Lífsreynslusaga úr Vikunni
Við systkinin ólumst upp hjá ástríkum foreldrum. Ég var komin á fimmtugsaldurinn þegar ég komst að leyndarmáli sem faðir minn hafði búið yfir í áratugi.
Ég er næstelst í hópi fjögurra systkina. Mamma vann úti hálfan daginn eftir að við vorum öll komin í skóla en pabbi gegndi ábyrgðarmiklu starfi og var nokkuð þekktur, að minnsta kosti innan síns geira. Hann vann mikið, oft langt fram á kvöld en langflestum helgum varði hann með fjölskyldunni. Við fórum í útilegur, niður að Tjörn að gefa öndunum, í ísbíltúra, bíó eða hvaðeina skemmtilegt sem pabba og mömmu datt í hug að bjóða okkur.
Við fengum góða hjálp við heimalærdóminn og mikla og góða hvatningu. Okkur fannst við geta allt. Sem betur fer fengum við líka mátulegan aga og komumst ekki upp með neitt rugl. Öll gengum við menntaveginn, enda var ætlast til þess af okkur frá upphafi.
Yngsta barnið í hópnum, litla systir, veiktist illa þegar ég var á unglingsaldri og ég gleymi ekki hvað pabbi og mamma voru samstiga um að halda utan um hana og hjálpa henni í gegnum veikindin. Þau sýndu okkur hinum líka mikinn stuðning á þessu tímabili og gættu þess að við fengjum að fylgjast með og yrðum ekki afskipt.
Vegna þessa góða sambands foreldra okkar og kærleiksríks fjölskyldulífs, held ég að áfallið við að uppgötva leyndarmál pabba hafi orðið enn meira.
Áfall og uppgötvun
Eftir að systir mín náði bata tók mamma við veikindakeflinu og var slæm til heilsunnar eftir það. Hún var viðkvæm fyrir umgangspestum og nokkrum sinnum lenti hún inni á sjúkrahúsi vegna svæsinnar lungnabólgu. Heilsa hennar versnaði til muna upp úr sextugu og hún neyddist til að hætta að vinna. Henni þótti það hræðilegt til að byrja með en svo uppgötvaði hún töfrana við skáldsögur og hellti sér af alefli út í lestur.
Þau pabbi fengu heimilishjálp vikulega því mamma mátti lítið reyna á sig og pabbi vann mjög langan vinnudag. Hún naut þess að sitja í uppáhaldsstólnum sínum í stofunni við lestur og þegar ég kom í heimsókn sagði hún mér frá því sem hún var að lesa. Pabbi fór vikulega í bókasafnið fyrir hana og á góðum degi komst hún með honum en það gerðist þó ekki oft. Hún var yfirleitt svo máttlítil en komst þó milli herbergja í húsinu.
Það kom öllum á óvart þegar pabbi fékk alvarlegt hjartaáfall og lést í kjölfarið. Hann hafði alla tíð verið heilsuhraustur og ekkert bent til þess að hann væri hjartveikur. Þetta var mikið áfall og þótt við systkinin syrgðum hann mjög einbeittum við okkur að því að halda vel utan um mömmu. Pabbi var eina ástin hennar og hún hafði oft talað um að við yrðum að passa vel upp á hann eftir að hún væri farin, því hún, eins og flestir aðrir, hélt að hann myndi lifa hana.
Við systkinin sáum um öll mál fyrir mömmu, undirbúning útfarar, erfidrykkju og annað. Síðan fórum við í að skoða fjármál hennar og pabba sem hann hafði alla tíð séð um. Okkur til mikillar furðu komumst við að því að pabbi átti litla íbúð og hafði verið eigandi hennar í áratugi. Við gerðum þau mistök að spyrja mömmu út í þetta og hún varð eins og eitt stórt spurningarmerki í framan. Hún hafði ekki haft hugmynd um neitt.
Einn daginn fórum við systkinin með lyklana hans pabba í þeim tilgangi að skoða leyniíbúðina. Við vorum forvitin en jafnframt kvíðin. Var þetta eitthvað ljótt sem pabbi hafði viljað halda leyndu fyrir fjölskyldu sinni?
„Við gerðum þau mistök að spyrja mömmu út í þetta og hún varð eins og eitt stórt spurningarmerki í framan. Hún hafði ekki haft hugmynd um neitt.“
Þetta reyndist vera frekar venjuleg íbúð, búin frekar fáum húsgögnum en þó virtist sem alúð hefði verið lögð í að hafa hana notalega. Þarna voru þó engin blóm, engar ljósmyndir en þó voru skrautmunir og málverk á veggjum sem gerði hana heimilislega. Tvíbreitt rúm var í svefnherberginu og búið um það öðrum megin. Mér létti við það þangað til ég sá að pakki af verjum var í annarri náttborðsskúffunni. Við fundum engar snyrtivörur í baðherberginu, að minnsta kosti engar sem finna mætti á baðherbergi konu, aðeins hreinlætisvörur á borð við tannbursta, tannkrem, sjampó og slíkt. Mögulega hafði konan, ef þetta var þá kona, verið með lykil að íbúðinni og fjarlægt dótið sitt eftir lát pabba. Í skápunum voru nærföt og sokkar og einnig var þar aukasæng, ásamt sængurfötum.
Leyndarmál
Við seldum þessa íbúð ásamt innbúinu og vorum með hálfgert óbragð í munninum. Ekki treystum við okkur til að segja mömmu sannleikann, heldur sögðum henni að pabbi hefði greinilega búið sér til vinnuathvarf þarna, greinilega til að fá algjöran frið sem hann hefði hvorki fengið í vinnunni né heima. Í íbúðinni hefði verið skrifborð sem hann hafði unnið við, einnig sófi og stólar, ásamt kaffikönnu í eldhúsinu.
Mömmu fannst þetta allt mjög skrítið en trúði lygum okkar systkinanna. Hún vildi að við fengjum andvirði íbúðarinnar og skiptum því á milli okkar því hún ætti nóg af öllu. Frekar vildi hún að við nytum peninganna en að þeir væru geymdir í bankanum, engum til gagns og gleði.
Án þess að mamma vissi gáfum við féð, skiptum því á milli nokkurra góðgerðafélaga. Ekkert okkar hafði lyst á peningunum, við höfðum það öll ágætt í lífinu og þurftum ekki á þeim að halda, að minnsta kosti ekki þessum peningum. Kannski kjánaleg viðkvæmni, ég veit það ekki, en okkur létti mjög þegar við vorum laus við þessa íbúð og peningana fyrir hana. Önnur systir mín er gift lögmanni sem sá um allt fyrir okkur.
Pabbi hafði keypt íbúðina löngu áður en mamma varð sjúklingur, svo ekki voru það veikindi hennar sem fengu hann hugsanlega til þess að leita annað. Yngsta systkinið var ekki einu sinni fætt þegar hann festi kaup á henni.
Rólegur nágranni
Ekki tókst okkur að komast að því hvern eða hverja pabbi hitti í þessari íbúð. Áður en við seldum hana talaði ég við fólkið á efri hæðinni ef vera kynni að það langaði til að kaupa hana. Ég þurfti voða lítið að spyrja, ég fékk bara endalaust hrós um „ættingja“ minn á neðri hæðinni. Það hefði aldrei verið hávaði, meira eins og enginn byggi þar. Þau könnuðust bara við að hafa séð manninum, pabba, bregða fyrir þegar ég spurði hvort það hefði verið mikill gestagangur. Þannig að gestur eða kannski gestir pabba hafa ekki látið fara mikið fyrir sér þegar þeir komu til hans.
Í jarðarförinni vissum við ekkert um leyniíbúðina, annars hefðum við eflaust reynt að horfa betur á fólkið sem kom í kirkjuna.
Á endanum ákváðum við systkinin að hætta að hugsa um þetta eða reyna að finna út úr því.
Mamma er enn á lífi þrátt fyrir lélega heilsu og komin á yndislegt dvalarheimili þar sem hún hefur eignast góða vini. Hún saknar alltaf pabba, stóru ástarinnar sinnar, og gerir eflaust til dauðadags. Það kemur ekki til greina að segja nokkuð sem skyggir á minningar hennar um hann. Við systkinin og makar okkar erum eina fólkið í fjölskyldunni sem vitum af þessu því við sögðum börnunum okkar ekki frá uppgötvun okkar. Þau vissu af íbúðinni en fengu sömu skýringu og mamma.
Það kemur vissulega stöku sinnum fyrir að mig langar að vita meira. Var pabbi óhamingjusamur í hjónabandinu án þess að nokkur vissi? Samband hans og mömmu virtist svo ástríkt. Þau rifust aldrei svo að ég vissi til, kysstust bless á morgnana þegar hann fór til vinnu, og föðmuðu hvort annað oft upp úr þurru. Algjört traust virtist ríkja á milli þeirra og þau voru okkur börnum sínum góð fyrirmynd um hvernig gott hjónaband ætti að vera. Ég verð að lifa með því að fá líklega aldrei að vita allan sannleikann.