Drottningin á Júpíter er fyrsta skáldsaga Júlíu Margrétar Einarsdóttur en hún segist alltaf hafa vitað að hún myndi leggja skriftir fyrir sig, enda skáldablóðið sterkt í fjölskyldunni.
Júlía er nýkomin heim eftir tveggja ára dvöl í Bandaríkjunum þar sem hún lærði handritaskrif, fyrst í New York og síðan í Los Angeles. Skáldsagan sem hún hafði skrifað sem mastersverkefni í ritlist við Háskóla Íslands lét hana þó ekki í friði og á endanum gafst hún upp fyrir ásókninni og ákvað að gefa bókina út til að losna við hana úr heilabúinu. Söguhetjan Elenóra Margrét Lísudóttir er þó engan veginn byggð á reynslu höfundarins, að sögn Júlíu, þótt vissulega eigi þær ýmislegt sameiginlegt, til dæmis það að stunda næturlífið með bækistöðvar á Bravó við Laugaveg og Júlía hefur látið hafa eftir sér í viðtölum að sirkusinn, sem leikur stórt hlutverk í sögunni, sé að vissu leyti tákn fyrir næturlífið í Reykjavík.
„Það er reyndar dálítið mikil einföldun,“ segir Júlía. „En það er einn vinkillinn á söguna. Ég var óskaplega lengi með þessa bók í vinnslu og alltaf að auka flækjustigið. Upprunalega hugmyndin var að vinna með sirkus, því mér finnst það svo heillandi heimur, en eftir því sem ég vann söguna meira víkkaði sjónarhornið og áherslurnar breyttust.“
Júlía segir upplifanir af næturlífinu hafa verið henni hugleiknar lengi og vakið hana til umhugsunar um það hvað sé í rauninni veruleiki.
„Þegar maður situr á skemmtistað eftir klukkan þrjú á nóttunni fer einhver sturlun í gang og maður verður algjörlega samdauna henni,“ segir hún. „Allir verða ógeðslega klikkaðir og það gilda einhver allt önnur lögmál heldur en annars staðar á öðrum tíma. Nóttin og myrkrið hafa líka ótrúlega mikil áhrif á alla skynjun og upplifun manns af heiminum. Daginn eftir ertu svo liggjandi inni í herberginu þínu á þriðjudegi og það er einhver að steikja fiskibollur í eldhúsinu og þú hugsar bara um að borga reikningana þína. Þú ert ennþá í sama heimi en samt eru þessar tvær upplifanir algjörlega hvor úr sinni áttinni. Það finnst mér ótrúlega áhugavert aspekt af tilverunni og það er það sem ég er að reyna að koma til skila í sögunni.“
Júlía er dóttir Einars Kárasonar rithöfundar, sem einnig er með skáldsögu á jólamarkaðnum, og ekki nóg með það heldur er Kamilla systir hennar líka að senda frá sér skáldsögu þessa dagana. Lá það alltaf fyrir að þær systur myndu feta í fótspor föður síns og verða rithöfundar?
„Neeeei,“ segir Júlía hugsi. „En það kom mér ekkert á óvart að Kamilla væri að skrifa bók og það kæmi mér heldur ekkert á óvart ef mamma eða hinar systur mínar færu að skrifa líka. Mamma er til dæmis brjálæðislega góður sögumaður og gæti svo sannarlega skrifað góða bók.“
Ritlistarnámið ýtti Júlíu endanlega út á rithöfundabrautina og hún er komin heim til að skrifa og hér ætlar hún að vera eitthvað áfram, nema eitthvað óvænt gerist.
„Í augnablikinu leyfi ég mér ekki að taka neinar drastískar ákvarðanir,“ segir hún. „En í bili er það planið að vera hér heima allavega í vetur. Bókin gekk miklu betur en ég hafði leyft mér að vona og svakalega mikil vinna í kringum kynningar og upplestra úr henni fram að jólum. Eftir áramótin get ég svo bara leyft mér að fara í fæðingarþunglyndið sem alltaf fylgir fæðingu bókar og ég hlakka mikið til þess. Eftir það er óskaplega margt sem mig langar til að gera hérna heima. Ég finn allavega að hér á ég eitthvað ógert. Ég er ekki búin með Íslandskaflann enn þá, en um leið og ég finn að honum er lokið fer ég eitthvað annað. Ég er byrjuð á næstu skáldsögu, mjög spennt fyrir að kynnast nýjum karakterum og nýjum heimum og leyfa þeim að leiða mig þangað sem þeir vilja. Svo kemur framhaldið bara í ljós í fyllingu tímans.“
Ýtarlegra viðtal við Júlíu Margréti má lesa í kökublaði Vikunnar.
Myndir / Unnur Magna