Fimmtudagur 24. október, 2024
4.3 C
Reykjavik

Mamma spillti sambandi okkar systra

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Við vorum bara tvær systurnar. Agnes þremur árum yngri en ég. Mamma hélt því fram að ég hefði verið afbrýðisöm út í systur mína alveg frá því að hún fæddist. Ég vil hins vegar ekki kannast við að hafa nokkru sinni fundið fyrir öfund í garð hennar en viðbrögð mömmu ýttu ævinlega undir samkeppni og reiði milli okkar.

Við systurnar vorum aldrei nánar. Hún átti sína vini og ég mína. Áhugamálin voru gerólík. Ég var á kafi í alls konar listum en hún var íþróttastelpa. Vildi helst alltaf vera að sparka bolta eða klifra upp um fjöll. Ég á hinn bóginn var síteiknandi og skrifandi. Bjó til sögur, leikrit og ljóð sem við vinkonurnar settum upp í kjallaranum heima og seldum aðgang að. Ég var svolítið dramatísk og draumlyndur krakki og orti rómantísk ljóð.

Agnesi fannst þetta frámunalega hallærislegt og gerði stólpagrín að mér. Einhvern tíma komst hún í dagbókina mína og dreifði ljóðunum mínum um allt í skólanum. Hún og vinkonur hennar gengu hart fram í að hæða mig og spotta en til allrar lukku fyrir mig var ég vinsæl meðal jafnaldra minna og þeir þekktu vel hugsanahátt minn svo þetta einelti varð minna en hefði getað orðið.

Alltaf jafnar

Hjá Agnes og vinkonum hennar snerist allt um keppni. Hún var mjög metnaðarfull og keppnisskapið hljóp stundum með hana í gönur. Hún keppti í öllu. Þannig fékk hún mig einu sinni til að skrifa texta á blað og fór með fram til mömmu og spurði hvor okkar skrifaði betur. Mamma sagði auðvitað að bæði væri jafngott og þá kom Agnes sigri hrósandi inn í herbergið mitt og sagði að það þýddi að hún hefði fallegri rithönd en ég því hún væri yngri. Mér sárnaði þetta og fór fram og spurði mömmu hvort henni væri virkilega alvara, því augljóslega voru mínir stafir betur formaðir en Agnesar. Hún svarðaði því sama.

Þegar ég var tólf ára ákvað ég að safna  hári. Þegar það var orðið axlasítt kom Agnes að mér að greiða mér fyrir framan spegilinn. Ég sagði eitthvað á þá leið að mér fyndist þetta ganga vel. Það þoldi hún ekki svo hún hvæsti á mig að þetta gengi nákvæmlega ekki neitt því hárið á mér væri styttra en hennar sem væri alls ekki að safna og hefði nýlega farið í klippingu. Þetta var fáránleg fullyrðing því hárið á mér var minnst 5 cm síðara en hennar og ég hló bara.

- Auglýsing -

Agnes stormaði þá fram til mömmu og spurði hvor okkar væri með síðara hár. „Þið eruð með jafnsítt hár,“ svaraði mamma. Ég trompaðist og spurði hana hvað væri eiginlega að henni. Hvort hún héldi virkilega að það væri gott fyrir systur mína að alst alast upp við veruleikafirringu. Mamma hellti sér þá yfir mig og hundskammaði mig fyrir að þessa eilífu afbrýðisemi og samanburð við systur mína. Ég reyndi að benda á að það væri ekki ég sem ætti frumkvæðið af honum heldur Agnes. Mamma sagðist þá ekki taka þátt í þessu. Hún ætlaði ekki að bera okkur saman.

Réttlæti og sanngirni

Ég reyndi að benda á að Agnes hefði sína kosti og ég mína. Ég vildi bara fá að eiga það sem ég ætti í friði og fá viðurkenningu á því. Annað mætti Agnes gjarnan fá að hafa. Það væri ekki gott fyrir okkur að halda fram að við stæðum jafnfætis á öllum sviðum þegar það væri alls ekki svo. Ég vildi fá sanngirni og réttlæti og hún sem fullorðin manneskja, yfirvaldið á okkar heimili og mamma okkar gæti útdeilt því. Þessu svaraði mamma ekki og rak mig út.

 „Mamma og pabbi voru alveg öskureið þegar það gerðist og kenndu mér um. Ég reyndi að afsaka mig með því að eilíft suð og stríðni Agnesar gæti enginn þolað þegjandi að eilífu en þá hreytti mamma því í mig að ég væri eldri og mér bæri að vægja.“

- Auglýsing -

Agnes var góður námsmaður og gekk alltaf vel í skóla. Hún var ævinlega hæst í sínum bekk og þótt mér gengi ágætlega og væri í hópi bestu nemenda var ég aldrei meðal fimm efstu. Ég varð oftast sjöunda til tíunda í röðinni. Agnes hreykti sér af þessu og minnti mig reglulega á að henni gengi miklu betur en mér. Það fór ofboðslega í taugarnar á henni að mér var alveg sama. Ég hló bara þegar hún talaði um þetta og sagði að ég væri virkilega hreykin af henni.

Margt fleira smálegt kom upp á meðan við vorum börn og ég fékk að heyra að hún væri smekklegri ég, vinsælli, skynsamari, rökfastari og fleira og fleira. Stundum gat ég leitt þetta hjá mér en það kom líka fyrir að tuðið náði til mín og ég missti stjórn á mér. Það endaði í öskrum, látum og slagsmálum. Mamma og pabbi voru alveg öskureið þegar það gerðist og kenndu mér um. Ég reyndi að afsaka mig með því að eilíft suð og stríðni Agnesar gæti enginn þolað þegjandi að eilífu en þá hreytti mamma því í mig að ég væri eldri og mér bæri að vægja. Sá vægði er vitið hefði meira.

Einangruð og sár

Með þessum orðum fannst mér mamma taka afgerandi afstöðu með systur minni gegn mér. Þess vegna fannst mér ég vera einangruð og utangarðs á heimilinu, ekki tilheyra þessari fjölskyldu. Sú tilfinning magnaðist þegar ég varð unglingur. Agnes var enn barn og tilraunir mínar til að mála mig, klæðast skvísufötum og gera mig fína voru hlægilegar að hennar mati og hún naut þess að gera lítið úr mér og stríða mér. Einhvern tíma varð hún reið við mig út af einhverju og eyðilagði allar snyrtivörurnar mínar. Ég varð brjáluð og klagaði í mömmu sem eins og venjulega tók afstöðu með Agnesi. Hún sagði mér að ef ég væri ekki alltaf svona vond við litlu systur mína væri hún betri við mig.

Ég var sannfærð um að Agnes væri uppáhaldsbarnið og ég kolbíturinn. Þannig upplifði ég mig alltaf en eftir að ég varð fullorðin hef ég farið að líta þetta öðrum augum. Ég held að mamma hafi einfaldlega ekki vitað betur, að hún hafi raunverulega haldið að með því að halda alltaf fram að við stæðum jafnfætis og taka aldrei afstöðu þegar við rifumst væri hún að sýna að henni þætti jafnvænt um okkur báðar. En vegna þess að þetta var ekki rétt og alls ekki sanngjarnt á nokkurn hátt var ekki hægt að komast hjá því að skynja aðgerðir hennar sem mismunun. Ég túlkaði hana þannig að hún væri Agnesi í vil og að vissu leyti var hún það því hún var yngri. Mamma var að varði hana frekar og áleit að ég, sú eldri ætti að skilja það.

 „Ég var sannfærð um að Agnes væri uppáhaldsbarnið og ég kolbíturinn. Þannig upplifði ég mig alltaf en eftir að ég varð fullorðin hef ég farið að líta þetta öðrum augum.“

Vandinn var hins vegar sá að ég var líka barn, þurfti stuðning, hrós og finnast ég metin að verðleikum. Þessi leiðinlega samkeppni Agnesar gerði það að verkum að ég fékk ekki færi á því og bast fjölskyldu minni aldrei sterkum böndum. Ég átti mjög góðar vinkonur og eignaðist athvarf heima hjá einni þeirra. Þar leið mér vel og mamma hennar varð í raun sá stuðningur sem ég þráði. Hún hrósaði mér stöðugt og virtist hafa óbilandi trú á mér. Án hennar hefði ég aldrei þorað að fara í listaskóla og aldrei náð að þroska mína hæfileika.

Eftir að við Agnes urðum fullorðnar dró úr samkeppninni og samanburðinum. Ég flutti ung að heiman og fór mjög ólíka leið í mínu lífi. Við erum ágætar vinkonur í dag þótt af og til slettist upp á vinskapinn. Það gerist mest vegna þess að við erum svo ofboðslega ólíkar. Mamma hefur hins vegar aldrei viljað viðurkenna að hún hafi gert mistök hvað mig varðaði og gert það að verkum að ég fjarlægðist hana. Hún heldur enn fram að afbrýðisemi mín í garð systur minnar hafi verið undirrót ósamkomulagsins okkar í milli. Ég veit hins vegar að ég hef aldrei öfundað Agnesi, aldrei langað að líkjast henni heldur eiginlega þvert á móti. Ég þráði ástúð og viðurkenningu mömmu þegar ég var lítil og finnst að hana hafi ég aldrei fengið.

Spennandi lífsreynslusögur er að finna í hverri Viku. Tryggðu þér eintak í næstu verslun eða áskrift hér á vefnum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Elsta tímarit landsins um daglegt líf, tísku, menningu, mat og lífsstíl.

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu vikuleg tölublöð á 832 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 1.795 kr.

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -