Margrét Erla Maack, fjöllistakona og framkvæmdastjóri Reykjavík Kabarett, rifjar upp verstu jól ævi sinnar.
„Mamma mín, jólapúkinn, ákvað að það væri rosalega fyndið að setja pakka undir tréð sem átti að vera frá manninum sem ég var skotin í. Og hún leiðrétti það ekki fyrr en um klukkan tvö um nóttina, þegar ég var að sjálfsögðu búin að segja öllum vinum frá. Sem betur fer var ég ekki búin að senda neitt á þennan mann. Jahérna,“ segir Margrét Erla, þegar hún er beðin að rifja upp verstu jól ævi sinnar.
Hún segir að þetta hafi verið vondur stingur í hjartað. „Að hann hefði svo ekkert gefið mér og að mamma mín væri svona mikið kvikindi. Í dag finnst mér þetta óborganlega fyndið, en verst er að ég hef ekki enn þá náð að hefna mín, núna, held ég, tíu árum síðar. Allar hugmyndir vel þegnar,“ segir hún og kímir.
„Allt fór vel að lokum og í endurliti er þetta frábær jólasaga sem er rifjuð upp hver einustu jól. Og amma sagði: „Þú ert ekki reið við mömmu þína, heldur við hann fyrir að hafa ekkert gefið þér“.“
„Dróstu einhvern lærdóm af þessu?“ getur blaðamaður ekki stillt sig um að spyrja og brosir út í annað munnvikið. „Að vera á varðbergi gagnvart móður minni, sérstaklega í leyndarmálamánuði.“