Föstudagur 25. október, 2024
0.5 C
Reykjavik

Kynntist eiginmanninum 14 ára gömul

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Camilla Rut prýðir nýjustu forsíðu Vikunnar. Í einlægu viðtali dregur hún ekkert undan og talar um uppeldið í krossinum, óvænta athygli, taugaáfall sem hún fékk kjölfar brúðkaups síns og söngferilinn.

 

Camilla hefur með einlægni sinni og hispurslausri framkomu fangað huga og hjörtu fjölmargra Íslendinga. Á degi hverjum hleypir hún tugum þúsunda fylgjenda inn í líf sitt og sýnir bæði góðar og slæmar hliðar þess.

Í dag er Camilla í fullu starfi við það að sinna sínum miðlum, auk þess sem hún er að hefja feril í tónlist. „Dæmigerður dagur í mínu lífi er ekki til, ég er rosalega mikið út um allt að græja og gera,“ segir hún. „Ég sit á allskonar fundum og er stöðugt að vinna mig áfram. Það kemur aldrei sá dagur að ég sé ekki með neitt á dagskránni. Ég viðurkenni alveg að þetta hefur reynst mér frekar erfitt, þar sem ég er svo rosaleg rútínumanneskja. Ég vil helst hafa dagana mína eins, en þegar ég er ekki í fastri vinnu frá 9-5 gefur það augaleið að það gengur ekki alltaf upp. Svo á ég líka allskonar drauma sem ég er að vinna í að uppfylla og verkefni sem ég er að hrinda í framkvæmd, lífið kemur ekki til mín á silfurfati svo ég ætla að leggja hart að mér til þess að koma mér þangað sem ég vil fara.“

Kynntist eiginmanninum fjórtán ára

Camilla og eiginmaður hennar, Rafn Hlíðkvist, hafa verið saman í rúm tíu ár en hún var aðeins fjórtán ára þegar þau kynntust. „Við byrjuðum samband okkar mjög rólega, þar sem ég var svo ung. Rabbi er fimm árum eldri en ég og bar fullkomna virðingu fyrir því að ég væri að stíga mín fyrstu skref í þessu öllu saman. Við höfum gengið í gegnum svo margt saman á þessum tíu árum en einhvern veginn alltaf náð að halda okkar striki sem er nú aðallega honum og hans yfirvegun að þakka. Ég telst seint vera yfirveguð og róleg því eins og ég segi þá stjórnast ég af tilfinningum en hann hefur tök á mér sem enginn annar hefur,“ segir Camilla og bætir við að þau hafi verið óaðskiljanleg frá fyrstu kynnum. „Við smullum saman eins og flís við rass. Á meðan ég er algjört fiðrildi og tilfinningavera þá er hann rólegur og jarðbundinn, svo það má segja að hann dragi mig niður á jörðina á meðan ég dreg hann upp með mér, svo við hittumst oftast á miðri leið. Samband okkar hefur verið ferðalag og mikill lærdómur fyrir okkur bæði en í gegnum allt er þessi skilyrðislausa ást sem stendur svo sterk. Við trúlofuðum okkur um verslunarmannahelgina árið 2014 en vissum ekki þá að laumufarþegi var um borð. Sléttri viku eftir að við trúlofuðum okkur komumst við að því að ég væri ólétt af litla stráknum okkar – og þvílík hamingja.“

Sonur þeirra, Gabríel, kom svo í heiminn fyrir rúmum þremur árum. Camilla segir að eins klisjukennt og það hljómi, hafi sonurinn komið inn í líf þeirra á hárréttum tíma og breytt öllu til hins betra.

„Meðgangan og fæðingin var hryllingur en þetta litla barn hefur verið draumur síðan við fengum hann í hendurnar. Ég fékk rosalegt fæðingarþunglyndi og átti mjög erfitt fyrstu mánuðina. Í orlofinu hafði ég gaman af því að fylgjast með öðrum á samfélagsmiðlum og fljótlega kviknaði sú hugmynd að kannski hefði fólk áhuga á því sem ég hefði að segja. Ég opnaði aðganginn minn og var ekki með neitt sérstakt markmið. Ég einblíndi ekki á neitt afmarkað málefni, heldur var ég bara að spjalla um lífið og tilveruna. Meðal þess sem ég ræddi opinskátt var fæðingarþunglyndið. Markmið mitt var samt ekki beint að peppa aðra, heldur var ég að þessu aðallega til að peppa sjálfa mig og ég fann fljótt að þetta var hvati til þess að laga mitt eigið hugarfari. En boltinn fór fljótt að rúlla og fylgjendatalan jókst með hverjum degi. Að mörgu leyti var ég heppin, varðandi tímasetningu og annað en á þessum tíma var ekki mikið um það að fólk væri að opna sig og segja frá persónulegri lífsreynslu fyrir framan ókunnugt fólk á Snapchat.“

Þetta er aðeins brot úr ítarlegu viðtali við Camillu. Lestu viðtalið í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar.

- Auglýsing -

/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
/Myndir: Aldís Pálsdóttir
/Förðun: Sara Dögg Johansen með YSL

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -