Þriðjudagur 24. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Lilja landar samningi í London: „Þetta er auðvitað frábært“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Rithöfundurinnn Lilja Sigurðardóttir hefur gert útgáfusamning við forlagið Orenda Books um útgáfu á bókum hennar Helköld sól og Blóðrauður sjór í Bretlandi. Hún segist eðlilega vera í skýjunum.

„Þetta er auðvitað frábært, því það að bók skuli vera seld yfir í enska málheiminn þýðir yfirleitt að fleiri tungumál fylgja. Það er svolítið lykill að því að önnur erlend forlög geti látið lesa söguna fyrir sig,“ segir Lilja um tíðindin.

Blóðrauður sjór, sem er áttunda bók Lilju og sjálfstætt framhald bókarinnar Helköld sól sem kom út í fyrra, hefur fengið góða dóma. Höfundurinn neitar því ekki að það sé ákveðinn léttir að verkinu skuli vera vel tekið. „Það er rosalega gott pepp að fá góða dóma í byrjun vertíðar,“ játar hún. „Það skiptir máli upp á söluna og það er líka ákveðinn léttir. Maður hugsar: Ókei, þetta er þá í góðu lagi. Stundum er maður nefnilega svo blindur sjálfur á eigin verk að maður hefur einhvern veginn engar forsendur til að meta það sjálfur hvort þau séu góð eða ekki. Jafnvel þótt ritstjóri og aðrir í kringum mann, sem hafa lesið þau, segi það.“

„Það eru náttúrlega mikil forréttindi fyrir íslenskan höfund að geta stækkað lesendahópinn sinn með því að ná til erlendra lesenda.“

Lilja segist þó sjálf telja, eða vona að minnsta kosti, að sagan sé skemmtileg, en hugmyndin hafi kviknað út frá norska Hagen-málinu þar sem kona milljarðamærings hvarf af heimili sínu og krafist var lausnargjalds. „Það mál veitti mér ákveðinn innblástur. Mér fannst eitthvað spennandi við að heimfæra það upp á íslenskan veruleika og velta fyrir mér hvernig svona mál gæti litið út hér og hvernig lögreglan brygðist eiginlega við þar sem mannrán eru ekki algeng á Íslandi og lögreglan hefur því lítið fengist við þess konar mál hérlendis. En að öðru leyti er bókin ekki byggð á þessu Hagen-máli. Hún fer allt aðrar leiðir og svo vakna alls konar spurningar og grunsemdir líka, en það er ekki endilega allt sem sýnist.“

Gefin út í Mið-Austurlöndum

Blóðrauður sjór og Helköld sól eru langt í frá fyrstu bækur Lilju sem koma út erlendis. Sem dæmi hafa fjórar bækur eftir hana þegar verið gefnar út á ensku. En hvað ætli sé eiginlega búið að gefa bækurnar hennar út í mörgum löndum, veit hún það? „Það er kannski auðveldara að svara því hvað bækurnar mínar hafa verið þýddar á mörg tungumál heldur en að telja upp löndin,“ svarar hún, „því bækurnar mínar hafa verið gefnar út á tungumálum eins og ensku, frönsku og arabísku og enska málsvæðið telur mörg lönd og franska og arabíska líka. Þannig að ég er ekki alveg með þá tölu á hreinu en ég held að í ár séu tungumálin sem bækurnar mínar hafa verið þýddar á orðin tuttugu talsins.“

- Auglýsing -

Skrítið að geta ekki fylgt bókinni eftir

Spurð hvort það sé ekkert leiðinlegt að geta ekki fylgt bókunum eftir erlendis vegna áhrifa COVID-19, segir Lilja að það hafi verið haldið rafrænt útgáfuhóf fyrir bókina hennar, Svik (Betrayal), í Bretlandi og hún játar að sér hafi þótt það svolítið skrítið. „Þetta ástand er kannski sérstaklega leiðinlegt fyrir nýja höfunda sem þurfa á kynningunni að halda. Sjálf ferðaðist ég til útlanda fjórtán sinnum á síðasta ári til að kynna verkin mín og ég fann núna þegar COVID brast á að það var kannski bara ágætt að fá smávegis ró, þótt ég sé nú alls ekki að kvarta,“ tekur hún fram. „Þessi veira er auðvitað hræðileg en ástandið hefur samt sem áður kennt manni að það er hægt að nota fjarskipti meira. Maður þarf ekki að ferðast svona mikið.“

Forréttindi að vera vinsæll rithöfundur

- Auglýsing -

Annars segist Lilja reyna að einblína frekar á þá jákvæða eins og þá staðreynd að það sé áhugi á bókunum hennar úti í heimi. „Það eru náttúrlega mikil forréttindi fyrir íslenskan höfund að geta stækkað lesendahópinn sinn með því að ná til erlendra lesenda. Þegar maður skrifar á svona „míní-máli“ er mjög gaman að geta náð til fleiri. Það gerir manni kleift að vera rithöfundur í fullu starfi og það er auðvitað frábært,“ segir hún glöð.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -