Fimmtudagur 26. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

 „Mikilvægt að missa ekki trúna á draumana“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nýlega horfðu menningarþyrstir landsmenn á aðventutónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands á RÚV. Þar steig á svið og söng Álfheiður Erla Guðmundsdóttir óperusöngkona og heillaði alla sem á hlýddu. Hún hefur þegar slegið í gegn í Þýskalandi og var af því tilefni í viðtali í Vikunni. Álfheiður Erla hefur átt mikilli velgengni að fagna og fékk m.a. hlutverk í Staatsoper Unter den Linden, einu virtasta óperuhúsi í borginni, sem er í fremstu röð í heiminum. 

Það var mikil molla í Berlín daginn sem við Álfheiður hittumst. Hitinn búinn að fara í 30 stig yfir daginn og stefndi í þrumuveður. Loftið var þungt og skýjabakkarnir hrönnuðust upp og við rétt sluppum inn á rólegan stað, áður en dramatískar eldglæringar tóku að blika á lofti og þrumurnar drundu rétt við okkur með þvílíku offorsi að minnti á Wagner-óperu. Við  komum okkur fyrir og hlæjum dátt að því að þetta séu nú heldur betur viðeigandi aðstæður og veðurfar til að eiga orðastað við óperusöngkonu.

Álfheiður hefur lagt stund á tónlist síðan hún var barn og á ekki langt að sækja áhugann á tónlist. Móðir hennar, Valgerður Jónsdóttir, er músíkmeðferðarfræðingur og hefur um árabil rekið Tónstofu Valgerðar og faðir hennar er Guðmundur Emilsson, tónlistarstjórnandi og fyrrverandi tónlistarstjóri RÚV.

Berlín og Reykjavík tveir ólíkir og skapandi heimar

Nú fórst þú strax eftir að þú kláraðir stúdentspróf og framhaldspróf frá Söngskóla Sigurðar Demetz til Berlínar og ert búin að vera búsett í borginni í fimm ár. Eiga borgir eins og Reykjavík og Berlín eitthvað sameiginlegt í þínum huga? „Það að geta hjólað eða hoppað upp í lest og farið hvert sem er, eins og maður gerir hér í Berlín, er mikið frelsi. Og veðrið hér gerir þetta allt mjög þægilegt. Ég hugsa stundum um það þegar ég er á Íslandi hvað það væri nú gott ef samgöngurnar hjá okkur væru betri og einfaldari. Heima er ég svo háð því að fá lánaðan bíl eða þarf skutl í allar áttir. Hins vegar sakna ég náttúrunnar á Íslandi. Að geta farið út fyrir bæinn og notið þess að liggja í kyrrð í mosa eru mikil forréttindi,“ segir Álfheiður og brosir sínu bjarta og einlæga brosi. „Það að vera einhvers staðar einn úti í náttúrunni er svo einstök tilfinning. Berlín og Reykjavík eru báðar miklar menningarborgir, en í Berlín er stutt talsvert meira við listalífið. Hún er líka fremur ódýr borg og þess vegna alveg kjörin fyrir ungt listafólk. Auðvitað er hér meiri mannfjöldi og klassíska tónlistarsenan m.a. þess vegna mjög stór. Hér eru allar umboðsskrifstofurnar og tónlistarútgefendurnir. Framboðið af tónleikum í óperuhúsunum og tónleikasölunum er óþrjótandi. Hérna er maður í miðri hringiðunni.

„Ég hugsa stundum um það, þegar ég er á Íslandi, hvað það væri nú gott ef samgöngurnar hjá okkur væru betri og einfaldari. Heima er ég svo háð því að fá lánaðan bíl eða þarf skutl í allar áttir. Hins vegar sakna ég náttúrunnar á Íslandi.“

Á  Íslandi þurfa listamenn að hugsa meira út fyrir boxið og skipuleggja sína viðburði sjálfir og þá getur komið sér vel hvað samfélagið er lítið og allir þekkja alla. Það getur verið mjög skapandi en líka krefjandi. En því miður hentar Reykjavík ekki söngvurum sem leita eftir fastri vinnu í óperuhúsi. Það væri þó óskandi að geta búið á Íslandi og sinnt ferlinum í Evrópu en ég er viss um að þá þyrfti maður heldur betur að kolefnisjafna öll ferðalögin. Berlín og Reykjavík eru tveir heimar, finnst mér, en borgirnar eiga það sameiginlegt að vera mjög skapandi þó að það sé með ólíkum hætti.“

- Auglýsing -

Íslensk Mjallhvít í Ríkisóperunni

Ætlaðir þú alltaf að verða söngkona? „Ég tel mig mjög lánsama að hafa alltaf vitað hvað ég vildi verða. Auðvitað hefur það kosti að staldra við, vera opin og prófa hluti. En það er líka gott að vita hvað maður vill því þannig nýtist tíminn vel og margar ákvarðanir verða auðveldari. Ég vildi sem stelpa verða leikkona og söngkona. Það má segja að óperusöngur sé þetta hvort tveggja,“ segir Álfheiður og brosir íbyggin.

Svo fékkstu aðalhlutverkið, hlutverk Mjallhvítar (Schneewittchen) í samnefndri  barnaóperu Engelberts Humperdincks/Wolfgang Mitterer í Staatsoper, einu af þremur stærstu óperuhúsum Berlínar, sem er óperuhús á heimsmælikvarða. Hvernig atvikaðist það? „Við vorum í skólanum að setja upp óperuna Il gondo della luna, eftir Haydn  sem var sex vikna krefjandi verkefni. Prófessorarnir við skólann komu og fylgdust með æfingum, þeir voru að skoða samstarf okkar við leikstjórann sem var utanaðkomandi. Við vorum þá nokkur sem voru valin úr til að syngja fyrir í Staatsoper. Ég var svo valin úr þeim hópi og átti að vera á frumsýningunni. En þá gerðist það leiðinda óhapp, nokkrum dögum fyrir frumsýningu að ég viðbeinsbrotnaði auk þess að sauma þurfti nokkur spor í neðri vörina. Aumingja læknirinn sem tilkynnti mér þetta fékk yfir sig mjög dramatísk viðbrögð frá mér. Ég var alveg miður mín að þurfa að vera í fatla næsta mánuðinn og geta ekki tekið að mér hlutverkið. En það má segja að fall sé fararheill, því mitt í öllum vonbrigðunum gerðist undrið.

- Auglýsing -

Stuttu eftir áfallið fékk ég tölvuskeyti og var boðið að koma aftur og syngja fyrir í Staatsoper. Ég var ekki fær um að fara í fötin eða svo mikið sem greiða mér en unnusti minn, Valgeir Daði Einarsson, sýndi aðdáunarverða þolinmæði og hjálpaði mér með þetta. Mér leið illa, var í uppnámi yfir þessu öllu og alls ekki tilbúin að fara að syngja og gerði mér því ekki miklar vonir. En ég hugsaði, þetta tækifæri kemur ekki aftur. Ég fór bara með fatlann við minn  fínasta kjól og leið ferlega illa. Ég fór í prufuna og reyndi eins og ég gat og var boðið aðalhlutverkið, hlutverk Mjallhvítar. Ég átti alls ekki von á þessu og var óskaplega hissa og glöð. Kannski hjálpaði að ég er dökkhærð með sítt hár eins og Mjallhvít á að vera,“ segir Álfheiður af hógværð og hlær. „Að fá hlutverk í Staatsoper eru mikil forréttindi. Frábært að fá svona starfsreynslu á meðan ég er enn í námi. Þetta ýtir mjög undir að ég fái fleiri góð verkefni. Draumurinn er svo að komast á fastan samning við eitthvert óperuhúsanna, ef guð lofar, og þau eru mörg mjög góð í Þýskalandi.“

Söngstúdíóin, röddin og hlutverkin

Þú hefur auk þess að fá hlutverk í Staatsoper fengið margvíslegar viðurkenningar „ Já, ég er  m.a. „Britten Pears Young Artist“  og styrkþegi „Yehudi Menuhin live music now Berlin.“ Fyrr á þessu ári var ég líka valin til að taka þátt í „Song studio for young vocalists“ hjá Renée Fleming í Carnegie Hall í New York. Næsta haust rætist svo sá draumur minn að verða meðlimur í óperustúdíói. Þetta er Thüringer Opern-stúdíóið sem er m.a. staðsett í Weimar. Þar verð ég í fullu starfi. Mörg stóru óperuhúsin hafa óperustúdíó en þar fá ungir söngvarar nauðsynlega þjálfun. Ég er ekki búin að ljúka mínu námi, þannig að þetta verður svolítið  strembið púsluspil. Ungu söngvararnir eru á launum þó ekki séu það alveg bestu launin. Þeir fara með minni hlutverkin og læra að taka þátt í stórum sýningum.

 „Oftast nær er kirkjan þétt setin af góðum vinum og fjölskyldu og þá verð ég ofurmeðvituð um sjálfa mig og finnst ég verða að standa mig mjög vel því nú er ég komin heim til að syngja. Þá vil ég gera allt svo vel.“

Í þessu stúdíói er aðalhúsið í Weimar en þeir eru líka í sambandi við fleiri hús og senda sína kandidata þangað. Í stúdíóunum eru ungu söngvararnir undir verndarvæng þeirra sem stjórna og fá mikið að gera. Ég hef heyrt að það sé stundum of mikið að gera miðað við að þessi starfskraftur er á skertum launum. Þannig virðist stundum vera tilhneiging til að nýta sér þessar aðstæður.“

Þú hefur sungið mörg hlutverk, m.a. Súsönnu í Brúðkaupi Figarós eftir Mozart, Marzelline í Fidelio eftir Beethoven og Poppeu í L‘incoronazione di Poppea eftir Montiverdi. Hvaða hlutverk langar þig mest til að syngja? „Þetta er ekki einföld spurning,“ segir Álfheiður og verður mjög hugsi. „Vegna þess að hlutverkin verða að henta röddinni. Ég er léttur lýrískur sópran og ef ég er raunsæ og miða við minn aldur, þá henta Mozart og Händel mér mjög vel núna. Það væri t.d. æðislegt að fá einn daginn að syngja hlutverk Konstanze í Brottnáminu úr kvennabúrinu eftir Mozart. Það væri líka frábært að fá að spreyta sig á Anne Truelove í Rake‘s Progress eftir Stravinsky og að syngja Kleópötru í Júlíusi Caesar efir Händel. Svo breytist röddin og þá hlutverkin með. Í framtíðinni væri gaman að syngja greifaynjuna í Brúðkaupi Fígarós í staðinn fyrir Súsönnu, svo ég taki smádæmi. En það er alveg klárt mál að ég mun ekki syngja aðalhlutverk í Wagner-óperum, til þess þarf dramatíska rödd sem yfirgnæfir stóra hljómsveit,“ segir Álfheiður og brosir kankvís.

Áheyrendur á Íslandi og í Berlín og íslensku sönglögin

Þú hefur líka sungið mikið á Íslandi, eins og í tónleikaröðinni „Perlur íslenskra sönglaga“ og á Menningarnótt síðastliðin fjögur ár. Er einhver munur á því að syngja fyrir Berlínarbúa eða Íslendinga? „Það er yndislegt að syngja heima eins og í „Perlum íslenskra sönglaga,“ allir þekkja lögin og allur salurinn syngur með í huganum, sem er dásamlegt. Það getur líka verið svolítið stressandi að koma fram á tónleikum heima eins og ég hef gert í Dómkirkjunni  á Menningarnótt. Oftast nær er kirkjan þétt setin af góðum vinum og fjölskyldu og þá verð ég ofurmeðvituð um sjálfa mig og finnst ég verða að standa mig mjög vel því nú er ég komin heim til að syngja. Þá vil ég gera allt svo vel. Þjóðverjar klappa mjög mikið eftir sýningar, eiginlega stundum of mikið finnst mér,“ segir Álfheiður og kímir, „á meðan Íslendingar láta minna klapp nægja. Í Þýskalandi syng ég á þýsku eða ítölsku. Þegar sungið er á móðurmáli þjóðverja er efnið þeim af eðlilegum ástæðum kunnuglegra. Stór hópur hér í Þýskalandi er alinn upp við að heyra t.d. Töfraflautuna, af því að hér hefur öll þessi tónlist verið stunduð svo lengi.

„Áttu þér íslenskt uppáhaldssönglag? „Já ætli það sé ekki „Vökuró“ eftir tónskáldið og fyrirmyndina Jórunni Viðar. „Smávinir fagrir“, ljóð Jónasar Hallgrímssonar við lag Jóns Nordal, er líka í miklu uppáhaldi, en það er reyndar kórlag. Svo er lagið „Hvíld“ eftir Huga Guðmundsson líka yndislegt. Ég á svo margar skemmtilegar minningar frá veru minni í Hamrahlíðarkórnum þar sem við sungum öll þessi fallegu lög og það er mjög erfitt að gera á upp á milli þeirra. Það fer svo mikið eftir stemningunni hverju sinni hvað maður vill hlusta á. Tónlist tengist svo mikið minningum okkar og tilfinningum.“

Allt getur gerst

Hvað gefur söngurinn þér sem önnur störf, þó mikilvæg séu, gefa þér ekki? „Það að eiga töfrastund með fólki og flytja lifandi tónlist finnst mér heillandi. Þetta er stund, þar sem allt annað er útilokað. Þetta er líka stund þar sem allt getur gerst. Í óperunum mætast mörg listform og mynda eina heild. Texti og tónlist sem búið er að semja ásamt búningum og allri umgjörðinni sem hefur verið búin til. Að fá tækifæri til að taka þátt í þessu ferli er alveg mögnuð tilfinning. Sá möguleiki að geta hreyft við fólki er alveg stórkostlegur. Að gefa af sér og fá kannski þakklæti frá áhorfandanum. Það jafnast ekkert á við það.“

 „Já mér finnst svo mikilvægt í öllu atinu og áreitinu sem dynur á okkur daglega að missa ekki trúna á draumana sem við eigum. Mér finnst lífið hafa kennt mér að ef unnið er að því að láta draumana rætast, þá getur allt gerst. Að trúa á drauminn sinn, jafnvel þó að þér finnist allar aðstæður vera þér andsnúnar og allir vera klárari og betri en þú.“

Hver finnst þér vera tilgangur listarinnar? „Að segja sögur, segja allskonar, mismunandi sögur. Að vekja fólk mögulega til umhugsunar, hrífa fólk með sér. Segja sögur þar sem allar tilfinningar eru leyfilegar. Að snerta fólk, það er kjarninn.“

Er eitthvað sem þú vilt nefna að lokum? „Já mér finnst svo mikilvægt í öllu atinu og áreitinu sem dynur á okkur daglega að missa ekki trúna á draumana sem við eigum. Mér finnst lífið hafa kennt mér að ef unnið er að því að láta draumana rætast, þá getur allt gerst. Að trúa á drauminn sinn, jafnvel þó að þér finnist allar aðstæður vera þér andsnúnar og allir vera klárari og betri en þú. Að halda draumnum sínum alltaf lifandi,“ segir Álfheiður af sinni einstöku  einlægni. Við látum þessa fallegu hvatningu verða lokaorðin í spjalli okkar. Söngkonan unga og efnilega og ég röltum úti í heitt og rakt sumarkvöldið. Allar eldglæringar eru á bak og burt. Loftið hefur hreinsast, stórvöxnu trén við götuna hafa fengið langþráða vökvun og laufið blaktir hátíðlega í kvöldgolunni.

Texti: Svala Arnardóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Elsta tímarit landsins um daglegt líf, tísku, menningu, mat og lífsstíl.

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu vikuleg tölublöð á 832 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 1.795 kr.

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -