Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

Meiðandi orð

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni

Þegar dóttir mín veiktist af sjúkdómi sem síðar dró hana til dauða sagði ókunnugur maður eina setningu við mig sem hefur lifað með mér síðan. Enn skil ég ekki tilgang mannsins og mun eflaust aldrei gera það.

 

María, elsta barnið mitt, fékk krabbamein þegar hún var sjö ára gömul. Hún þurfti oft að sleppa skóla vegna veikindanna. Skólastjóranum fannst slæmt hvað hún missti mikið úr námi og vildi að hún fengi heimakennslu. Á þessum tíma vorum við vongóð um að Maríu batnaði og þá var mikilvægt að hún héldi í við skólafélagana.

Nýútskrifaður kennari, þó kominn yfir þrítugt, mætti á vegum skólans og kenndi Maríu heima. Hann var þybbinn, man ég, og virtist ágætur.

Fyrsta heimsóknin gekk vel en eftir annað skiptið þegar ég fylgdi kennaranum til dyra sagði hann við mig: „Mikið hlýtur þú að vera vond manneskja fyrst barnið þitt fékk krabbamein.“

Ég starði á manninn, kom ekki upp orði en opnaði dyrnar og hleypti honum út. Síðan gekk ég beint að símanum og hringdi í skólann. Eftir smábið fékk ég samband við skólastjórann og sagði honum hvað hefði gerst. Enn skil ég ekki hvers vegna ég brotnaði ekki niður þarna en mér hefur alltaf gengið vel að halda ró minni á erfiðum stundum. Skólastjórinn varð miður sín og lofaði því að þessi maður kæmi aldrei framar inn fyrir mínar dyr, það kæmi einhver annar.

„Kannski voru þetta illa orðuð samúðarorð hjá kennaranum, mér datt líka í hug að hann væri ofsatrúar…“

- Auglýsing -

Kannski voru þetta illa orðuð samúðarorð hjá kennaranum, mér datt líka í hug að hann væri ofsatrúar, syndir feðranna og allt það, en setningin hljómaði lengi í eyrum mér og mér hefur aldrei tekist að gleyma henni. Ég man ekki nafn þessa manns og myndi ekki þekkja hann á götu en ég get séð útlínur hans fyrir mér þar sem hann stóð við dyrnar og sagði þetta við mig.

Martraðarkenndur tími

Maríu batnaði og gat farið aftur í skólann en svo tóku veikindin sig upp og þannig gekk þetta næstu árin. Ég breyttist mikið á þessum tíma og næmni mín jókst. Einn daginn var ég ofboðslega kvíðin og eirðarlaus þar sem ég sat við sjúkrabeð Maríu, eitthvað slæmt var í aðsigi. Svo birtist maðurinn minn á spítalanum alvarlegur á svip og sagði mér að níu ára sonur okkar hefði dottið af bílskúrsþakinu heima við leik með vinum sínum. Hann hefði slasast mikið, væri illa brotinn en ekki í lífshættu.

- Auglýsing -

Nú átti ég tvö börn á spítala en á þessum tíma var María orðin ellefu ára og svo veik að ég vissi að hún kæmi ekki aftur heim.

Stundum rifjaðist upp setningin sem kennarinn sagði við mig og ég fylltist alltaf sjálfsásökun. Ég gat að vísu ekki verndað dóttur mína fyrir krabbameininu en kannski hefði ég getað komið í veg fyrir að sonur minn dytti af þakinu, ef ég hefði verið heima en ekki á spítalanum hjá Maríu. Ég ásakaði mig samt fyrir að vera vond móðir sem gat ekki passað börnin sín.

Næstu vikur voru erfiðar, bæði börnin þurftu mikið á mér að halda. Maðurinn minn vann fulla vinnu og sá um yngsta barnið en stundum kom hann því í pössun og stóð vaktina með mér. Hann hefur alla tíð staðið eins og klettur við hliðina á mér og ég hef einnig reynt að vera honum styrkur.

Einn daginn bað ég hann um að vera um nóttina og fram á næsta dag með mér, því María myndi deyja daginn eftir. Það var ekkert sem læknarnir höfðu sagt eða gefið í skyn og ástand hennar hafði ekki breyst frá því hvernig það var en ég bara vissi það.

Síðdegis næsta dag lést María í faðmi okkar foreldranna. Henni hafði versnað mikið upp úr hádegi og okkur voru ekki gefnar vonir um að nokkuð breyttist. Við vorum viðbúin en samt ekki. Það er ekki hægt að vera viðbúin því að missa barnið sitt.

Nú einbeittum við okkur að syni okkar en höfðum áður skipt tíma okkar á milli systkinanna eftir bestu getu. Hann lá í margar vikur á sjúkrahúsinu og þrátt fyrir að læknarnir hafi unnið kraftaverk stingur hann enn við, rúmum þrjátíu árum seinna. Þessi tími er í móðu hjá mér en ég man samt eftir gleðinni þegar drengurinn gat gengið hjálparlaust á nýjan leik.

„Komin strax á djammið?“

Mánuðirnir liðu, bati drengsins okkar var hægur en jafn og við glöddumst yfir því. Söknuðurinn eftir dóttur okkar var mikill en við þurftum að standa okkur fyrir yngri börnin, það var mikilvægast.

Einn daginn kom systir mín með tvo miða á skemmtun sem haldin var á vinsælum skemmtistað á þessum tíma. Okkur hjónin langaði nákvæmlega ekkert að fara en systir mín talaði okkur til. Hún sagði að við hefðum gott af því að hitta fólk og skipta um umhverfi þótt ekki væri nema eina kvöldstund. Hún skyldi passa börnin. Mamma og systir mín höfðu slegið saman í miðana sem kostuðu þó ekki mjög mikið en veikindi barnanna höfðu haft slæm áhrif á fjárhaginn svo við hefðum aldrei leyft okkur eitthvað svona. Ég hafði ekkert getað unnið í nokkur ár og maðurinn minn var ekki í hálaunastarfi.

Eitthvað varð ég samt vör við að fólk héldi að við hefðum fengið miklar bætur vegna barnanna en svo var sannarlega ekki. Það tók okkur mörg ár að vinna okkur út úr þeim skuldum sem söfnuðust upp – og þó var þjónusta í heilbrigðiskerfinu ókeypis á þeim tíma.

Á laugardagskvöldinu fórum við prúðbúin á skemmtistaðinn. Við höfðum ákveðið að fá okkur ekki vín, mögulega af ótta við að vekja upp sárar tilfinningar. Mér fannst að minnsta kosti mikið öryggi í því fólgið að þurfa ekki að bíða lengi eftir leigubíl heldur komast heim þegar við vildum.

Tónlistin var skemmtileg og vel flutt og þetta virtist ætla að verða góð kvöldstund, betri en við höfðum þorað að vona. Það þurfti samt ekki meira til en vanhugsuð orð drukkins manns til að eyðileggja allt. Þetta var gamall samstarfsmaður mannsins míns. Hann horfði á okkur og sagði svo við manninn minn: „Hei, varst þú ekki að jarða barnið þitt? Og bara kominn strax á djammið?“ Hvorugt okkar sagði nokkuð við manninn og hann ætlaðist kannski ekki til þess. Við flýttum okkur heim og þetta sat lengi í mér.

Sjálfskipaðir sorgarsérfræðingar

Fyrir tæpu ári missti vinkona mín uppkomið barn sitt í slysi og var í kjölfarið umvafin ættingjum og vinum sem hjálpuðu henni mikið. Nýlega sagði hún mér frá ýmsu sem hefði sært sig eða angrað í sorgarferlinu. Hún grætur helst ekki fyrir framan aðra, og ekki prestinn sem færði henni fréttirnar, og af því að hún brotnaði ekki niður fyrir framan hann sagði hann hana vera í afneitun sem var fjarri sanni.

Indæl eldri kona sem vann hjá kirkjunni kvaddi hana eftir erfidrykkjuna með því að segja: „Komdu til okkar hvenær sem þú þarft að tala …“ og bætti við; „þetta á eftir að verða svo miklu, miklu verra hjá þér.“ Ekki upplífgandi kveðjuorð, fannst vinkonu minni. Hún gerði sér fulla grein fyrir því að þetta yrði erfitt en þetta varð samt ekki verra, heldur öðruvísi. Misjafnir dagar þar sem þeim góðu fjölgaði jafnt og þétt.

Þegar vinkona mín reyndi að gleðjast yfir því að halda óskertri einbeitingu; geta lesið, fylgst með sjónvarpi og slíkt, öfugt við það sem búið var að segja henni, fékk hún að heyra að svona væri þetta bara rétt fyrst og tengdist áfallinu. Það reyndist líka vera rangt.

Fólk er svo ólíkt –það er engin uppskrift að sorg. Vinkona mín sagði reyndar að þetta hefði gert sér gott að því leyti að hún gat nöldrað yfir þessu og fengið þannig útrás. Það sem kannski sat lengst í henni og gerði hana óörugga um tíma var að þegar ættingi hennar var spurður um líðan hennar nokkrum mánuðum eftir missinn og sagði að allt gengi vel, þá sagði viðkomandi að sorgin ætti bara eftir að hellast yfir hana seinna af fullum krafti. Þvílíkt drama! Það eru greinilega til margir sjálfskipaðir sérfræðingar um sorgina, meina kannski vel en geta gert skaða.

Margir vita vissulega ekki hvernig þeir eiga að koma fram við syrgjendur og segja jafnvel eitthvað klaufalegt. Stundum léttir slíkt bara andrúmsloftið. Ég man eftir að hafa lesið um ekkju sem var óskað hjartanlega til hamingju í erfidrykkju manns hennar. Hún fór afsíðis og skellihló, þetta bjargaði deginum.

„Líf mitt er gott og margt að gleðjast yfir en mér finnst ég verða að koma þessari sögu frá mér, þótt ekki nema til þess að reyna að vekja skilning á því hversu mikil áhrif orð geta haft.“

Áratugir eru liðnir síðan stelpan mín dó og ég er hætt að finna fyrir sársauka og samviskubiti þegar orð kennarans koma upp í hugann. Ég hef unnið mikið í sjálfri mér og finnst ég loks vera að komast á þann stað sem ég vil vera á. Börnin mín eru öll mikið sómafólk og hafa gert mig að margfaldri ömmu. Við hjónin erum samstiga og ástin hefur ekkert minnkað. Líf mitt er gott og margt að gleðjast yfir en mér finnst ég verða að koma þessari sögu frá mér, þótt ekki sé nema til þess að reyna að vekja skilning á því hversu mikil áhrif orð geta haft. Stundum er betra að segja minna, faðma frekar og styrkja með nærveru.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -