Þessar frægu fegurðardísir eru flestar þekktar fyrir heilbrigðan lífsstíl og luma á nokkrum góðum ráðum fyrir okkur þessar dauðlegu.
Gwyneth Paltrow er dugleg við að útbúa hollustusnarl fyrir sjálfa sig og börnin og þegar sykurþörfin gerir vart við sig. Hún og krakkarnir fíla selleríbáta með léttrjómaosti og smoothie með frosnum vínberjum og jarðarberjum. Namm!
Idol-sigurvegarinn Carrie Underwood hefur alltaf verið grönn en hún fór samt úr stærð 6 yfir í stærð 2 og þakkar árangurinn því að hún sleppir aldrei morgunverði. Hún er þekkt fyrir að fá sér próteinstykki til að narta í á morgnana. Carrie segist aldrei hafa farið í svokallaða megrun en segir litlu hlutina skipta miklu máli, hún sleppir margarítum og kokteilum og fær sér frekar grænt te í stað sykraðra drykkja og heilkornabrauð í stað hvíta brauðsins.
Konur á fimmtugsaldri eru líklegri til að falla fyrir kolvetnisríkum mat vegna minnkandi kvenhormóna í líkamanum. Sykurþörfin getur þó látið á sér kræla hvenær sem er og því er gott að fara að ráðum Demi Moore og dýfa eplabitum í hnetusmjör, það ætti ekki að eyðileggja heilbrigða matarplanið!
Sharon Stone lítur óneitanlega vel út komin á sjötugsaldur. Hún fær sér í snarl sveskjur sem innihalda E-vítamín sem hún segir hægja á hrukkumyndun, koma í veg fyrir uppþembdan maga og auka brennslu.
Kate Hudson fékk að heyra það í fjölmiðlum vestanhafs þegar hún þyngdist á meðgöngu. Hún léttist með því að borða hollustu og með fjölbreyttri hreyfingu og segist hafa nóg annað að gera en að hafa áhyggjur af því sem slúðurpressan skrifi um sig. Hún borðar mikið sushi og lífræna fæðu. Flott fyrirmynd!
Jennifer Garner sést oft versla á bændamarkaði í Santa Monica þar sem einungis ferskur matur er seldur. Hún tók sér góðan tíma í að missa kílóin sem fylgdu meðgöngu. Hún segist hafa ákveðið að taka pressuna af sjálfri sér en það tók hana sex mánuði að komast í sína gömlu stærð aftur eftir barnsburð. Jennifer segist hafa vaknað einn daginn og ákveðið að hætta að háma í sig beyglur, croissant og vöfflur. Próteinríkt salat varð partur af prógrammi hennar aftur eftir ágætishlé. Hún leyfir sér þó smávegis súkkulaði á hverjum degi og mælir ekki með því að fólk fari út í öfgar. Jennifer vill ekki vera mamman sem er búin á því og borðar ekkert. Gott hjá Jennifer!
Rihanna segir að allt snúist þetta nú um hollan lífsstíl. Henni líði betur ef hún borði hollan mat og mæti í ræktina. Það gengur betur að losna við aukakíló ef maður hugsar út frá hollustu frekar en í kílóafjölda eða með stífri „megrun“. Mataræði hennar samanstendur af miklu grænmeti og eggjahvítum og hún borðar ávexti á milli mála og drekkur mikið af vatni. Hún hefur líka sagt að gott sé að fá sér ananas í morgunmat. Rihanna segir að kolvetni séu óvinurinn!
Goðsögnin Meryl Streep viðurkennir að hafa þurft að losna við nokkur kíló áður en hún tók að sér hlutverk í kvikmyndinni The Devil Wears Prada, enda hátískuhúsin þekkt fyrir að bjóða upp á litlar stærðir. Hún segist hafa þurft að neita sér um fleiri en eitt vínglas. Meryl er allaf flottust, sama í hvaða stærð hún er!