Föstudagur 27. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Lykillinn að góðum rakstri

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Rakstur er mikilvægur þáttur í húðumhirðu karla. Hér eru nokkur góð ráð.

Mjúkt skegg tryggir betri rakstur
Lykillinn að góðum rakstri er að tryggja það að skeggið sé vel blautt áður en hafist er handa. Þurrt skegg er nefnilega mun harðara sem gerir það að verkum að raksturinn er erfiðari og rakvélarblöðin slitna fyrr. Best er að skella sér í heita sturtu og raka sig svo eftir hana, en ef ekki gefst tími til að fara í sturtu er gott að setja vel heitan og rakan þvottapoka á andlitið í um það bil tvær mínútur fyrir raksturinn. Þetta mýkir skeggið, ásamt því að örva og opna húðina, þannig að raksturinn verður léttari og útkoman betri.

Sápa og bursti
Notið raksápu sem inniheldur mikið af rakagefandi og smyrjandi efnum, til dæmis glyseríni og silíkoni, eða góðan anditshreinsi sem freyðir vel. Gæðaraksápur mynda þykka og mjúka froðu án aðstoðar freyðiefna á borð við súlföt sem geta þurrkað húðina. Ef tími gefst er gott að leyfa raksápunni að vera um stund á húðinni áður en raksturinn hefst svo skeggið verði eins mjúkt og mögulegt er. Þótt sumar raksápur megi hæglega bera á með fingrunum jafnast ekkert á við að nota góðan rakbursta, eins og alvörurakarar nota, því hann ýfir skegghárin þannig að raksturinn verður enn fínni en annars.

Vertu með, ekki á móti
Við raksturinn er mikilvægt að nota góða rakvél, hvort sem um ræðir rafmagnsrakvél eða sköfu. Sköfu á alltaf að renna létt yfir hörundið, ekki þrýsta fast að, og strekkja vel á húðinni á meðan. Mikilvægt er að hreinsa rakvélarblaðið oft og vel meðan á rakstrinum stendur, svo að ekki safnist hár á milli blaðanna. Ef sápan þornar þarf aðeins að nota meira vatn og vinna froðuna aftur upp með burstanum, ekki nota meiri sápu. Það á alltaf að raka í sömu stefnu og skeggið vex, aldrei á móti. Að raka á móti skeggvextinum getur valdið sviða og inngrónum hárum í andliti ásamt því að auka líkurnar á því að maður skeri sig við raksturinn. Til að tryggja góðan rakstur getur verið gott að setja aftur á sig raksápu og raka aðra umferð en þá þvert á skeggvöxtinn, en varast samt ofrakstur.

Eftir rakstur og sótthreinsun
Meðferð eftir raksturinn er ekki síður mikilvæg og undirbúningurinn. Strax að loknum rakstri er gott að skvetta dálitlu köldu vatni á andlitið til loka húðinni aftur. Margir klikka oft á því, bera strax á sig rakspíra og uppskera mikinn sviða. En það er ekki fyrr en að húðinni hefur verið lokað á þennan hátt sem á að bera á sig rakspíra, helst einhvern sem inniheldur lítið sem ekkert alkóhól, eða rakakrem (after shave balm) til sótthreinsunar og mýkingar.

Viðhald á tækjum og tólum
Eftir hverja notkun þarf að hreinsa bæði burstann og rakvélina. Hristið vatn úr burstanum, ekki vinda hann, og geymið hann hangandi svo hárin vísi niður, en það kemur í veg fyrir að raki safnist fyrir og valdi hárlosi. Bitlaust eða skítugt blað er ein meginástæðan fyrir óþægilegum rakstri og skurðum. Rakvélarbrýni, eins og Razorpit, geta þá komið að góðum notum og gera manni kleift að spara í kaupum á rakvélarblöðum. Það eykur notkun hvers rakvélarblaðs frá tíu rökstrum upp í allt að hundrað rakstra að hreinsa það og brýna svo að það verði hárbeitt á ný.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -