Vinkonurnar Þórunn Ívarsdóttir og Alexsandra Bernharð Guðmundsdóttir eiga ýmislegt sameiginlegt. Þær eru báðar flugfreyjur, háskólanemar og samfélagsmiðlastjörnur, svo fátt eitt sé nefnt. Örlögin réðu því að þær eru nú báðar óléttar af sínu fyrsta barni, en þær segja ótrúlega skemmtilegt að vera samferða í þessu ferli.
Þórunn hefur verið með manninum sínum Harry Sampsted í rúm fimm ár. Hún hefur talað opinskátt um baráttu sína við endrómetríósu (legslímuflakk) en sjúkdómurinn hefur valdið því að hún átti erfitt með að verða barnshafandi.„Ég var mjög glöð að þurfa ekki að sækja frekari aðstoð en þetta tókst á endanum á náttúrulegan hátt.“ segir Þórunn. „Ég hef farið í tvær aðgerðir síðan ég greindist árið 2015. Í haust ákváðum við að leita okkur læknishjálpar, en læknirinn sá vonarglætu að þetta gæti komið náttúrulega og gaf okkur smá tímaramma. Hún kom svo undir þegar við vorum á síðasta séns.“ Þórunn er komin 23 vikur á leið og er sett þann 2.september.
Alexsandra og maðurinn hennar, Níels Adolf Svansson eiga von á frumburði sínum þann 20.október, sem þýðir að Alexsandra er komin rúmar 16 vikur á leið. Þau voru byrjuð að huga að barneignum og má segja að „baunin“ hafi komið eins og kölluð. „Við erum búin að vera saman í 9 ár, og vorum farin að tala um að byrja reyna árið 2018. Ég fékk svo jákvætt próf fyrr en áætlað var og við erum mjög hamingjusöm með það.“ Segir Alexsandra.
Samrýndar
Þær vinkonur eru mjög samrýndar og það sannast einna best á því hvernig þær komust að óléttunni hjá hvor annarri. Þórunn segir þær hafa haft sínar grunsemdir þegar hún sjálf var ólétt en þegar kom að Alexsöndru hafi þær verið alveg grunlausar. „Alexsandra vissi í raun að ég væri ólétt á undan mér, en ég var búin að taka grátköst útaf mjög smávægilegum hlutum nokkrum dögum áður. Sem dæmi má nefna að ég fór að gráta í afgreiðslu BL þegar ég fékk bílinn minn ekki til baka úr viðgerð á réttum tíma en þá var minni konu farið að gruna ansi margt. Þar sem að hún vissi að við værum að reyna, en svo var þetta allt öðruvísi þegar við komumst að því að Alexsandra væri ólétt. Hún nefndi við mig að hún væri 5 dögum of sein að byrja á blæðingum. Þá píndi ég hana til að taka próf. Við fórum í þrjú apótek þangað til að við fundum eitt opið. Síðan komu niðurstöðurnar okkur svolítið á óvart en þetta var hreint út sagt yndislegt. Það var samt mjög erfitt að halda þessum upplýsingum út af fyrir sig í átta vikur.“
Ég fór að gráta í afgreiðslu BL þegar ég fékk bílinn minn ekki til baka úr viðgerð á réttum tíma en þá var minni konu farið að gruna ansi margt.
Báðar að berjast við ógleði
Þær stöllur hafa ekki farið varhluta af ógleði og öðrum fylgikvillum sem fylgja oft fyrstu vikum meðgöngunnar. „Ég var óvinnufær fyrstu frá 6-16 viku og þá var mjög erfitt að halda þessu leyndu frá fólkinu í kringum mig. Ég var með lágan blóðþrýsting og kastaði upp um það bil 6 sinnum á dag. Vegna orkuleysis og uppkasta leið yfir mig og rotaðist ég á baðherbergisgólfinu dágóða stund. Suma daga komst ég ekki út úr húsi en um leið og ég hætti að vinna fór allt upp á við“ segir Þórunn.
Alexsandra hefur svipaða sögðu að segja „Mér byrjaði að líða frekar illa svona tveimur vikum eftir að ég kemst að ég er ólétt. Var óglátt stanslaust allan sólarhringinn en byrjaði síðan ekki að kasta upp fyrr en á tíundu viku og er ennþá að kasta upp.mÉg er búin að vera svolítið hressari en Þórunn en á mína slæmu daga.“
Þórunn og Harry vita kynið og eiga von á stelpu. Alexsandra og Níels hafa einnig ákveðið að kíkja í pakkann og eiga pantaðan tíma í sónar hjá 9.mánuðum þann 17.maí. Alexsandra segist hafa á tilfinningunni að það sé strákur á leiðinni en Þórunn giskar á stelpu. „Fyrst var ég 100% viss að það væri strákur hjá henni, núna fæ ég smá efasemdir aftur.“
Eins og fylgjendur þeirra á samfélagsmiðlum hafa tekið eftir eru þær byrjaðar að undirbúa komu erfingjanna. Aðspurð segist Alexsandra búin að vera ansi dugleg að kaupa föt en sé ekki komin með neitt annað. „Ég er alveg handviss um hvernig ég vil hafa hlutina og hvað ég ætla að kaupa. Ég ætla að byrja formlega á undirbúningnum þegar ég hætti að vinna.“
Þórunn segist vera komin með leyfi til að byrja að innrétta barnahornið 1.júlí. „Mér finnst fínt að dreifa kostnaðinum yfir nokkra mánuði. Ég veit líka alveg hvernig ég ætla að hafa allt en það er kannski betra að gera einn hlut í einu svo hinn helmingurinn fái ekki taugaáfall. Annars er náttúrulega stórhættulegt að vera saman í þessu, þar sem við erum báðar duglegar að versla og núna langar okkur að kaupa allt fínt og flott handa krílunum.“
Þær segjast fyrir utan það að versla barnaföt aðallega vera í því að vera þreyttar og svangar saman. „Við espum hvor aðra upp og fáum okkur eitthvað rosalega gott að borða, því okkur finnst við eiga það skilið. Við erum alltaf svangar“ segja vinkonurnar að lokum.
Myndir: Hákon Björnsson
Ítarlegra viðtal við Þórunni og Alexsöndru má finna í 17.tölublaði Vikunnar