinningslíkurnar? Þær eru í raun ansi litlar.

Á skemmtistöðunum eru flestir hífaðir og jafnvel drukknir og það vekur upp spurningar um hversu vel við séum í stakk búnar til að finna okkur maka í því ástandi. Dómgreindin er skert og sá sem virðist hress og skemmtilegur meðan við erum undir áhrifum reynist síðan hinn versti hrokagikkur og montrass þegar við förum að tala við hann allsgáðar. Snýst skemmtanalífið kannski alls ekki um makaleit? Erum við bara að kaupa okkur stundarsælu yfir eina helgi? Og eyðum við síðan vikunni í að skammast okkar fyrir hegðunina eða allt þar til ballið byrjar aftur helgina á eftir?

„Höfum við endalausa orku til að þramma um skemmtistaði borgarinnar í leit að hamingju og hinum eina rétta?“

- Auglýsing -

Þegar skemmtanalífið fer að þynnast út og við komumst að því að þetta er
ekkert gaman lengur, hvernig eigum við þá að finna þann eina rétta? Getum við treyst á að örlögin færi hann upp í hendurnar á okkur eða verðum við sjálfar að passa að við séum sýnilegar og tilbúnar ef hann skyldi nú skjóta upp kollinum? Nei, við erum ekki tilbúnar að leggja allt okkar í hendur örlaganna og þá tekur Netið við. Reyndar eru ekki allir í feluleik þar. Það er voða gott að fela sig á bak við tölvuna, vera bara andlitslaust nafn og daðra af krafti. Kannski ber freistingin einhverja ofurliði og þeir ákveða að hittast. Hvað gerist þá? Stundum fer fólk saman í rúmið og skreiðist síðan heim með sama óbragðið í munninum og eftir helgardjammið. Skömmin er jafnsár og þá og endist álíka lengi.

Í fantasíuleik á Netinu

Á Netinu eru margir í einhverjum fantasíuleik, bæði karlar og konur. Hafa marga af hinu kyninu í takinu og skrifa alls konar hluti sem þeir meina alls ekkert með. Sumir vilja leyna því að þeir eru í hjónabandi, aðrir reyna að virðast yngri og enn aðrir allt öðruvísi í útliti en þeir eru í reynd. Þetta getur verið óskaplega gaman. Að fá í fyrsta sinn á ævinni að leika einmitt þá persónu sem viðkomandi þráir að vera. Þarna er hægt að segjast vera geimvísindamaður eða ljóska með stór brjóst og örmjótt mitti. Það er líka hægt að gleyma að maður á þegar maka, maka sem eftir nokkurn tíma varð hversdagsleg manneskja fremur en draumaprins eða draumadís. En hvað gerist þegar raunveruleikinn bankar upp á og þeir sem hafa leyft ímyndunaraflinu að leika lausum hala þurfa að stíga fram úr skugganum og sýna sig?

- Auglýsing -

Loks þegar þeir hitta manneskjuna, hugsanlega eftir margra vikna spjall um lífið og tilveruna, er hún þá jafnsjarmerandi og hún á bak við tölvuna? Borgar sig virkilega að taka af skarið og hittast eða væri bara betra að fela sig áfram bak við tölvuna? Kannski erum við fyrst og fremst að blekkja sjálf okkur með því að vonast til þess að hægt sé að ná nánara og betra sambandi við manneskju gegnum tölvusamskipti en mögulegt er á skemmtistöðum með glas í hendi.

Vissulega getur viðkomandi karl heillað okkur konur ef hann hefur ekki málað sjálfan sig of skærum litum og reynist vera sú persóna sem hann sýndist vera í bréfum sínum. Það er líka möguleiki að fyrirgefa örlitla skreytni ef einlægni og heiðarleiki hefur að mestu ráðið öllu því sem sagt var en lygi og blekkingar eru aldrei góð byrjun á sambandi. Kvæntir menn í leit að ævintýrum á Netinu eru fiskar sem best er að sleppa.

Æskudýrkun og börnin hans og hennar

Hvað er það sem virkar í þessum leik og hvað ekki? Erum við kannski útbrunnar þegar komið er yfir þrítugsaldurinn eða bara kröfuharðari þegar náin kynni eru annars vegar? Ömmur okkar og afar voru ekki endilega að eltast við stinnasta holdið, grennsta rassinn og stærstu brjóstin. Þá eltist fólk eðlilega og ekki var haft fyrir því að pússa burtu hrukkurnar eða hindra ótímabær öldruneinkenni með kremum. Það þótti jafnvel bara sjarmerandi að vera með broshrukkur í kringum augun og líkama sem bar það með sér að hafa gengið með og fætt börn inn í þennan heim.

Og vel á minnst, blessuð börnin. Það þykir ekki lengur tiltökumál að eignast barn þótt enginn sé eiginmaðurinn. Sambandið við barnsföðurinn er kannski ekkert strax frá upphafi eða slitnar fljótlega eftir að barnið fæðist. Þegar þannig er komið vakna enn nýjar spurningar í makaleitinni. Hvað er best fyrir okkur og börnin? Er hægt að flétta saman nýja fjölskyldu úr nokkrum pörtum eða væri heppilegra fyrir allt og alla að við héldum bara áfram að búa einar? Kannski er bara best að vera í fjarbúð, helgarsambúð eða stunda skyndikynni.

Vonin vaknar að nýju

Nei, það hlýtur að vera einhver þarna úti sem hentar okkur. Er skapaður bara handa okkur og fellur að okkar persónuleika eins og flís við rass, loksins þegar við finnum hann. Manneskjan þrífst ekki ein. Maður er manns gaman og allir þurfa stuðning og bakhjarl í þessu lífi. Karl og kona voru sköpuð til að veita hvort öðru ást og hlýju en hvað er eftir í stöðunni þegar okkur finnst við búnar að reyna allt?

Ætli við eigum annars úrkosti en að halda áfram að leita. Hver veit nema sá eini rétti komi einmitt upp í hendurnar á okkur þegar við erum gersamlega hættar að leita. Það má líka leita fulltingis að handan og fara til miðils bara svona til að athuga hvort prinsinn sé ekki örugglega þarna rétt handan við hornið. Hvort hann sé ekki væntanlegur í nánustu framtíð þessi maki sem kemur ríðandi eins og bjargvættur á hvíta hestinum og við munum lifa hamingjusamar með upp frá því.

„Hver veit nema sá eini rétti komi einmitt upp í hendurnar á okkur þegar við erum gersamlega hættar að leita.“

Aldrei aftur einmana, aldrei aftur leið. „Going to the Chapel and We’re Gona Get Married.“ Jú, bíðum við, þarna er vonin kviknuð aftur. En hvar er hann þá, minn eini rétti? Miðillinn gat því miður hvorki gefið upp stund né stað, eða hvenær ég myndi hitta hann og hvar hann væri nákvæmlega að finna. Hann gat þó sagt mér að það væri draumaprins og við myndum lifa hamingjusöm til æviloka. Ekki slæmt það. Ekki er því um annað að ræða en að byrja að leita aftur. Úff, þvílík vinna, þvílíkt puð. Kannski borgar það sig. Hver veit?

Hægt er að hlusta á Lífsreynslusögur Vikunnar á Storytel. Guðrún Óla Jónsdóttir, Gógó, blaðamaður hjá Vikunni, les upp lífsreynslusögur sem sendar hafa verið inn í blaðið í gegnum tíðina og sögurnar eru jafn ólíkar og þær eru margar. Ekki missa af því þegar nýr þáttur af Lífsreynslusögum fer í loftið í viku hverri – fylgstu með okkur á Facebook. https://www.facebook.com/lifsreynslusaga/

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -