Sonja Arnardóttir slasaðist illa í bílslysi en keppir nú í fitness.
Fyrir sex árum ákvað Sonja að taka allhressilega til í sínu lífi. Hún ákvað að setja sjálfa sig í fyrsta sæti og hóf að stunda líkamsrækt af kappi. Á síðasta ári byrjaði hún að þjálfa fyrir sitt fyrsta fitness-mót. Í dag er hún hraustari en hún hefur nokkurn tímann verið og stefnir ekki að því að hætta að hreyfa sig í bráð.
Í desember 1991 var hún á ferð í Borgarfirði þegar hún keyrði óvænt inn á mikið ísingasvæði með þeim afleiðingum að hún missti stjórn á bílnum og hann fór nokkrar veltur. Sonja var ekki í öryggisbelti og kastaðist langa leið út um framrúðu bílsins. Hún var með meðvitund allan tímann og man vel sársaukann og brothljóðin þegar bein líkama hennar fóru í sundur. Með henni í för var fyrrverandi eiginmaður hennar sem slasaðist mikið í andliti. Þau voru svo heppin að aðrir vegfarendur komu fljótlega á vettvang til hjálpar og þar á meðal var sjúkraflutningamaður sem sá til þess að Sonja var ekki hreyfð fyrr en læknir og sjúkrabíll voru komnir á staðinn.
Sonja átti erfitt með andardrátt og hélt í raun að hún væri að deyja. Við tóku margar aðgerðir, löng sjúkrahúsvist og endurhæfing. Ljóst var að þessi unga kona næði aldrei fullri heilsu aftur. Í raun var hún stálheppin að mænan skyldi ekki fara í sundur. Nú nærri þremur áratugum síðar er hún enn að takast á við líkamlegar og andlegar afleiðingar slyssins en telur að það stranga mataræði og agi sem fylgir fitness-íþróttinni hafi hjálpað sér mikið. Hún lætur enga bilbug á sér finna og stefnir á að keppa aftur á mótum í ár.
Viðtalið í heild má finna í nýjasta tölublaði Vikunnar.
Texti / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Björg Alfreðsdóttir
Fatnaður / Lindex og Vila