Á tímum þar sem hröð tíska á upp á pallborðið hjá mörgum er gott að staldra við og líta inn á við. Leitum ekki langt yfir skammt og minnum okkur á dásamlegu íslensku hönnunina sem er allt í kringum okkur. Veljum gæði sem endast og styðjum við bakið á íslenskum hönnuðum í leiðinni. Hér má finna nokkra af þeim sem hafa náð miklum árangri og heillað jafnvel langt utan landsteinanna.
Steinunn Sigurðardóttir á langan og farsælan feril að baki sem einn klárasti fatahönnuður landsins (sjá mynd hér að ofan). Hægt er að nálgast vörurnar hennar á Steinunn.com.
Eygló Margrét Lárusdóttir, hönnuðurinn á bak við EYGLÓ, kom á markað með eigin línu árið 2006. Hún var valin hönnuður ársins 2016 og Kiosk, þar sem hönnun hennar hefur verið seld, valin besta verslunin til að kaupa íslenska hönnun sjö ár í röð. Kíkið á Eyglocollection.com.
Hildur Yeoman hefur skapað sér sess sem einn af okkar vinsælustu fatahönnuðum síðustu árin. Erlendir ferðalangar eiga það líka til að kíkja inn í verslun hennar á Skólavörðustíg. Hilduryeoman.com.
Rokkaraleg skartgripahönnun Orrafinns hefur vakið athygli út fyrir landsteinanana. Íslenskar pæjur hafa þó ekki látið vörumerkið fram hjá sér fara. Skartið fæst meðal annars hjá Hrím og á Skólavörðustíg 17a. Orrifinn-jewels.myshopify.com.
Barnafötin frá iglo + indi hafa verið í miklu uppáhaldi hjá íslenskum foreldrum en frægt er orðið þegar Kardashian-systur keyptu föt úr búðinni á sín afkvæmi. Nú hefur ný verslun þeirra verið opnuð á Garðatorgi 4 í Garðabæ en einnig er hægt að panta á Netinu á igloindi.com.
Verslunin Spaksmannsspjarir hefur löngum verið þekkt fyrir að fara eigin leiðir þegar kemur að stíl og tísku. Margar erlendar stórstjörnur eru hrifnar af ekta íslenskri hönnun en eiga væntanlega erfitt með að bera fram nafnið. Spaksmannsspjarir eru enn á sama gamla, góða staðnum á Bankastræti 11 en einnig er hægt að nálgast hönnunina á Spaks.is.
Kósí teppi og trefill frá Vík Prjónsdóttur er á óskalistanum okkar en vörumerkið hefur vakið athygli utanlands og það er vel skiljanlegt.
Farmers Market framleiðir meðal annars dásamlegar ullarvörur sem eru í mjög skandinavískum stíl og því ekki skrítið að erlendir ferðamenn sem koma til landsins heillist. Hins vegar hafa fötin þeirra einnig náð að eiga upp á pallborðið hjá tískumeðvituðum Íslendingum. Flíkurnar þeirra fást hjá Farmers & Friends á Hólmaslóð 2 og Laugavegi 37 og á vefsíðunni Farmersmarket.is.
Kronkron-skór hafa um árabil verið á óskalista íslenskra kvenna en erlendar tískudívur hafa einnig heillast af frumlegri og litríkri hönnuninni. Hægt er að berja dásemdina augum í versluninni að Laugavegi 63 og á Kronron.com.