Lífsreynslusaga úr Vikunni:
Ég var alltaf hrædd við móður mína, hún var nánast stöðugt í brjáluðu skapi sem hún lét bitna á allri fjölskyldunni. Ég var að verða fertug þegar ég loks komst að ástæðunni fyrir því.
Stutt er á milli okkar systkinanna, Sigga systir er elst, ég í miðið og Gunni bróðir yngstur. Við munum eftir mömmu sífellt pirraðri og jafnvel takandi æðisköst. Lengi vel, eftir að ég varð fullorðin, var ég viss um að eitthvað alvarlegt amaði að henni, þetta var svo yfirgengilegt. Við systkinin urðum meistarar í því að reyna að halda mömmu góðri en þráðurinn var samt svo stuttur hjá henni að hún gat fuðrað upp við minnsta atvik.
Mamma hugsaði vel um heimilið, við vorum alltaf hrein og fín systkinin og út á við vorum við eflaust hin fullkomna fjölskylda.
Við Sigga systir vorum fáránlega ungar þegar við vorum látnar hjálpa til á heimilinu, ryksuga, þrífa og slíkt. Bróðir okkar slapp nánast alveg en þannig var það bara á þessum tíma. Mér finnst sjálfsagt að börn hjálpi til en þetta var óeðlilega mikið. Jólin voru alltaf algjör martröð, eða desembermánuður i aðdraganda jólanna, og þegar ég hugsa aftur, man ég bara eftir okkur Siggu á hnjánum með bursta og ræstiduft að hamast á ósýnilegum blettum um húsið og strangt augnaráð mömmu sem fylgdi okkur.
Þrifin urðu auðveldari eftir því sem við eltumst og gagnrýni mömmu á vinnubrögð okkar minnkaði aðeins. Þótt við værum fljótari að þrífa sluppum við ekkert betur, mamma fann bara fleiri verkefni; við að skrúbba bílskúrsgólfið og annað slíkt. Desember skyldi vera martröð …
Kósí í kjallaranum
Við bjuggum í einbýlishúsi og góður kjallari var undir því. Þar útbjó pabbi stórt en kósí herbergi handa okkur, með gömlum sófa og stólum og auðvitað hljómflutningsgræjum. Mamma var fegin að losna við okkur niður en við vorum enn fegnari … Svo fengum við leyfi til að flytja okkur alveg þangað niður, fyrst Sigga og ári seinna ég. Í fyrsta sinn fengum við að bjóða vinum og skólafélögum í heimsókn en mamma hafði aldrei viljað sjá vini okkar á heimilinu. Hún kom þó reglulega niður til að fylgjast með okkur og athuga hvort væri ekki allt hreint og fínt.
„Við systkinin urðum meistarar í því að reyna að halda mömmu góðri en þráðurinn var samt svo stuttur hjá henni að hún gat fuðrað upp við minnsta atvik.“
Eins og mörg ungmenni leyndum við foreldra okkar því þegar við fórum að smakka vín og skjóta okkur í strákum. Við fundum góða felustaði fyrir bæði vín og tóbak en við reyktum báðar á þessum tíma … út um kjallaragluggann sem var einnig notaður sem flóttaleið fyrir vini okkar ef heyrðist í mömmu. Reykelsi voru mikið í tísku á þessum tíma, ilmurinn af þeim kæfði alla tóbakslykt. Ef mamma hnusaði og fann skrítna lykt sögðum við það reykelsi sem ilmaði undarlega.
Rekin að heiman
Sigga systir var ekki nema 17 ára þegar hún flutti að heiman en á þessum árum urðu krakkar sjálfráða 16 ára. Hún var í menntaskóla og vann með skólanum. Hún leigði fyrst herbergi en seinna rúmgóða íbúð með vinkonu sinni.
Ég var orðin rúmlega 16 ára þegar ég sofnaði á vaktinni og mamma kom niður. Hún trylltist þegar hún sá að ég hafði leyft vini mínum að gista og auk þess var á sófaborðinu skál full af sígarettustubbum. Hún rak mig að heiman, eflaust til að hræða mig en ég fór og kom aldrei aftur heim til að búa þar. Ég flutti til Siggu og vinkonu hennar og leið ótrúlega vel hjá þeim. Mamma reyndi að fá mig til að koma aftur, ég væri allt of ung til að standa á eigin fótum, en ég hafði kjark til að neita því. Átján ára kynntist ég manninum mínum og við höfum verið saman síðan þá.
Við systurnar höfum alveg skipst í tvö horn á fullorðinsárum varðandi þrifin, þessi sífelldu þrif sem einkenndu æsku okkar. Sigga heldur öllu hreinu og fínu hjá sér og á fullkomið heimili á meðan ég hatast við húsverk og leyfi ástkærum eiginmanni mínum að sjá um þau en hjálpa honum auðvitað stundum. Ég sé um eldamennskuna og fjármálin sem hann er dauðfeginn að sleppa við. Bæði hæstánægð.
Allt kemur í ljós
Ég var að verða fertug þegar pabbi lést. Það var mikið áfall. Pabbi gerði alltaf sitt besta til að verja okkur þegar mamma tók æðisköstin sín, sagði okkur að fara niður, hann skyldi ræða málin við mömmu. Hún varð stundum enn æstari við það en við systkinin sluppum við skammir og jafnvel barsmíðar. Pabbi var vissulega ekki alltaf heima þegar mamma trylltist en nógu oft samt. Hún var stundum enn leiðinlegri við pabba en okkur og eftir að hann dó komumst við að ástæðunni. Pabbi hafði haldið fram hjá mömmu þegar Sigga var á fyrsta árinu og eignaðist barn með konunni, son sem var fæddur sama ár og ég. Mamma vissi af þessu frá upphafi og þetta eyðilagði líf hennar. Við áttum sem sagt bróður sem pabbi hafði aldrei þorað að vera í sambandi við vegna mömmu.
Syni pabba var ekki boðið í útförina og ekki var orði minnst á fjórða barn pabba í ræðu prestsins.
Fjarlægur bróðir og heilsuveil systir
Við Sigga urðum mjög spenntar þegar við fréttum að við ættum bróður en Gunni bróðir lét sér fátt um finnast. Hann hefur alltaf verið svolítið „fyrir sig“, eins og við systur orðum það, og vill sem minnst af öðrum vita. Hann og seinni konan hans kæra sig lítið um að vera í sambandi við okkur eða almennt annað fólk. Þau kjósa frekar að ferðast og njóta þess að vera bara tvö saman. Ég virði það alveg, fólk ræður lifi sínu sjálft en verst að þetta hefur bitnað á syni Gunna frá fyrra hjónabandi. Sá kærir sig svo sem kollóttan, hann á auðvitað góðar og hjálpsamar frænkur í okkur Siggu.
„Pabbi var vissulega ekki alltaf heima þegar mamma trylltist en nógu oft samt. Hún var stundum enn leiðinlegri við pabba en okkur og eftir að hann dó komumst við að ástæðunni.“
Sigga systir hefur alltaf verið frekar heilsuveil og síðustu árin hefur hún ekki getað unnið. Ég er viss um að uppeldið hjá erfiðri móður hafi eitthvað með það að gera. Sigga hefur alltaf verið slæm á taugum og líka óstjórnlega ábyrg. Hún er skapgóð, andstæðan við mömmu, og vill allt fyrir alla gera, jafnvel þótt hún hafi ekki orku í það. Líklega hef ég komist best út úr æskunni af systkinunum og er þakklát fyrir það.
Mamma er látin en síðustu árin hennar var hún út úr heiminum og þekkti okkur ekki. Hún gat svo sem ekkert öskrað á okkur eða reynt að stjórna okkur eftir að við fullorðnuðumst en við gættum þess þó alla tíð að styggja hana ekki.
Nýi bróðirinn
Einn daginn, ekki löngu eftir lát pabba, hringdum við systurnar í hálfbróður okkar sem tók okkur ekkert sérstaklega vel í fyrstu. Jú, hann vissi alltaf að hann ætti föður í Reykjavík og þrjú hálfsystkini en ekki mikið meira en það. Hann mýktist aðeins þegar ég útskýrði fyrir honum að við hefðum ekki vitað af tilveru hans fyrr en nýlega. Hann samþykkti að hitta okkur Siggu á kaffihúsi.
Hann hafði alist upp á landsbyggðinni, lengst fyrir norðan, og lítið verið í Reykjavík þar til hann flutti í bæinn með fjölskyldu sinni fyrir einhverjum árum. Hann hafði búið í Svíþjóð á námsárunum, ekkert skrítið þótt leiðir okkar hafi aldrei legið saman á pínulitla Íslandi.
Hann virðist vera fínn maður og er alltaf indæll í þau fáu skipti sem ég hringi í hann eða hitti, en ég er ekki sérlega vongóð um að samskiptin verði mikil eða náin. Allt of mörg ár liðu og nánast allan þann tíma fékk hálfbróðir okkar að heyra að pabbi hans og systkini kærðu sig ekkert um að þekkja hann.
Ég vona þó að með tímanum breytist þetta. Ég hef sagt honum að það sé pláss fyrir hann og fjölskyldu hans hjá okkur, þó fyrr hefði verið. Hann veit nú að mamma gerði líf okkar ansi erfitt vegna þessa framhjáhalds pabba sem hún hélt leyndu fyrir okkur og öllum öðrum. Það hefur án efa orsakað þessa miklu vanlíðan hennar sem bitnaði svona illa á okkur.
Tíminn verður svo bara að leiða í ljós hvort samskiptin við hálfbróðurinn verða meiri en ég vona það af öllu hjarta.