Þingmenn Miðflokksins, formaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Bragi Sveinsson mættu ekki á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem nú stendur yfir.
Til fundarins var boðað vegna upptaka af Klaustur bar þar sem m.a. mátti heyra Gunnar Braga og Sigmund Davíð Gunnlaugson tala frjálslega um skipanir í sendiherrastöður. Auk þess sem þeir Sigmundur Davíð og Gunnar Bragi, samflokkskona þeirra og tveir fyrrverandi þingmenn Flokks fólksins hæddust þar að konum, minnihlutahópum og samstarfsfólki sínu á Alþingi.
Þingmennirnir sendu báðir frá sér harðorðar yfirlýsingar sem Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður nefndarinnar, las upp í byrjun fundar, en í yfirlýsingu Gunnars Braga kemur m.a. fram að hann ætli ekki að taka þátt í sýningu sem sé haldinn til að koma höggi á pólitíska andstæðinga.
Tekur Sigmundur Davíð í svipaðan streng. „Ég tel óforsvaranlegt að formaður nefndarinnar ætli að halda fund til að ræða ályktanir sem að hún vill sýnilega draga af illa sundurklipptum hlljóðklippum af veitingahúsaspjalli sem aflað var með refsiverðum hætti.“ Í yfirlýsingu sinni segir Sigmundur jafnframt ómögulegt að segja til um hvað hafi verið klippt úr og hvað hafi verið soðið saman á upptökunum.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, eru viðstaddir fundinn þar sem verið er að ræða skipan í sendiherrastöður.