Föstudagur 19. apríl, 2024
6.1 C
Reykjavik

Lét alkann stjórna mér allt of lengi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni:

Þetta byrjaði allt mjög vel og sakleysislega. Ég var að koma úr sjö ára ágætis sambandi, var einstæð með eitt lítið barn í minni eigin íbúð og ágætlega stæð. Barnsfaðir minn var óvirkur alki og hafði verið edrú í nokkur ár þegar við kynntumst. Ég saknaði þess pínulítið að fá mér rauðvín og osta á fallegum kvöldum og bjór við grillið, mig langaði því ekki að ná mér í alka aftur. En þess í stað náði ég mér í bullandi alka – ómeðvitað sem alls ekki var ætlunin.

Líf mitt stjórnaðist af alkanum og hans skapgerðarbrestum, það tók mig nítján löng ár að sjá það og hafa styrkinn til þess að stíga út úr því sambandi. Þegar við kynntumst var ég ekki á leiðinni í samband, hann náði hins vegar að heilla mig upp úr skónum enda mikill sjarmör. Við kynntumst í júní og hann var fluttur inn til mín í september.

Þegar við byrjuðum að deita sagði hann mér að hann ætti þessa fínu íbúð í Laugardalnum, ég kom oft þangað í þessa glæsilega innréttuðu og fallegu íbúð, en í ljós kom að hann átti eiginlega bara fötin sín í poka og leigði þessa íbúð með öllu innbúi. Ég vissi það ekki fyrr en rétt fyrir jólin og ofan á þetta skuldaði hann helling í meðlög og skatta. Fyrir mig sem var með allt mitt á hreinu, var þetta fyrsta sjokkið.

Hann átti þrjú börn fyrir með tveimur konum, önnur mamman vann vaktavinnu og við fengum því börnin til okkar eftir því hvernig hennar vaktir voru og það fannst öllum bara í lagi. Ég fussaði oft og iðulega yfir þessu því það var engin regla, ég þótti þá mjög frek, tillitslaus og stjórnsöm og ótrúlega leiðinleg, en það skal tekið fram og ítrekað að þarna var hann fluttur inn á mig, inn í mína íbúð.

Tveimur árum eftir við byrjum saman fór hann í sína fyrstu meðferð. Við höfðum reynt að tala við prest en maðurinn mætti fullur á bílnum og sagði bara við prestinn að ég væri stórskrítin – ég væri geðveik, en það orð notaði hann svo oft um mig að undir það síðasta var ég farin að trúa því að það væri eitthvað mikið að mér. Hann hélt því fram þarna fyrir framan prestinn að það væri ekkert að honum en hún (presturinn) sagði við mig eftir að hann var farinn að ég væri mun betur sett ein. Mér fannst hún frekar lélegur ráðgjafi, þetta var ekki það sem ég vildi heyra.

Ein í fóstureyðingu

- Auglýsing -

Nokkrum dögum seinna komst ég að því að ég væri ólétt og ákvað að fara í fóstureyðingu því ég sá ekki framtíðina með þessum drykkjuhrút og hann hafði þá látið sig hverfa í nokkrar vikur. Eftir að hafa talað við félagsráðgjafa ákvað ég að fara í þessa aðgerð. Ég reyndi stöðugt að hringja í hann en hann svaraði ekki, sameiginlegur vinur okkar reyndi líka að ná í hann. Ég man þegar vinur okkar hringdi í mig og sagði mér að hann næði ekki í hann, þá lá ég inni á kvennagangi að fara í þessa hræðilegu aðgerð og grét sárum gráti og hef gert alla tíð síðan.

Ég bara gat ekki hugsað mér að eiga framtíð með þessum manni.

Ef ég hefði rætt þetta við einhvern hefði ég líklega ekki látið eyða fóstrinu, ég hins vegar skammaðist mín svo mikið fyrir þessa stöðu og að láta fara svona með mig, ég bara gat ekki hugsað mér að eiga framtíð með þessum manni. Þarna hafði ég tækifæri á að fara frá honum en hann skellti sér í meðferð og ég tók við honum aftur. Síðar eignuðumst við saman tvö börn.

Hann fann sér endalaust verkefni úti á landi og ástæðan var einföld, hann gat þá drukkið í friði. Hann gat haldið sér edrú í nokkrar vikur eða mánuði, en fann svo leið til að komast burtu en það sorglega við þetta allt var að ég vissi aldrei neitt, fyrir mér var hann hættur, ég var svo ótrúlega græn. Drykkju og dópi fylgja oft konur og kvennafar hjá körlum og auðvitað var hann með ótal konum. Ég komst að sumu af hans framhjáhaldi en frétti af öðru löngu síðar.

- Auglýsing -

Við byggðum upp fyrirtæki úti á landi og hann var edrú í tvö ár meðan á því stóð, algjört met. Um leið og opnað var tók hann tappann úr flöskunni og drakk vel það sumarið. Ég kom þangað um helgar allt sumarið eins og sjúkraliði og reyndi að bjarga því sem bjargað varð. Á sama tíma var hann í samskiptum við hinar og þessar konur og var með margar í takinu. Þetta endaði í enn einni meðferðinni en eftir hana leigði hann sér íbúð því ég ætlaði ekki að taka við honum aftur.

Samt vorum við alltaf að hittast, rákum saman þetta fyrirtæki, sváfum saman og gerðum allt saman. Ég vissi hins vegar ekki að í meðferðinni hafði hann hitt konu sem var reyndar gift og þau áttu í sambandi. Ég frétti þetta þegar maðurinn hennar hringdi í mig og krafðist þess að ég borgaði til baka eitthvað sem kona hans hafði borgað fyrir minn mann.

Ný kærasta og hjartaáfall

Þá ákvað ég að stíga skrefið og setti húsið á sölu – það seldist, en allan tímann var hann í brennivíns- og dópmaríneringu en kom þegar við fluttum og hjálpaði okkur að tæma. Hann tók fyrirtækið og ég keypti mér litla íbúð. Hann hjálpaði mér og börnunum að parkettleggja og koma okkur fyrir en var fljótur að drekka frá sér það sem hann fékk í sinn hlut.

Það tók mig langan tíma að komast yfir þetta allt saman og ég veit ekki enn í dag í hvaða sjálfspíningarheimi ég var stödd. Hvernig getur nokkur kona látið fara svona með sig?

Á þessum tíma var ég komin á ystu brún en reyndi hvað ég gat að hlúa að mér og mínum og koma okkur á fæturna aftur.

Eftir sem áður vorum við alltaf saman um jól og áramót. Eitt sinn var ég stödd í Hagkaup þegar ég fékk tölvupóst sem ég las í símanum: „Ég vil byrja nýtt ár með hreint borð og langar því að segja þér að ég og X höfum búið saman síðan í september.“ Ég fékk algjört áfall … þetta voru skilaboð frá konu sem hafði búið með honum í marga mánuði, allir vissu það en enginn sagði neitt við mig! Þetta var á gamlársdag og daginn eftir vorum við búin að bjóða til veislu, ég varð því að halda haus.

Hann fullyrti hins vegar aðspurður að þessi kona væri geðveik. Hún væri bara að vinna fyrir okkur og það væri ekkert á milli þeirra. Skömmu síðar gerði hann hins vegar samband þeirra opinbert. Á þessum tíma var ég komin á ystu brún en reyndi hvað ég gat að hlúa að mér og mínum og koma okkur á fæturna aftur. Þetta hafði gengið allt of lengi og enginn vissi hvort við vorum saman eða ekki, við vissum það varla sjálf – reyndar hafði ég alltaf litið á okkur sem par í fjarbúð því við sváfum saman og hann átti samastað hjá okkur.

Síðan gerðist það í apríl að hann hætti skyndilega að drekka og ég sá mikinn mun á honum.

Hann og þessi nýja fóru að búa og hann byrjaði að biðja mig um hitt og þetta sem hann vantaði. Honum fannst sjálfsagt að koma inn á mitt nýja heimili og taka það sem hann vantaði, stundum langaði mig að drepa hann. Þetta nýja samband hans einkendist af neyslu, hún var að bíða eftir bótum og þau minntu mig á „white trash“-lið. En síðan gerðist það í apríl að hann hætti skyndilega að drekka og ég sá mikinn mun á honum. Hann sagði mér í trúnaði í byrjun maí að hann hafi nánast farið í hjartastopp vegna amfetamínneyslu, sýndi mér myndir af sér á sjúkrabörum en kærastan hafði komið honum til bjargar og hringt í Neyðarlínuna.

Hafði loks styrkinn til að loka

Ég fann að ég var henni þakklát en hugsaði með mér að eftir þetta ætti hann aldrei eftir að byrja að drekka aftur, þetta væri komið. Ég bauð honum því að flytja inn til okkar aftur sem hann gerði á mettíma, auðvitað varð kærastan hans brjáluð, svo brjáluð að hún stal öllu innbúinu hans –  hún þóttist ætla að kaupa það af honum þegar hún fengi bæturnar. Þessi nýja sambúð okkar gekk í eitt ár en þá fór ég í helgarferð með æskuvinkonum mínum. Þegar ég kom heim var hann fallinn. Hann þrætti fyrir það í fyrstu, en ég var orðin eins og hasshundur, ég vissi það á undan honum þegar fallið væri í vændum. Daginn eftir fékk ég SMS: „Kem ekki heim í kvöld“ og hann hefur ekki fengið að koma heim síðan.

Eftir skilnaðinn fannst mér ég hafa verið sjálfselsk í öll þessi ár, ég hafði ekki hugsað um hag barnanna.

Loksins gat ég staðið með sjálfri mér og sagt skilið við hann, eftir öll þessi ár og allt þetta rugl. Ég lít ekki á mig sem heimska konu eða fórnarlamb fyrir að hafa látið fara svona með mig. Ég ætlaði og vildi að þetta gengi. Ég „elskaði“ þennan edrú mann og hann var minn besti vinur. Þegar ég loksins lokaði á hann varð ég að sætta mig við það sem ég hafði misst og það var líklega það erfiðasta. Ég set elskaði innan gæsalappa því eftir á sá ég og veit að þetta var ekki ást, þetta var ákveðin stjórnsemi … ég vildi að þetta gengi upp og að þetta yrði maðurinn minn.

Eftir skilnaðinn fannst mér ég hafa verið sjálfselsk í öll þessi ár, ég hafði ekki hugsað um hag barnanna. Ég óttaðist að þau hefðu orðið fyrir skaða en yngsta barnið þekkir ekkert nema ruglaða fjarbúð foreldra sinna. Sárast er þó þegar hann missir af boðum vegna drykkju missa börnin okkar af þeim líka því mér er ekki boðið til föðurfjölskyldunnar með þeim. Ég hef reynt að hlúa eins vel að þeim undanfarið ár og ég get og held að mér hafi tekist það nokkuð vel.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -