Föstudagur 27. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Í þriggja ára baráttu við fordóma heilbrigðiskerfisins

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eva Ásrún Albertsdóttir hefur aldrei verið hrædd við að taka u-beygjur í lífinu, hefur starfað lengi sem ljósmóðir, verið þáttastjórnandi í útvarpi og sjónvarpi, rekstrarstjóri Jarðbaðanna við Mývatn auk þess að vera vinsæl söngkona og er nú, rúmlega sextug, að ljúka mastersnámi sem RIM-leiðbeinandi. Þessi síðasta kúvending er afleiðing af alvarlegum veikindum sonar hennar sem stóðu yfir í þrjú ár og mættu fordómum innan heilbrigðiskerfisins. Þá sögu segir Eva Ásrún í nýútkominni bók, Women Who Rise, þar sem þrjátíu konur víða að úr heiminum segja reynslusögur af atburðum sem breyttu lífi þeirra til hins betra.

„Það er enginn annar á Íslandi með þessi réttindi,“ segir Eva Ásrún spurð út í hvað hún sé að læra. „Ég er sú fyrsta og RIM er alveg stórmerkilegt, skal ég segja þér. Það er samtalstækni sem gengur út á að vinna með tilfinningar og leysa þær upp á líkamsbasis. RIM stendur fyrir Regenerating Images in Memory, eða að endurnýja minningar í frumuminninu. Tilfinningar okkar vegna þeirra áfalla sem við lendum í sitja allar í líkamanum og svo erum við alltaf að reyna að tala okkur út úr þessu en það gengur ekkert vegna þess að okkur líður svo illa. Í RIM er unnið með bæði hægra og vinstra heilahvelið, að nota sem sagt bæði rökhugsunina og ímyndunaraflið til þess að tengjast niður í undirmeðvitundina og eyða neikvæðum tilfinningum, leysa þær upp og búa til jákvæðar tilfinningar. Þetta er ekki meðferð heldur byggir aðferðin á sambandi skjólstæðingsins við sjálfan sig og við getum sagt að aðferðin sem beitt er sé líkamsmiðuð tækni sem byggir á þeirri trú að hver einstaklingur sé heill. Við erum nefnilega ekki brotin, við erum heil og þegar við hreinsum út þetta tilfinningalega rusl, ef svo má segja, þá er það bara eins og að dusta burt rykið sem sest á húsgögnin okkar. Þegar því er lokið getum við nálgast okkur eins og við erum. Við búum yfir miklu fleiri úrræðum en við gerum okkur grein fyrir.“

„Hélt ég væri að missa son minn“

Spurð hvernig leið hennar hafi legið yfir í þessi fræði segir Eva Ásrún að það sé nú aldeilis saga að segja frá því. Þetta hafi allt hafist þegar sonur hennar veiktist árið 2015. „Ég hef aldrei verið hrædd við að takast á við áskoranir og fara út fyrir þægindaramman, sem er svo skemmtilegt vegna þess að maður býr mjög vel að því,“ segir hún. „Ég á fimm syni og það sem gerðist var að árið 2015 veiktist miðsonur minn, sem þá var tvítugur, alvarlega. Hann hafði alltaf verið hraustur, er afreksmaður í íþróttum, var í toppformi líkamlega og algjör nagli. Flottur og kraftmikill ungur maður. Eitt kvöldið var hann að fara að sofa og kallaði í mig að eitthvað væri að. Ég fór með hann upp á bráðamóttöku með blóðþrýsting sem var lífshættulega hár. Þar héldu læknarnir fyrst að hann væri með flysjun á ósæð, sem reyndist síðan ekki vera, en allt í einu stóð ég þarna yfir drengnum mínum um miðja nótt og hélt að ég væri að missa hann. Eftir að læknarnir komust að þeirri niðurstöðu að þetta væri sennilega ekki flysjun á ósæð var hann fluttur niður á hjartagátt. Það var ekki vitað hvað var að. Ég gerði mér strax grein fyrir því að ég yrði að vera á varðbergi, taka fulla ábyrgð á því að um hann yrði hugsað og að hann fengi þá þjónustu sem hann þyrfti. Ég er náttúrlega heilbrigðisstarfsmaður og það kom sér heldur betur vel í þessu ferli.“

Inn og út af gjörgæslu, engin greining, stanslaus barátta  

Ekki tókst að greina veikindi sonarins og nú tók við langt og strangt ferli sem Eva Ásrún segir hafa verið með því versta sem hún hefur þurft að takast á við. „Þarna tók við sex vikna innlögn, þar af um það bil þrjár vikur á gjörgæslu,“ heldur hún sögunni áfram. „Engin sjúkdómsgreining fékkst og þetta var bara algjör martröð. Sonur minn fékk þessi hræðilegu verkjaköst sem stóðu upp undir fimm tíma og engin lyf virkuðu á og á endanum þurfti að flytja hann inn á gjörgæslu og svæfa hann. Ég lenti þarna strax í baráttu þar sem við upplifðum fordóma innan heilbrigðiskerfisins. Tek það fram að hann hafði alveg yndislegan, ábyrgan lækni sem er algjörlega frábær, en það voru ansi miklir fordómar fyrir þessum veikindum vegna þess að það vissi enginn hvað olli þeim og sumir drógu þá ályktun að þetta væri eitthvað geðrænt. Á einum punkti var hann sendur heim en var svo kominn samdægurs aftur niður á gjörgæslu, til dæmis. Ég áttaði mig á því að ég var komin í stanslausa baráttu og gat ekki vikið frá honum, ég gisti margar nætur á spítalanum. Læknarnir voru allir af vilja gerðir að leita en þeir bara fundu ekki neitt. Og þegar ekki er vitað hvað er að verða hlutirnir fyrst vandasamir því þá veit enginn hvað á að gera við hann. Eftir að hann hafði lent inn og út af gjörgæslunni nokkrum sinnum endaði það með því að einn læknirinn þar bara snappaði og ákvað að það ætti að leggja drenginn inn á bráðageðdeild. Það hefur aldrei verið neitt að honum geðrænt svo við foreldrarnir sögðum bara þvert nei og hann samþykkti það heldur ekki sjálfur. Læknirinn hans var erlendis á þessum tíma og læknirinn sem var á vakt á hjartadeildinni, eftir að hann var sendur þangað, tók ekki vel á móti honum þannig að honum fannst hann vera óvelkominn, enda fékk hann þau skilaboð að hann tæki pláss frá öðrum og ætti bara að vera á geðdeildinni. Hann vildi eðlilega ekki vera þarna og fór heim daginn sem hann var útskrifaður af gjörgæslu, sem gerist auðvitað aldrei. Í framhaldinu var hann svo inn og út af bráðamóttökunni og var mjög alvarlega veikur í þrjú ár.“

 „Hann fékk andlitslömun, það leið yfir hann, hann var með gríðarleg hjartsláttarköst og óreglulegan hjartslátt, mikla brjóstverki og óbærilegan höfuðverk, allt of háan blóðþrýsting en ekkert fannst að.“

- Auglýsing -

Sonur Evu Ásrúnar varð veikari og veikari, einkennunum fjölgaði og ráðaleysi heilbrigðisstarfsfólks var, að hennar sögn, algjört. „Hann fékk andlitslömun, það leið yfir hann, hann var með gríðarleg hjartsláttarköst og óreglulegan hjartslátt, mikla brjóstverki og óbærilegan höfuðverk, allt of háan blóðþrýsting en ekkert fannst að. Hann svaf ekki heila nótt í þrjú ár og gat engan veginn verið. Ég vaknaði á hverjum morgni og óttaðist að hann væri ekki á lífi. Við vorum í eilífum ferðum upp á bráðamóttöku en þar vildi enginn neitt fyrir hann gera. Ég og aðrir í fjölskyldunni þurftum að æsa okkur til þess að hann fengi einhverja hjálp. Það eru eiginlega engin orð til að lýsa því hvernig upplifunin var sem aðstandandi og móðir með hann svona veikan og mæta því viðmóti sem okkur var boðið upp á. Það var alveg með ólíkindum. Hann þurfti aftur að leggjast inn á gjörgæslu í nokkra daga 2016, en fékk alltaf þau skilaboð að þetta væri „bara“ andlegs eðlis. Hann fékk sýkingu í nýra og það bættist endalaust við einkennin. Ég setti í þann gírinn að leita að orsökum og leitaði og leitaði. Heilsugæslan reyndist okkur vel á þessum tíma en engin skýring fannst og ég hélt áfram að leita. Eftir því sem tíminn leið var nokkuð ljóst að það hlyti að vera eitthvað í ósjálfráða taugakerfinu, en honum var alltaf hent út af bráðamóttökunni án þess að það væri neitt skoðað, hann hafði engan ábyrgan lækni og ekkert plan. Það endaði með því í eitthvert skiptið að ég neitaði að fara heim fyrr en ég fengi samtal við lækningaforstjóra, sem ég fékk og í framhaldi af því var hann tengdur verkjateyminu á sjúkrahúsinu en það var ekki það sem hann þurfti.“

Var greind með áfallastreituröskun

Í ferlinu var fenginn sænskur sérfræðingur til að kíkja á son Evu Ásrúnar og hann vildi fá hann út til rannsókna, en það var ekkert gert með það, segir hún, og drengurinn varð sífellt veikari og veikari og það endaði með því að hún sjálf fékk áfall sem leiddi til veikindaleyfis. „Hann var með viðvarandi allt of háan blóðþrýsting, 135 í neðri mörkum sem er lífshættulegt,“ útskýrir Eva Ásrún. „Ég sagðist myndu gera spítalann ábyrgan ef hann fengi hjartaáfall eða heilablóðfall og þá fengum við okkur lögfræðing. Eftir það fóru samskiptin við spítalann fram í gegnum lögmann og sonur minn fór út til Svíþjóðar til fyrrnefnds sérfræðings. Það hafði hins vegar ansi margt gerst í millitíðinni og þegar við komum út sögðu læknarnir þar að miðað við upplýsingar um ferlið hefðu þeir gert þetta öðruvísi. Þegar við komum heim aftur fór ég til heimilislæknisins og bað hann um að koma drengnum til innkirtlasérfræðings, en þar fannst ekkert heldur. Eftir innlögnina, 2016, fékk ég áfall. Ég hélt alltaf áfram að vinna, fjölskyldan var öll í áfalli, einn sonur minn hætti í skólanum, lokaði sig inni og spilaði tölvuleiki og þyngdist um tuttugu og fimm kíló. Það hugsaði enginn um fjölskylduna á þessum tíma, okkur var aldrei boðin nein hjálp. Og, já, ég endaði sem sagt  þarna í áfalli og var send í veikindaleyfi vegna áfallastreituröskunar og var frá vinnu í rúmt ár.“

- Auglýsing -

Fékk ekki að snúa aftur til vinnu

Eva Ásrún segist hafa ríghaldið í þá hugsun að hún yrði að halda sér á floti og komast í gegnum þetta og hafi því leitað allra leiða til að finna úrræði sem gætu nýst henni sjálfri. Það hafi leitt hana á slóðir RIM. „Ég hef alltaf hugsað mikið um andlega líðan og haft mikinn áhuga á heila- og taugavísindum,“ útskýrir hún. „Þannig að á þessum tíma var ég dálítið að stúdera það og hvernig maður notar hugann til að halda sér á floti í svona ástandi og rakst í þeim pælingum á Jack Canfield á Netinu. Hann er árangursþjálfi númer eitt í Ameríku og það sem ég sá hjá honum var nákvæmlega það sem mér fannst ég eiga að vera að gera. Aðferð hans var akkúrat það sem mig vantaði til að verða hæfari til þess að hjálpa öðrum. Ég hafði auðvitað gert fullt af því sem hann ráðleggur í þessari baráttu minni; tekið hundrað prósent ábyrgð, vitað hvað ég vildi, ekki gefist upp og spurt endalausra spurninga. En þessi aðferð hreif mig svo mikið að ég ákvað að fara í nám hjá Canfield og gerði það mitt í þessu öllu. Útskrifaðist reyndar ekki fyrr en haustið 2017 og þá hafði auðvitað enn þá meira gengið á.“

 „Ég sagðist myndu gera spítalann ábyrgan ef hann fengi hjartaáfall eða heilablóðfall og þá fengum við okkur lögfræðing. Eftir það fóru samskiptin við spítalann fram í gegnum lögmann og sonur minn fór út til Svíþjóðar til fyrrnefnds sérfræðings.“

Baráttunni var hvergi nærri lokið því þegar Eva Ásrún ætlaði að snúa aftur til vinnu sinnar sem ljósmóðir eftir veikindaleyfið var búið að ráða í stöðuna hennar og henni var sagt að hún fengi enga vinnu. „Þegar ég ætlaði að fara að vinna aftur var ég bara ekkert velkomin í vinnuna,“ segir hún. „Ég var fastráðin og ein reynslumesta ljósmóðirin á deildinni, það var gróflega brotið á mér. Mér var sagt að það hefði alltaf verið mjög óljóst um mín veikindi, að ég hefði verið of mikið fjarverandi vegna veikinda annarra sem var fjarstæða. Þessi niðurstaða var ekki til að bæta ástandið og kaldar kveðjur til ljósmóðurinnar sem stofnaði Styrktarfélagið Líf fyrir Kvennadeildina. Ég talaði við lögmann BHM, hann gekk í málið og það endaði auðvitað með því að Landspítalinn þurfti að greiða mér laun í ár vegna þess að það hafði verið brotið á mér. Það er alveg með ólíkindum að heilbrigðisstofnun komi svona fram við starfsfólkið, ég er því miður ekkert einsdæmi.“

Fylgdi innsæinu og lífið tók u-beygju

Eva Ásrún hélt áfram í náminu og í sambandi við það fékk hún tölvupóst sem varð til þess að líf hennar tók alveg nýja stefnu og vandamálin fóru að leysast. „Ég fékk póst þar sem ég var hvött til þess að sækja um áframhaldandi nám, í aðferðarfræði Canfields,“ útskýrir hún. „Ég er mjög næm, með sterkt innsæi og ég fann það strax að ég átti að sækja um þetta nám. Staðan var ekki glæsileg, sonur minn enn hundveikur, ég hafði ekkert efni á þessu og svo framvegis og ýtti þessu frá mér en þessi tölvupóstur hélt áfram að toga í mig. Það eru bara fimmtíu manns í heiminum sem komast inn í þetta nám og ég vissi svo sem ekkert hvort ég yrði samþykkt, en ég ákvað að fylgja innsæinu og sækja um. Ein spurningin á umsóknareyðublaðinu var sú hver væri helsta hindrunin fyrir mig og það voru auðvitað veikindi sonar míns. Tveimur dögum seinna hringdi í mig yndisleg kona og sagði mér að hún hafi áður verið að vinna hjá lækni sem allir leituðu til þegar enginn vissi hvað væri að og bauð mér að tengja mig við hann. Sá læknir, dr. Darren Clair er svæfingarlæknir og sérfræðingur í lífsstílslækningum, sem er ný sérgrein innan læknisfræðinnar. Ég starði bara á símtólið og hugsaði: Vá! Þetta er ástæðan fyrir því að ég fann svona sterkt að ég ætti að sækja um.“

 „Ef ég hefði þekkt RIM á þeim tíma sem sonur minn var veikur hefði það sparað mér mikla vanlíðan. Nú stend ég í þeim sporum að geta nýtt alla mína þekkingu, reynslu og menntun til þess að hjálpa öðrum.“

Í framhaldinu funduðu Eva Ásrún og sonur hennar með dr. Clair á Netinu og hann hvatti son hennar til að koma út til Kaliforníu til sín og fara í stofnfrumumeðferð. Þau mæðgin ákváðu að láta slag standa og skelltu sér til Kaliforníu í byrjun desember 2017. Þau sáu ekki eftir því. „Sonur minn fór í meðferð hjá dr. Clair og eftir tvær vikur var hann búinn að ná sjötíu til áttatíu prósent bata,“ segir Eva Ásrún og hljómar enn ofandottin yfir þessum stórkostlega árangri. „Meira að segja læknirinn átti varla orð, þetta var framar hans björtustu vonum. Þannig að hann hvatti okkur til að koma aftur í janúar, sem við og gerðum, og í lok janúar var drengurinn læknaður og hefur ekki kennt sér meins síðan. Þetta var bara eins og kraftaverk.“

Verkfæri til að verða hæfari að hjálpa öðrum

Til að auka enn á gleðina komst Eva Ásrún inn í námið sem leiddi til náms á enn nýju sviði, RIM, Regenerating Images in Memory, hjá the RIM Institute. Hún útskrifaðist í júlí sl. sem RIM-leiðbeinandi og er nú í mastersnámi og stefnir að því að ljúka því á þessu ári, ef guð og kórónuveiran lofa. „Ég var náttúrlega algjörlega í henglum,“ segir hún. „Þetta er ekkert venjulegt álag sem maður er undir í svona aðstæðum, eins og fólk þekkir, þetta var allra erfiðasta verkefni sem ég hef tekist á við á lífsleiðinni. Eitt er að vera með greindan alvarlegan sjúkdóm en fólk veit þó alla vega við hvað er að glíma eftir greiningu. Þegar maður veit ekkert reynir á mann að treysta á innsæið, standa með sér og gefast ekki upp og það er meira en að segja það. En, já, ég sem sagt fór í þetta áframhaldandi nám hjá Canfield og þar kynntist ég dr. Deborah Sandrella sem er stofnandi RIM Institute og sú sem þróaði þessa RIM-tækni. Hún er margverðlaunaður geðmeðferðaraðili, með meistaragráðu í geðhjúkrun, háskólaprófessor og nýtur mikillar virðingar á sínu sviði. Ég fann að RIM-tæknin væri nýtt verkfæri fyrir mig til þess að verða enn hæfari til þess að hjálpa öðrum og ákvað að læra hana líka. Ég útskrifaðist í júní í fyrra og er núna í mastersnámi í þessum fræðum. Mér finnst algjörlega frábært að geta boðið upp á þetta núna í þessu ástandi, algjörlega nýja nálgun til þess að glíma við vanlíðan. Það er númer eitt í lífinu að hafa hundrað prósent stjórn á sínu lífi, en við stjórnum auðvitað ekki því sem fyrir okkur kemur. Það eina sem við höfum stjórn á eru viðbrögðin og það sem við hugsum, gerum og sjáum fyrir okkur. Stundum upplifum við að við höfum ekki stjórn á neinu en við stjórnum því alltaf hvernig við tökum á málum. Við erum einmitt að upplifa þetta núna með kórónuvírusinn; eitthvað ósýnilegt stoppar allan heiminn og við þurfum að bregðast við því með því að tengjast náttúrunni og okkar eigin tilfinningum.“

 „Ég grínast stundum með það að ég hafi engan áhuga á því að komast á eftirlaun. Ég hef bara áhuga á því að takast á við næsta verkefni og hafa gaman af því að vera til.“

Eva Ásrún vinnur sjálfstætt sem ljósmóðir, fer í heimavitjanir eftir fæðingu og notar m.a. RIM-tæknina til að hjálpa mæðrum að takast á við það sem því fylgir að eignast nýjan einstakling. Hún ætlar síðan að víkka út starfsemina og er að opna heimasíðuna evaalberts.is þar sem hægt verður að bóka tíma, fá ráðgjöf og svo framvegis. Hún segir veikindi sonarins hafa orðið til þess að hún tók enn eina u-beygjuna í lífinu og sé nú betur til þess búin en nokkru sinni fyrr að hjálpa öðrum. „Ef ég hefði þekkt RIM á þeim tíma sem sonur minn var veikur hefði það sparað mér mikla vanlíðan. Nú stend ég í þeim sporum að geta nýtt alla mína þekkingu, reynslu og menntun til þess að hjálpa öðrum,“ segir hún. „Það var líka þess vegna sem ég greip tækifærið til að segja sögu mína í bókinni Women Who Rise, bók þar sem konur segja frá eigin reynslu í þeim tilgangi að hjálpa öðrum að takast á við vandamál sín í lífinu. Bókin fæst á Amazon og á evaalberts.is, ég mæli sannarlega með því að fólk lesi hana, þetta eru magnaðar sögur magnaðra kvenna og ég held staðfastlega að þessi bók geti hjálpað mörgum. Sagan mín heitir Trust Your Intuition – Your Feelings Are Smarter Than You Think – Treystu innsæinu, tilfinningar þínar eru klárari en þú heldur. Ég er svo þakklát fyrir að það að ég hafi treyst innsæi mínu hafi leitt til þess að sonur minn fékk heilsuna aftur og allir séu búnir að jafna sig. Það er bara dásamlegt.“

Óteljandi möguleikar í boði óháð aldri

Eva Ásrún er rúmlega sextug en hún er óhrædd við að hefja nýtt tímabil í lífinu, með nýja reynslu og þekkingu í farteskinu. Hún segir aldrei of seint að byrja á einhverju nýju. „Það sagði enginn að lífið væri auðvelt,“ segir hún og hlær. „Það snýst auðvitað alltaf um að takast á við þau verkefni sem maður fær og halda áfram. Ég býð upp á fyrirlestra, námskeið og RIM-tíma og sinni svo auðvitað mínu starfi líka sem ljósmóðir í heimaþjónustu og nýti þessa tækni í öllu sem ég geri. Mér finnst alveg frábært að vera að byrja nýjan kafla í lífinu rúmlega sextug. Ég grínast stundum með það að ég hafi engan áhuga á því að komast á eftirlaun. Ég hef bara áhuga á því að takast á við næsta verkefni og hafa gaman af því að vera til. Ég hef alltaf unnið mörg störf og ég myndi alls ekki vilja hætta að vinna, þótt það sé svo sem frábært að geta gert það að því leytinu að þá fer fólk oft að gera það sem það langar til. En það er ekkert tilhlökkunarefni fyrir alla, síður en svo. Það er ekkert sem segir að þú eigir að vera veik þegar þú ert orðin gömul. Náttúran virkar þannig að við eigum að geta haldið heilsunni þangað til við deyjum, en við þurfum að skapa okkur skilyrði til þess og lifa þannig. Heimurinn er svo opinn í dag að þú getur gert hvað sem þig langar til og fundið nýjar leiðir og prófað eitthvað nýtt. Þetta er ekki lengur eins og það var í gamla daga þegar fólk kláraði gagnfræðaskóla, fór að vinna í banka og vann þar alla ævina. Það eru óteljandi möguleikar í boði, alveg sama hvað maður er gamall.“

Myndir: Hallur Karlsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -