Arnar Pálsson flugvirki segir frá áhugaverðum stöðum í Delitzsch í Þýskalandi.
„Ég kynntist Maríu í Yakutsk í Síberíu og þar giftum við okkur. Við eigum saman tvö börn. Fyrir átti María einn son og ég átti tvær dætur og einn son. Við búum fimm saman hér í Delitzsch en börnin mín þrjú búa hjá mömmu sinni í Reykjavík.
María flutti fyrst til Íslands og við bjuggum saman í Keflavík í tæplega sex ár. Fyrir fjórum árum fékk ég einfaldlega nóg af ástandinu heima og fann vinnu á flugvellinum í Leipzig. Fyrstu tvö árin flaug ég á milli, vann í 14 daga og átti 14 daga frí á milli. Þar sem tækifærið var komið fór ég að undirbúa að flytja fjölskylduna með mér til Þýskalands og í ágúst í hittiðfyrra fluttum við út. Við keyptum okkur hús í júní á síðasta ári og líkar vel hérna. Það er svo miklu auðveldara að lifa hér en á Íslandi. Verðlag, úrval og gæði matvöru eru ekkert í líkingu við það sem er á Íslandi. Heilbrigðiskerfið virkar mjög vel og aldrei þurfum við að taka upp veskið þegar við hittum lækna. Lánavextir hér eru ekkert í líkingu við það sem þú sérð á Íslandi,“ segir Arnar.
„Það er svo miklu auðveldara að lifa hér en á Íslandi. Verðlag, úrval og gæði matvöru eru ekkert í líkingu við það sem er á Íslandi.“
„Delitzsch er mjög þægilegur bær að búa í en íbúar eru tæplega 20.000 talsins. Við búum í útjaðrinum svo það er ofsalega rólegt kringum húsið okkar og mjög öruggt fyrir börnin að leika úti. Delitzsch er mitt á milli Leipzig og Halle og tekur ekki nema um 20 mínútur að keyra þangað ef okkur vantar eitthvað á öðrum hvorum staðnum.
Hér eru margir áhugaverðir staðir. Delitzsch-kastali (sjá mynd hér að ofan) og garðurinn þar í kringum er virkilega flottur.
Hér er Porsche-verksmiðja þar sem hægt er að prófa bíla og skoða safn og hér er líka BMW-verksmiðja.
Miðborg Leipzig er heillandi og skemmtileg og ég hvet fólk til að ganga þar um og skoða. Gröf Johannesar Sebastians Bach er í Thomas-kirkju, hæsta minnismerki Evrópu er á staðnum en það var reist til minningar um fyrsta sigurinn gegn Napóleon árið 1813 og er kallað The Monument to the Battle of the Nations.“
Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir.