Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.6 C
Reykjavik

Í voðastandi fram að þrítugu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni

Ég átti erfiða æsku. Pabbi minn var alkóhólisti og þegar ég var þriggja ára skildu foreldrar mínir. Við vorum fimm systkinin og mamma gat ekki séð fyrir okkur öllum. Ég var því send í fóstur til systur hennar sem bjó úti á landi. Þar átti ég erfiða ævi og var oft skilin út undan. Ég var lítið meira en barn þegar ég fór að heiman og hóf að sjá fyrir mér og ákvarðanirnar sem ég tók báru reynsluleysi mínu vitni.

Ég strauk þrisvar frá móðursystur minni en var alltaf send til baka aftur. Barnaverndaryfirvöld áttu að fylgjast með mínum málum en aðeins einu sinni var ég spurð af hverju ég stryki og hvort mér liði vel á fósturheimilinu. Ég svaraði hreinskilnislega að ég hefði það ekki gott. Ég væri látin vinna mikið og mun meira en börn móðursystur minnar. Þau máttu sofa út á laugardögum og sunnudögum en ég þurfti að vakna og hjálpa til í fjósinu.

Þau fengu líka margt sem ég fékk ekki. Á hverju ári fengu þau skólaföt og nýtt dót í töskurnar sínar. Ég fékk aðeins einu sinni ný föt allan tímann sem ég bjó þarna en þá sendi mamma mér ný föt í afmælisgjöf. Mín föt voru alltaf föt af eldri krökkunum sem þau voru vaxin upp úr. Kannski hefði það ekki skipt mjög miklu máli ef ég hefði ekki alltaf verið látin finna að ég var minna metin en hin börnin á heimilinu. Ég fór með í verslanir þegar keypt voru föt á alla nema mig.

Misþyrmingar ekki nóg ástæða til flutnings

Elsti sonur móðursystur minnar kom mjög illa fram við mig og ég býst við að hægt væri að segja að hann hafi níðst á mér. Hann réðst á mig úr leyni og kleip mig eða sneri upp á handleggina á mér hvenær sem hann gat. Hvers vegna hann gerði þetta veit ég ekki en þegar ég kvartaði var honum trúað en ekki mér þótt ég gæti sýnt marbletti og skrámur máli mínu til sönnunar. Allt þetta sagði ég fulltrúa barnaverndarnefndar en sennilega hefur það ekki þótt nógu góð ástæða til að flytja mig til.

- Auglýsing -

Ég var fjórtán ára þegar þessi elsti frændi minn nauðgaði mér og þá fékk ég endanlega nóg. Það stórsá á mér allri eftir hann. Ég pakkaði saman dótinu mínu og sagði frænku minni að ég myndi kæra son hennar fyrir nauðgun ef hún léti leita að mér eða skipti sér af mér upp frá því. Hún lét mig fara, enda vissi hún að ég sagði satt og hún þorði þess vegna ekki að láta yfirvöld vita.

„Ég veit eiginlega ekki vel hvað gerðist um kvöldið en morguninn eftir vaknaði ég uppi í rúmi hjá manni sem var sautján árum eldri en ég.“

Frá heimili frænku minnar hélt ég til mömmu en aðstæður hennar voru slæmar þannig að hún gat ekki tekið við mér. Það varð úr að mér var komið fyrir hjá dóttur vinkonu mömmu sem bjó fyrir vestan. Ég passaði börnin hennar og hjálpaði til innanhúss og fékk í staðinn fæði og húsnæði. Mér leið ákaflega vel hjá þessari konu. Hún var mér góð og í fyrsta skipti gekk mér vel í skóla. Það var bæði vegna þess að séð var til þess að ég fengi tíma til að læra og maðurinn hennar hjálpaði mér við það sem mér fannst flókið og erfitt. Ég bjó hjá þessu fólki í tvö ár og lauk grunnskólaprófi frá skólanum á staðnum. Ég fékk ekkert svakalega háar einkunnir en ég náði öllu. Það gladdi mig mjög mikið því elsti frændi minn, sá sem kvaldi mig sem mest í æsku, hafði lengi strítt mér á því að ég væri svo heimsk að ég myndi aldrei ná grunnskólaprófi.

Hélt ein út í hinn stóra heim aðeins fimmtán ára

- Auglýsing -

Börn konunnar sem ég bjó hjá voru orðin það stálpuð þegar ég tók grunnskólaprófið að hún hafði í raun litla þörf fyrir mig. Ég hélt því ein út í hinn stóra heim aðeins fimmtán ára og fannst ég vera fær í flestan sjó. Ég fékk vinnu í fiski og leigði mér herbergi í þorpi við sjávarsíðuna. Mér fannst ég ógurlega fullorðin og dugleg. Ég vann mikið og fékk því góð laun. Í fyrsta skipti á ævinni gat ég leyft mér að kaupa mér ný föt og eitthvað fallegt sem ég átti ein og sjálf. Ég naut lífsins sem aldrei fyrr og ef ég hefði bara látið það nægja hefði líf mitt orðið öðruvísi og betra.

Nokkrum mánuðum eftir að ég flutti í þorpið mitt varð ég sextán ára. Á þessum árum varð maður sjálfráða á þeim aldri og ég hélt upp á að héðan af gæti enginn neytt mig heim til móðursystur minnar aftur. Um kvöldið fór ég út að skemmta mér með nokkrum krökkum sem unnu með mér og varð full í fyrsta skipti á ævinni. Ég veit eiginlega ekki vel hvað gerðist um kvöldið en morguninn eftir vaknaði ég uppi í rúmi hjá manni sem var sautján árum eldri en ég. Hann vann í frystihúsinu eins og ég og var alltaf að nudda sér utan í stelpurnar. Við gerðum oft grín að honum þess vegna og ég hefði aldrei komið nálægt honum allsgáð.

Mér leið skelfilega illa þegar ég skreiddist heim til mín. Ég var þunn og hafði mikinn móral yfir því sem hafði gerst. Það versta var að þetta var fljótt að fréttast um þorpið og ég var kölluð kærasta þessa manns og krakkarnir hlógu að mér og stríddu mér á þessu. Þetta varð mér mjög erfitt og gleðin sem ég hafði fundið fyrir áður hvarf. Sennilega hef ég verið þunglynd á þessum tíma, að minnsta kosti var ég oft döpur og sjálfsmorðshugsanir leituðu iðulega á huga minn. Þessi maður lét mig heldur ekki í friði og einhvern veginn leiddist ég út í að fara að vera með honum og seinna að búa með honum.

Komin til Reykjavíkur

Ég var aldrei ástfangin af þessum manni og þótt ég byggi með honum í átta ár og eignaðist með honum barn var samband okkar aldrei náið. Við töluðumst sjaldnast við. Hann var fámáll að eðlisfari, var alinn upp í sveit og hafði lítil samskipti haft við kvenfólk. Hann var ekki ófríður eða neitt slíkt en hafði ekki áhuga á konum á svipuðum aldri og hann var á sjálfur. Hann var þekktur fyrir að elta unglingsstelpurnar í þorpinu en vilja ekkert með fullorðnar konur hafa. Eftir átta ára sambúð var ég orðin of gömul fyrir hann og dag nokkurn rak hann mig á dyr.

Það var mér áfall, enda var ég með lítið barn á framfæri og átti ekki í nein önnur hús að venda. Ég leitaði til konunnar sem ég bjó hjá þegar ég var unglingur og hún tók mig og barnið inn á heimili sitt. Hún ræddi einnig við lögfræðing til að kanna réttarstöðu mína og með hennar hjálp fékk ég því framgengt að sambýlismaður minn var neyddur til að borga mér ráðskonulaun fyrir öll sambúðarár okkar. Ég fékk einnig eitthvað af húsgögnum og öðrum búshlutum og fannst ég hafa unnið mikinn sigur.
Að vísu var það sem ég fór með aðeins lítið brot af eignum sambýlismanns míns fyrrverandi en ég var ekkert að velta mér upp úr því.

„Það verður langt þangað til ég get treyst karlmanni aftur en þangað til ætla ég að treysta á sjálfa mig.“

Ég var ákveðin í að byrja nýtt líf og vera skynsamari að þessu sinni. Ég gat keypt mér litla íbúð og komið mér nokkuð vel fyrir. Ég var vön vinnu og kippti mér því ekkert upp við það þótt ég þyrfti að vinna mikið. Enn og aftur gripu örlögin hins vegar í taumana og í þetta skipti varð ég ástfangin. Í fyrsta skipti á ævi minni fann ég til þeirrar spennu og gleði sem fylgir ástinni. Ég var tuttugu og fimm ára en að mörgu leyti enn þá barn. Ég giftist þessum manni og lengi vel entist ástin og mér tókst að loka augunum fyrir göllum hans. Hann drakk og kom illa fram við mig en ég fyrirgaf honum allt. Með þessum manni eignaðist ég tvö börn og hann lagði allt líf mitt í rúst.

Þegar ég yfirgaf hann fjórum árum seinna átti ég ekkert annað en skuldir og sjálfstraust mitt var í rúst. Ég flutti suður til borgarinnar með börnin mín og leitaði aðstoðar hjá félagslega kerfinu. Þar hitti ég yndislega konu sem hefur hjálpað mér meira en nokkur annar. Hún hjálpaði mér að byggja mig upp og leiðbeindi mér áfram. Ég á henni það að þakka að eftir þrítugsafmælið mitt tókst mér að snúa lífi mínu til betri vegar. Mér hefur tekist að gera upp fortíðina og ég er í dag sáttari við sjálfa mig en ég hef nokkru sinni verið fyrr. Ég bý ein með börnunum mínum og er ekki á leið í sambúð eða ástarsamband. Það verður langt þangað til ég get treyst karlmanni aftur en þangað til ætla ég að treysta á sjálfa mig.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -