Föstudagur 27. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

„Læknirinn sagði að ég væri heppin ef ég lifði til að halda upp á fjörutíu og fimm ára afmælisdaginn“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ana Marcovic ólst upp Serbíu en flutti til Íslands sem unglingur, lærði vélaverkfræði og síðan hátækniverkfræði við Háskóla Íslands og var farin að reka sitt eigið tækniteiknunarfyrirtæki þegar hún greindist með liðagigt og síðar vefjagigt sem ollu því að hún varð nánast ófær um að hreyfa sig. Ana var ekki á því að gefast upp fyrir sjúkdómunum, tók að stunda vaxtarrækt með góðum árangri og hefur margoft keppt fyrir Íslands hönd í alþjóðlegum mótum vaxtarræktarfólks. Nú er hún útlærður einkaþjálfari og hefur stofnað eigin vaxtarræktarstöð þar sem hún leggur áherslu á að sinna fólki með vefjagigt og svefnvandamál.

„Ég ólst upp í stríðshrjáðri Júgóslavíu, nánar tiltekið í Serbíu, en eftir að hafa klárað skólagönguna þar flutti ég til fjölskyldu minnar sem flúið hafði til Íslands,“ útskýrir Ana þegar hún er spurð um bakgrunn sinn og ástæðu þess að hún gerðist Íslendingur. „Ég fór í Háskóla Íslands í vélaverkfræði, með áherslu á vél- og orkutæknifræði, og hélt síðan áfram í hátækniverkfræði. Vann í mörg ár sem tækniteiknari hjá verkfræðifyrirtækjum en svo kom að því að ég var orðin nógu sjálfsörugg til að stofna mitt eigið tækniteiknunarfyrirtæki sem ég rak í mörg ár.“

Ana Markovic
Mynd / Hallur Karlsson

Hélt að flugvélin hefði lent á tunglinu

Ana hafði nokkrum sinnum heimsótt fjölskyldu sína á Íslandi áður en hún settist hér að og hún segist aldrei gleyma þeirri upplifun að lenda á Keflavíkurflugvelli í fyrsta skipti.

„Ég hélt að vélin hefði óvart flogið of hátt og hefði neyðst til að lenda á tunglinu vegna eldsneytisskorts,“ segir Ana og skellihlær. „Endalausar hraunbreiður, engar byggingar sjáanlegar, það rauk úr jörðinni og allir töluðu eitthvert geimverutungumál. Ég þurfti sífellt að vera að minna mig á að loka munninum sem var galopinn af undrun.“

Eftir að hafa flutt alfarið til Íslands segir Ana að þessi upplifun hafi breyst smám saman og hún hafi smátt og smátt farið að kunna vel að meta nýju heimkynnin, fyrir utan kuldann.

- Auglýsing -

„Fyrsta eitt og hálfa árið var mér alltaf kalt,“ segir hún og hryllir sig. „En ég lærði smátt og smátt að meta fegurð landsins og hvað fólkið var vingjarnlegt, þótt það gerði endalaust grín að mér þegar ég reyndi að tala íslensku. Umhverfið var svo gjörólíkt því sem ég átti að venjast og ég var yfir mig hrifin af því að geta farið í langar gönguferðir í ferska loftinu og uppgötvað nýja hluti við hvert skref. Ég var lengi að venjast því að lögreglan væri ekki með byssur og að það virtist vera mjög lítið um glæpi. Ég gat skilið bílinn minn og húsið eftir ólæst án þess að nokkuð gerðist. Þetta var svo ólíkt því sem ég hafði vanist, algjörlega nýr heimur, og mér fannst í alvöru að ég væri komin á aðra plánetu.“

Læknirinn hélt að sársaukinn væri hugarburður

Eftir að hún setti á stofn sitt eigið fyrirtæki var Ana komin á góðan stað í lífinu, fyrirtækið gekk vel og þrátt fyrir ýmsa erfiðleika var hún nokkuð ánægð með sjálfa sig og lífið. Það kom því eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar hún, árið 2010, fór að finna fyrir miklum verkjum, stirðleika og erfiðleikum við að ráða við einföldustu daglegar athafnir.

- Auglýsing -

„Á þeim tíma var mikið álag á mér,“ útskýrir hún. „Ég man að mér fannst mér hafa mistekist hrapalega í tilraunum mínum til að þóknast öllum. Einn morguninn vaknaði ég síðan með svo mikla verki að ég gat varla stigið fram úr rúminu og staðið upprétt. Í fimm daga átti ég erfitt með að klæða mig, ég hafði svo mikla verki í lófunum og fótunum. Ég man að pabbi skar matinn minn í örsmáa bita því ég hafði ekki orku til að halda á hníf og gaffli. Það var líka nánast vonlaust að liggja út af vegna verkja í mjöðmum og hrygg og ef einhver snerti mig fannst mér ég hafa brennt mig. Að kvöldi sjötta dagsins var ég orðin örmagna, svefnvana og leið svo illa að ég samþykkti loks að fara til læknis.“

Þrátt fyrir alvarleg einkennin vafðist það nokkuð fyrir læknunum að finna skýringu á ástandinu og koma með greiningu á sjúkdómnum og Ana segir að læknirinn sem hún fór til fyrst hafi í upphafi litið svo á að veikindin væru fyrst og fremst huglæg.

„Sá læknir gekk út frá því að sársaukinn væri bara hugarburður en vildi þó fá álit annars læknis,“ útskýrir hún. „Þegar taugalæknirinn sem hann kallaði til gekk inn stóð ég varlega á fætur til að sýna honum virðingu, þótt ég þyrfti að styðja mig við sólbakið og vegginn til að geta staðið upprétt. Þegar hann kynnti sig fyrir mér og tók í höndina á mér var handtakið svo sársaukafullt að ég bókstaflega féll á kné. Ég man ekki eftir því að hafa grátið en andlitið á mér var vott, ég veit ekki hvort það var af tárum eða svita. Hann sagði að þetta sem hrjáði mig væri ekki á sviði taugalækninganna heldur skyldi ég fara til gigtarlæknis. Hann gaf mér heimilisfangið á stofu gigtarlæknis og skipaði mér að fara beint þangað. Þar fór ég í blóðprufu og fékk skoðun hjá gigtarlækni sem rannsakaði hreyfigetu mína, ástand liðanna og svo framvegis. Síðan kvað hann upp þann úrskurð að ég væri með liðagigt í öllum liðum, bæði í þeim minni í höndum og fótum og í þeim stærri í hnjám og olnbogum og sömuleiðis í hryggnum.“

Ana Markovic
Mynd / Hallur Karlsson

„Þú verður komin í hjólastól þrjátíu og fimm ára“

Eftir greiningu á sjúkdómnum byrjaði Ana í verkjameðferð og segist fljótlega hafa farið að finna mikinn mun á sér.

„Ég fékk verkjameðferð sem sló á alla verkina,“ segir hún brosandi. „Ég gat dansað, hoppað og gengið hjálparlaust og mér leið stórkostlega. Sú gleði entist því miður ekki lengi. Fyrst fóru liðirnir að bólgna, síðan fékk ég slæman hósta sem hvarf ekki á fimm vikum og til að bæta gráu ofan á svart fór ég að fitna mikið. Í samtali við gigtarlækninn komst ég að því að þessi verkjameðferð sem ég var í var engin lækning og það sem verra var, lyfin bældu ónæmiskerfið sem útskýrði endalausan hóstann. Hann sagði mér að með tímanum myndu þessi lyf skemma bæði lifrina og nýrun auk þess sem liðagigtin sjálf væri þess eðlis að vefirnir sem hlífðu hjarta og lungum rýrnuðu. Hann sagði að sjúkdómurinn væri á það háu stigi hjá mér að ég yrði sennilega komin í hjólastól um þrjátíu og fimm ára aldur og það væri hætta á að ég myndi ekki lifa það að fagna fjörutíu og fimm ára afmælinu mínu. Eftir þessar upplýsingar fannst mér það of dýru verði keypt að vera verkjalaus þannig að ég kláraði það sem ég átti eftir af lyfjaskammtinum en endurnýjaði aldrei lyfseðilinn. Ég hef alltaf haft mikið álit á og borið virðingu fyrir heilbrigðisgeiranum og var alveg sannfærð um að það væri einhvers staðar verið að vinna að því hörðum höndum að finna lækningu við sjúkdómnum sem ég var með, ég yrði bara að vera þolinmóð og reyna að lifa eins heilbrigðu lífi og ég mögulega gæti.“

„Ég var gyðja þess heims sem ég skapaði“

Það reyndist hægara sagt en gert að halda í vonina um betri tíma. Ana missti fóstur, gekk í gegnum skilnað og segist hafa verið orðin fátæk, einstæð, atvinnulaus og þunglynd ofan á liðagigtina. Það var bara eitt sem henni fannst hjálpa sér í gegnum dagana.

„Ég fór að skrifa,“ segir hún og ljómar öll. „Ég skrifaði vísindaskáldsögur, fantasíur og ástarsögur og lét þær allar enda vel, þótt í þeim væri líka fullt af sársauka, viðbjóði og gauragangi. Ég var mjög ánægð með sögurnar sem ég skrifaði, rithöfundar sem ég þekkti og hjálpuðu mér að skrifa voru líka mjög ánægðir með þær og allt í einu átti ég hliðarveruleika þar sem ég gat gert allt sem mig langaði til en gat ekki gert í raunveruleikanum. Ég var gyðja þess heims sem ég skapaði og persónurnar mínar gátu gert allt sem þeim datt í hug. Það var alltaf til lausn við öllum vanda, alltaf von um betri tíma. Skrifin breyttu viðhorfi mínu til sjálfrar mín og ég varð harðákveðin í að gera það besta úr því lífi sem ég ætti eftir. Ég átti enn tækniteiknunarfyrirtækið og þegar mér bauðst samningur við fyrirtæki á Austurlandi samþykkti ég hann og flutti austur á land. Ég leigði út íbúðina mína í Reykjavík og leigan og launin mín gerðu mér kleift að borga niður skuldirnar sem höfðu hrannast upp eftir skilnaðinn. Það besta af öllu var þó að ég fór að hafa efni á að fara á bókmenntahátíðir og bókamessur erlendis. Þar hitti ég marga af uppáhaldshöfundunum mínum og tókst meira að segja að kynna bókina mína svo vel að átta forlög sýndu áhuga á að gefa hana út. Og allt í einu var ég ekki sjúklingurinn Ana lengur, nú var ég orðin Ana, rithöfundur á uppleið.“

Ana Markovic
Mynd / Hallur Karlsson

Greind með vefjagigt í ræktinni

Ana var þó enn illa haldin af liðagigtinni og lagði ekki á sig neitt líkamlegt erfiði að óþörfu. Hefði ekki dottið í hug að fara að stunda líkamsrækt á þessum tíma. Það var raunar í gegnum ástina sem leið hennar lá inn í heim líkamsræktarinnar, nánast fyrir helbera tilviljun.

„Meðan ég bjó fyrir austan fann ég huggun og skilning í sambandi sem ég var í við íslenskan mann,“ segir hún og brosir leyndardómsfull. „Við vorum svo ástfangin að við vorum alltaf saman. Því fylgdi náttúrulega að hann tók mig með sér í ræktina. Ég var með kindilinn minn og sat og las á meðan hann stundaði líkamsræktina. Hann æfði oft með besta vini sínum sem fyrir utan það að vera frábær lyftingamaður er líka læknir. Einu sinni tók hann eftir því að ég átti í erfiðleikum með að standa upp og bauðst til að prófa þrýstipunktana mína. Hann sagðist vera nokkurn veginn viss um að ég væri með vefjagigt, þótt ég liti ekki út fyrir að vera með hana. Hann skrifaði upp á svefnlyf fyrir mig, enda var ég stöðugt svefnvana, og lyfin áttu að hjálpa vöðvunum að slaka á auk þess að draga úr verstu verkjunum. Ég hélt áfram að fara með lækninum og kærastanum mínum í ræktina og einn daginn sýndi læknirinn, sem ég kallaði doksa, mér hvernig ég ætti að lyfta lóðum. Fyrst setti hann fjörutíu kíló á stöngina og þegar mér gekk ágætlega að lyfta þeim bætti hann um betur og setti níutíu kíló næst. Ég varð uppnumin, ég gat þetta, ég fór að gleyma bókinni heima þegar ég fór með þeim í ræktina og þeir sýndu mér alls kyns æfingar sem ég gæti gert á meðan þeir voru að æfa, sennilega aðallega til að ég væri ekki fyrir þeim,“ segir Ana og skellir aftur upp úr. „Þrátt fyrir að þetta kostaði mig mikinn sársauka jafnaðist það út vegna þeirrar upplifunar að ég gæti gert eitthvað með þennan líkama minn og það án hjálpar. Ég var í sjöunda himni! Því miður hjálpuðu svefntöflurnar lítið, en ég ákvað að ímynda mér að liðagigtin hefði verið ranglega greind og ég væri „bara“ með vefjagigt. Það hélt mér gangandi. Ég vissi að ég gæti aldrei sigrast á liðagigtinni og sú hugsun var að buga mig andlega, en ég gæti byggt upp vöðva þótt ég væri með vefjagigt.“

„Ég man eins og það hefði gerst í gær þegar ég var að koma út úr ræktinni, einu og hálfu ári eftir að ég hafði fyrst prófað að lyfta, og uppgötvaði að ég var ekki með neina verki á því augnabliki.“

Lyftingarnar unnu á verkjunum

Ástarsambandi Önu við íslenska huldumanninn lauk, en hún hélt þó ótrauð áfram að mæta í ræktina og smátt og smátt fór hún að finna fyrir stórkostlegum breytingum á líðan sinni.

„Ég man eins og það hefði gerst í gær þegar ég var að koma út úr ræktinni, einu og hálfu ári eftir að ég hafði fyrst prófað að lyfta, og uppgötvaði að ég var ekki með neina verki á því augnabliki. Verkirnir voru auðvitað komnir aftur þegar ég kom að bílnum mínum, en ég settist inn í hann, lokaði augunum og reyndi að endurupplifa þessar verkjalausu mínútur. Ég hafði ekki verið svona hamingjusöm í óratíma og ég sat bara þarna í bílnum og hágrét. Eftir það fór ég að lyfta á hverjum degi, nema á sunnudögum, og einn daginn var ég verkjalaus allan daginn. Mánuði síðar var ég verkjalaus í tvo daga í röð og fjórum mánuðum síðar vaknaði ég sjö daga í röð án þess að finna fyrir verkjum. Ég fór í alls kyns líkamsræktarhópa til að læra fleiri æfingar og því meira sem ég þjálfaði líkamann því minni verkjum fann ég fyrir og eftir því sem ég styrktist varð ég verkjalaus í lengri og lengri tíma í einu. Ég hafði ekki áhuga á að breyta mataræði mínu á þeim tíma því ég hafði prófað að gerast vegan, sleppa öllum mjólkurvörum, sleppa glúteni, fara á ketófæði, en ekkert hjálpaði til við að lina verkina. Ég fór hins vegar að finna fyrir því að með því að æfa reglulega hætti ég að fitna og það var enn ein ástæðan til að gleðjast.“

Ana Markovic
Mynd / Hallur Karlsson

Gaf pabba fyrstu verðlaunin í afmælisgjöf

Nú hefur Ana keppt fyrir Íslands hönd á alþjóðlegum vaxtarræktarmótum í nokkur ár og staðið sig frábærlega. Hvernig þróaðist það að hún fór að keppa í vaxtarrækt?

„Ég veit ekki almennilega hvað kom yfir mig,“ segir hún brosandi. „en einn morguninn var ég að drekka morgunkaffi með pabba og sagði honum upp úr þurru að ég ætlaði að fara að keppa í vaxtarrækt. Hann varð svo hissa að kaffið spýttist út úr honum og yfir hann allan. Ég hafði enga hugmynd um út í hvað ég var að fara, vildi bara fá að keppa einu sinni til að segjast hafa getað það. Lífið virtist svo stutt með ímyndaðan hjólastól við hverja bugðu á veginum. En ég lét þennan draum rætast og árið 2015 stóð ég á sviðinu með sumum af fallegustu konunum á Íslandi. Ég var svo hamingjusöm, þótt fjölskyldan hefði miklar áhyggjur af mér og nöldraði heil ósköp í mér, en hún studdi mig líka dyggilega og sýndi mér mikinn kærleika. Ég vissi ekki nóg um það sem ég var að gera til að sannfæra þau um að þetta væri allt í lagi og útskýra hvers vegna mér fannst þetta vera akkúrat það rétta fyrir mig. Ég, sem fimm árum fyrr hafði ekki getað skorið matinn á diskinum mínum, stóð nú sviði í hælaháum skóm og hnyklaði vöðvana. Ég heyrði ekki tónlistina, ég sá ekki neitt og hjartað hamaðist eins og blikktromma, en ég fékk verðlaun og þar sem þetta var á afmælisdegi pabba gaf ég honum verðlaunin í afmælisgjöf.“

Þótt Ana hefði upphaflega einungis ætlað að taka þátt í keppninni í þetta eina sinn náði hún svo góðum árangri og hlaut svo mikla athygli að það varð ekki aftur snúið.

„Ég man að ég dró andann djúpt til að halda tárunum í skefjum, ég vildi ekki skemma þetta stórkostlega „meiköpp“ sem ég hafði fengið fyrir keppnina.“

„Einn af dómurunum tók eftir mér, sagði mér að ég hefði staðið mig vel og hvatti mig til að halda áfram,“ segir hún. „Ég sá fyrir mér taugalækninn og mundi eftir óbærilegum sársaukanum þegar hann tók í höndina á mér. Munurinn á því augnabliki og því sem ég upplifði þarna var svo gígantískur. Ég man að ég dró andann djúpt til að halda tárunum í skefjum, ég vildi ekki skemma þetta stórkostlega „meiköpp“ sem ég hafði fengið fyrir keppnina,“ segir Ana og skellihlær einu sinni enn. Seinna komst ég að því að þessi dómari sem hafði hvatt mig áfram var líka þjálfari og þar sem ég þekkti ekki marga í þessum geira hafði ég samband við hann sumarið 2016 og bað hann að hjálpa mér að finna rétt mataræði. Hann gekk út frá því að það þýddi að ég vildi halda áfram að keppa og ég var svolítið hrædd við hann svo áður en ég vissi af höfðum við skrifað undir samning. Það var mjög langur samningur; ég bað hann að segja engum að ég væri með sjúkdóm og hann bað mig að ljúga ekki að sér, nota engin lyf, svelta mig ekki, fá mér ekki húðflúr og svo framvegis. Þennan samning höfum við haldið og síðan við gerðum hann höfum við unnið til tuttugu og fimm verðlauna saman. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að vera útnefnd íþróttamaður ársins í félaginu mínu. Dómarar í öllum alþjóðlegum keppnum gáfu mér góða dóma og það gerði það að verkum að nú er ég á alþjóðlegum úrvalslista yfir framúrskarandi vaxtarræktarfólk. Ég get þakkað þjálfaranum mínum og formanni íþróttafélagsins míns að ég hef ferðast um allan heim sem fulltrúi Íslands. Ég er stolt af því að vera íslensk vaxtarræktarkona og ég hef engin áform um að hætta því.“

Ana Markovic
Mynd / Hallur Karlsson

Stoltust af einkaþjálfaragráðunni

Þessi glæsilegi árangur varð til þess að Önu langaði að hjálpa öðrum að uppgötva vaxtarræktina og hjálpa þeim sem ættu við vefjagigt og svefnvandamál að stríða að ná tökum á sjúkdómnum. Hún hefur því stofnað sína eigin líkamsræktarstöð, Sentinel Fitness, og leggur sig í líma við að koma því sem hún hefur lært á framfæri við aðra í sömu sporum. Hvernig kviknaði sú hugmynd?

„Ég get séð það á líkamsástandi þeirra og hörundslit andlitsins hversu mikill vandinn er. Það er svo ótrúlega algengt að fólk glími við svefnvandamál, ég þarf meira að segja stundum að taka sjálfa mig í þjálfun þegar ég leyfi slæmum venjum úr fortíðinni að læðast aftan að mér.“

„Þegar ég var að keppa var alltaf verið að spyrja mig um hvernig ég þjálfaði mig,“ útskýrir Ana. „Ég ber virðingu fyrir þjálfaranum mínum og því sem hann hefur gert fyrir mig svo ég gat ekki uppljóstrað því við aðra hvernig æfingaplanið sem hann gerði fyrir mig er. Ég gat bara bent fólki á að leita til hans og hann réði því svo hvort hann gaf þeim ráðleggingar eða ekki. Ég ákvað hins vegar að læra einkaþjálfun til að skilja betur galdrana á bak við það sem hann gerir. Á þeim tíma var ég orðin nógu hress til að vinna fulla vinnu jafnframt því að keppa og læra. Ég vissi að þjálfunin átti stóran þátt í bata mínum en að mataræðið skipti líka miklu máli. Í náminu jókst virðing mín fyrir útlærðum einkaþjálfurum mjög mikið og ég vissi að ég vildi verða ein af þeim. Ég var að keppa á heimsmeistaramótinu í vaxtarrækt þegar ég fékk tölvupóst um að ég hefði útskrifast sem einkaþjálfari og ég verð að segja að af þeim fjórum prófgráðum sem ég hef er ég stoltust af þessari.

Ég bætti svo við mig námi í meðhöndlun á svefnerfiðleikum því ég hafði átt í svo miklum erfiðleikum með að sofa á meðan ég var með stöðuga verki. Ég skil núna hvers vegna svefntöflurnar hjálpuðu ekkert við þann vanda. Svefnvenjur okkar eru reyndar yfirhöfuð ekki til fyrirmyndar, um það bil þriðja hver manneskja sem kemur í þjálfun til mín sefur hvorki nógu vel né nógu lengi. Ég get séð það á líkamsástandi þeirra og hörundslit andlitsins hversu mikill vandinn er. Það er svo ótrúlega algengt að fólk glími við svefnvandamál, ég þarf meira að segja stundum að taka sjálfa mig í þjálfun þegar ég leyfi slæmum venjum úr fortíðinni að læðast aftan að mér. Framfarirnar eru greinilegar, bæði andlega og líkamlega, þegar svefninn batnar. Íþróttamenn þurfa ekki bara að passa upp á góðan hvíldartíma, heldur er svefninn nauðsynlegur til að losna við fitu svo ekki sé nú minnst á það að ef við erum svefnlaus í lengri tíma erum við í meiri hættu á að lenda í slysum, verða veik, detta í þunglyndi og skaða taugakerfið, bara til að nefna nokkur dæmi.

Þjálfarinn minn og ég skráðum alltaf samviskusamlega niður allt sem líkami minn gekk í gegnum og þegar ég skoðaði þær skráningar marga mánuði aftur í tímann áttaði ég mig á því að ég gæti hjálpað öðrum að takast á við vefjagigt. Þannig varð nafnið á fyrirtækinu mínu til – Sentinel er vörður sem varar við hættum á sama hátt og ónæmiskerfið okkar verndar líkamann og varar hann við. Vefjagigt og liðagigt eru hvort tveggja sjálfsofnæmissjúkdómar.“

Er það einhver sérstakur hópur fólks sem leitar til þín með einkaþjálfun?

Ég tek að mér þjálfun fólks í alls kyns íþróttagreinum, fólk sem hefur mismunandi markmið og stefnu og ég vinn með hverjum og einum á þann hátt sem gagnast honum eða henni best til að ná sínu markmiði. Sérsvið mitt er samt sem áður að hjálpa fólki að ná tökum á lífinu með vefjagigt. Stöðin mín er lítil og hver og einn fær einkatíma sem gerir það að verkum að fólki sem hefur óttast að fara í ræktina vegna þess að því finnst það ekki vera í nógu góðu ásigkomulagi miðað við aðra finnst það vera öruggt hjá mér. Ég fylgist vel með kúnnunum mínum og mörg þeirra hafa náð frábærum árangri sem ég er mjög stolt af. Ein konan sagði mér, til dæmis, að læknirinn hennar hefði trappað hana niður af lyfjunum eftir að hún byrjaði hjá mér og í dag er hún verkjalaus, lyfjalaus, aktífur og hamingjusamur einstaklingur sem gjarnan sendir mér myndir af sér og fjölskyldunni í skíðaferðum eða annarri íþróttaiðkun sem hún gat áður ekki tekið þátt í.“

„Ég hef nú þegar getað hjálpað mörgum til að öðlast sama frelsi og ég upplifi og ég er sannfærð um að ég á eftir að hjálpa mörgum í viðbót.“

Hver verða svo næstu skref hjá þér, bæði persónulega og sem einkaþjálfari?

„Eftir meðmæli frá lækninum mínum stefni ég að því að vinna innan heilbrigðiskerfisins sem einkaþjálfari í samráði við lækna,“ útskýrir Ana. „Ég hef sjálf rekið mig á það hvað virkar og virkar ekki fyrir fólk með þennan sjúkdóm og hef mikinn skilning á því sem fólk með vefjagigt gengur í gegnum, auk þess að hafa upplifað það á eigin skinni hvað þarf að leggja á sig til að komast á þann stað sem ég er á í dag. Ég hef nú þegar getað hjálpað mörgum til að öðlast sama frelsi og ég upplifi og ég er sannfærð um að ég á eftir að hjálpa mörgum í viðbót. Ég er að fara af stað með mánaðarlegan stuðningshóp þar sem þeir sem þjást af vefjagigt geta hist, fengið sér te eða kaffi og deilt reynslu sinni með öðrum í sömu stöðu. Ég hlakka mikið til þess verkefnis og vona að sem flestir vefjagigtarsjúklingar nýti sér þennan möguleika. Að öðru leyti veit ég ekki alveg hvað stendur fyrir dyrum í nánustu framtíð. Ég hef yfirleitt haft allt árið mjög vel skipulagt í kringum keppnir sem ég tek þátt í en 2020 hefur byrjað ansi undarlega og ég veit ekkert hvenær ég mun standa á sviðinu næst. En ég er vel undirbúin og spennt fyrir þeim tíma þegar aftur verður leyfilegt að ferðast.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -