Fimmtudagur 28. mars, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Krabbameinið kom ekki á óvart

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hrefna Eyþórsdóttir er 34 ára tveggja barna móðir er greindist með brjóstakrabbamein í fyrra. Nú hafa bæði brjóstin verið fjarlægð, hún hefur lokið lyfja- og geislameðferð og er bjartsýn á að vera laus við meinið.

Hrefna er alveg hissa á beiðni um viðtal. Henni finnst hún ekki vera viðtalsefni, hún hafi bara fengið sjúkdóm og tekist á við hann eins og svo margir aðrir. Eftir smávegis eftirgangsmuni lætur hún samt undan og samþykkir að segja Vikunni sögu sína. Fyrsta spurningin er hvort það hafi ekki verið mikið áfall að greinast með krabbamein svona ung.

„Nei, eiginlega ekki,“ segir hún. „Ég fékk að vita það árið 2015 að ég væri með BRCA-genið en þá var ég ólétt þannig að ég gat ekki byrjað í eftirliti strax. Mér var sagt að hafa samband þremur mánuðum eftir að ég hætti með dóttur mína á brjósti, sem ég gerði. Sama dag og ég hringdi til að tilkynna að ég væri tilbúin að byrja í eftirliti fann ég hnút í brjóstinu. Ég hafði svo sem reiknað með því að ég ætti eftir að fá krabbamein alveg frá því að ég fékk upplýsingarnar um genið, kannski ekki svona snemma reyndar en einhvern veginn kom þetta mér samt ekkert á óvart.“

Ýtarlegra viðtal er að finna við Hrefnu í kökublaði Vikunnar.

Mánuði eftir að Hrefna fann hnútinn í brjóstinu lá greiningin fyrir: þriðja stigs brjóstakrabbamein sem komið var í eitla í holhendinni. Hún segist samt hafa hugsað sem svo að þetta yrði nú lítið mál fyrst ekki voru komin meinvörp annars staðar í líkamanum. Þetta væri bara verkefni sem hún þyrfti að tækla. Hrefna býr á Fáskrúðsfirði og aðgerðir og meðferðir kostuðu auðvitað endalausar ferðir milli landshluta, en hún segist hafa reynt að hafa fjarveruna sem allra stysta í hvert sinn.

„Ég þurfti reyndar að byrja á því að fara í brennsluaðgerð í gegnum hjartaþræðingu á milli jóla og nýárs í fyrra, þar sem ég hafði verið með hjartsláttaróreglu,“ útskýrir hún. „Í byrjun janúar fór ég svo til Reykjavíkur og fór í aðgerð þar sem bæði brjóstin voru fjarlægð, auk eitlanna í holhöndinni. Þá var ég í Reykjavík í tólf daga og það var lengsti tíminn sem ég var að heiman í öllu þessu ferli. Eftir það fór ég suður einu sinni í viku í brjóstauppbyggingu og síðan í lyfjameðferð en þá flaug ég bara um morguninn og svo heim aftur með kaffivélinni. Mér fannst það miklu betra heldur en að þurfa að vera í burtu frá krökkunum í langan tíma. Þegar ég var í geislameðferðinni þurfti ég reyndar að vera fyrir sunnan alla vikuna, en fór alltaf heim um helgar.“

„Í byrjun janúar fór ég svo til Reykjavíkur og fór í aðgerð þar sem bæði brjóstin voru fjarlægð, auk eitlanna í holhöndinni.“

Hrefna er fædd og uppalin á Fáskrúðsfirði og foreldrar hennar búa þar svo hún segist hafa haft mikinn stuðning í gegnum meðferðarferlið. Reyndar hafi allir í þessu 700 manna samfélagi verið boðnir og búnir að hjálpa henni, svona bæir séu eins og ein stór fjölskylda. Ýtarlegra viðtal er að finna við Hrefnu í kökublaði Vikunnar.

Myndir / Úr einkasafni

- Auglýsing -

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -