Þrátt fyrir að hafa verið eitt virtasta og vinsælasta ljóðskáld þjóðarinnar glímdi Linda Vilhjálmsdóttir við vanmetakennd. Það endaði í djúpu þunglyndi sem hún var lengi að vinna sig út úr. Nú er hún komin á beinu brautina og gerir upp við líf sitt, sögu formæðra sinna og stöðu kvenna í samfélaginu í glænýrri ljóðabók sinni Smáa letrið.
„Mér finnst vera kominn nýr tónn í umræðuna í þjóðfélaginu,“ segir Linda spurð hvað hafi valdið því að hún tók þennan pól í hæðina í Smáa letrinu. „Fólk er að endurskoða líf sitt og tilveru og er tilbúið að rýna í það á nýjan hátt. Þótt það hafi komið smávegis bakslag í #MeToo-umræðuna, þar sem karlarnir eru að rísa upp og reyna að þagga niður í okkur á nýja leik, þá finnst mér við konur ekkert vera að missa dampinn og í rauninni er ég hissa á því hversu vel þessi umræða helst vakandi í þessu Facebook-samfélagi þar sem ekkert umræðuefni endist nema í mesta lagi út vikuna, sama hversu heitar umræður það vekur í upphafi.“
Aðspurð um þá tilfinningu að þurfa að passa inn í einhvern ramma eða fyrirfram gefnar hugmyndir um konur svaraði Linda: „Ég var næstum því búin að drepa niður alla mína sköpunargáfu með því að vera stöðugt að þvinga mig í stellingar sem ég vissi inn við beinið að hentuðu mér ekki. Ég var til dæmis mjög ósátt við það þegar ég hafði gefið út nokkrar bækur að vera alltaf að skrifa út frá persónulegri reynslu. Að vera alltaf að dúlla mér við eitthvað sem ég á þeim tíma var farin að skilgreina sem kvenleg blúnduljóð, sem væru lítils metin í bókmenntaheiminum og af lesendum. Ég væri þar af leiðandi hálfgert skúffuskáld.“
Eins og fram kemur í Smáa letrinu öðlaðist Linda smám saman nægjanlegt sjálftraust til að geta verið sátt við sjálfa sig eins og hún er, með kostum og göllum. En leiðin þangað var löng og krókótt.
Ég var næstum því búin að drepa niður alla mína sköpunargáfu með því að vera stöðugt að þvinga mig í stellingar sem ég vissi inn við beinið að hentuðu mér ekki.
„Ég fór í rosalegur dýfur áður en til þess kom,“ viðurkennir hún.
„Það liðu níu ár á milli Frostfiðrildanna sem ég skrifaði 2006 og Frelsis sem kom út 2015. Á þeim tíma lenti ég í algjörri ritteppu sem endaði í djúpu þunglyndi. Auðvitað spilaði margt fleira inn í, það var ekki bara það að ég gæti ekki skrifað,“ segir hún.
„Mamma og pabbi voru bæði að eldast og mjög veik og svo hætti ég að reykja sem tók rosalega á mig enda hafði sígarettan verið meðal við öllu, alveg frá pirringi yfir í hóstaköst. Ég hafði reykt frá því ég var þrettán ára gömul og fór endanlega yfir þunglyndisstrikið eftir að ég hætti að taka lyfið sem hjálpaði mér að hætta að reykja. Ég áttaði mig reyndar ekki á því sjálf að ég væri lasin, hélt alltaf að ég myndi taka eftir því ef ég lenti í sjúklegu þunglyndi. Ég var að passa mig á að gera allt sem ég átti að gera; fór í ræktina þrisvar í viku, mætti á mína sjálfshjálparfundi tvisvar í viku, fór út að ganga þá daga sem ég var ekki í ræktinni og var að reyna að skrifa. En einbeitingin var engin, ég gat ekki einu sinni lesið, það hlóðust upp bækur á náttborðinu því ég komst ekkert áfram,“ útskýrir Linda.
Ég áttaði mig reyndar ekki á því sjálf að ég væri lasin, hélt alltaf að ég myndi taka eftir því ef ég lenti í sjúklegu þunglyndi.
„Ég hélt að þetta væru bara svona leiðinlegar bækur en svo fór ég loks til sálfræðings til þess að vinna mig út úr ritteppunni, hélt að ef ég myndi vinna úr þeim áföllum sem ég hafði orðið fyrir í æsku gengi mér betur að skrifa. Sálfræðingurinn var búin að hafa orð á því þrjár vikur í röð að ég væri ansi þunglynd og döpur þegar ég kveikti loksins á perunni og spurði hvort henni fyndist að ég þyrfti að gera eitthvað í því. Ég hélt ég væri bara svolítið sorgmædd og leið. Mamma hafði dáið árið áður og allt hafði verið frekar erfitt.“
Í mögnuðu forsíðuviðtali við Vikuna gerir Linda upp þessa erfiðu tíma, drykkjuna, barnleysið og hið erfiða sjálfsniðurrif er aldrei leiðir til nokkurs góðs.
Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Elín Reynis